Börn njóta þess að fá spurningar sem hafa ekkert eitt rétt svar

22.08.2018 | Skólinn

Börn njóta þess að fá spurningar sem hafa ekkert eitt rétt svar

Dr. Hrafnhildur Ragnarsdóttir, sem lætur á árinu af störfum eftir 42 ára starf við Menntavísindasvið og Kennaraháskóla Íslands, stefndi sumum af fremstu sérfræðingum heimsins í mál- og læsisrannsóknum til ráðstefnu á Íslandi í liðinni viku. Fjöldi fólks sótti ráðstefnuna og góður rómur var gerður að erindum fyrirlesaranna. Tilgangurinn var að upplýsa íslenskt skólafólk um nýjustu rannsóknir og efla með því umræðu hér á landi um þessi brýnu viðfangsefni.

Það er ósk Hrafnhildar

Fyrst steig á svið aðalfyrirlesari ráðstefnunnar, Catherine Snow prófessor við Harvard Graduate School of Education. Hún lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að efla gagnvirkt samband rannsóknarsamfélagsins og menntastofnana. Benti hún á hvernig það hefur verið gert með góðum árangri í svokölluðu SERP-verkefni í Bandaríkjunum. Hún benti á að efling orðaforða nemenda væri ein af megináskorunum flestra skólakerfa. Í því skyni væri rík ástæða til að auka hlut samræðu í kennslu, ekki aðeins á milli kennara og nemenda heldur ekki síður á milli nemendanna sjálfra. Góður árangur hefði náðst með því að láta nemendur ræða ýmis álitamál sín á milli. Með því að skapa góða umræðumenningu og hvetjandi andrúmsloft mæti auka við og efla bæði orðaforða og málskilning barna, sérstaklega ef viðkomandi mál er ekki móðurmál viðkomandi.

Catherine segir raunverulega samræðu afar fátíða í skólum enda ofmeti kennarar yfirleitt þennan þátt hjá sér. Hins vegar væri hún afar öflugt tæki til að bæta gagnrýna hugsun, mál- og lesskilning. Þá benti hún á að mikilvægt sé að spyrja börn spurninga án þess að ætlast endilega til ákveðins svars: „Börn njóta þess virkilega að fá spurningar sem hafa ekkert eitt rétt svar. Þá eru þau ekki að velta fyrir sér hvaða svar það er sem kennarinn vill heyra.“

Í umræðum eftir fyrirlesturinn ræddu þær Catherine og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra stuttlega tengsl umbótahugmynda í menntakerfum Vesturlanda og þeirra pólitísku hræringa sem við höfum orðið vitni að upp á síðkastið.

„Ég ætla að leyfa mér að koma með þá tilgátu að að menntakerfi heimsins hljóti að batna mjög á næstu árum vegna Trumps.“ sagði Lilja. Catherine greip þennan þráð á lofti og sagði meðal annars: „Við höfum gert þau mistök að halda að siðferðileg álitamál séu einkamál heimspekinga þegar staðreyndin er sú að daglegt líf úir og grúir af þeim.“

Börn þurfa að nota sjaldgæf orð
Vibeke Gröver, prófessor og fyrrum forseti Menntavísindasviðs Oslóarháskóla var næst á svið.

Hún ræddi meðal annars skiptingu orðaforðans í algeng og sjaldgæf orð. Miklu máli skipti að byrja strax í leikskóla að auka hlut sjaldgæfra orða í orðaforðanum. Það væri sérstök áskorun í norrænum leikskólum þar sem byggt væri á frjálsum leik og hefðbundnum samskiptum. Mikilvægt væri að lesa fyrir börnin og fá þau til að velta fyrir sér mismunandi sjónarhornum. Leikskólakennarar væru í kjörstöðu til að ræða efni bóka við börn og fá þau til að tala saman.

Vibeke benti á að meðal þess sem hefur hvað mest áhrif á máltöku annars máls sé menntunarstig móður, hverfið sem barnið býr í og styrkur móðurmáls.

Ekki hjálpa barninu strax
Diana Leyva hefur rannsakað málþroska og læsi tvítyngdra barna sérstaklega. Hún benti á að gott væri að byggja íhlutun á styrkleikum hverrar fjölskyldu. Rakti hún síðan verkefni sem byggir á því að nota matarmenningu og matarsiði til eflingar málþroska. Allur gangur væri á því hve mikinn aðgang börn hefðu að bókum, söfnum eða öðrum hvetjandi björgum. Yfirleitt væri þó hægt að reiða sig á að oftast snýst heimilislíf á einhverjum tímapunkti um mat, matargerð og matarsiði. Í stórri rannsókn var fylgst með mæðrum sem fengu það verkefni að búa til innkaupalista með börnum sínum og fara í kjölfarið í búðarleik. Áhrifin voru greinileg. Um leið kom í ljós að árangurinn var mestur þar sem mæðurnar sýndu biðlund og reyndu ekki að stýra börnum sínum um of. Foreldri sem stekkur of snemma til við að hjálpa barninu við verkefnin dregur úr færni barnsins til lengri tíma. Að þessu leyti er þolinmæði dyggð og ástæða til að hlífa börnum ekki um of við að glíma við verkefnin.

Spurðu krefjandi spurninga í bland við léttari
Ageliki Nicolopoulou er prófessor við sálfræðideild Leigh-háskóla í Bethlehem í Pennsylvaníu. Hún ræddi muninn á spurningategundum sem kennarar nota þegar þeir lesa fyrir börn. Í ljós hefur komið að gott er að nota blöndu af einföldum og vitsmunalega krefjandi spurningum. Það, hvernig spurninga kennarar spyrja, getur haft áhrif á viðbrögð barnanna og skilning á framvindunni.

Ekki skrifa bara sögur
Rannveig Oddsdóttir hjá Miðstöð skólaþróunar hjá Háskólanum á Akureyri benti á að íslenskir kennarar leggi megináherslu á hinn tæknilega þátt ritunar og tiltölulega einsleitar tegundir texta. Flest börn nái ágætum framförum í ritun frásagnar en mun minni í ritun upplýsingatexta eða fræðitexta. Börn hafi því flest ágætan grunn til frekari ritunar en byggja þurfi meira á þeim grunni. Rannveig telur að efla þurfi ritunarþáttinn í grunn- og símenntun kennara.

Þriðjungur af skrifunum er og á stundum að vera þvæla
Victoria Johannson, frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð, benti á fróðlegar staðreyndir um textainnslátt fólks. Þrettán ára nemendur eyða að jafnaði um þriðjungi þess texta sem þeir skrifa. Það er svipað hlutfall og hjá sautján ára. Fimmtán ára nemendur eyða þrefalt minni texta. Skýringin er býsna áhugaverð.

Þrettán ára barn sem vélritar frásögn tekur sér oft andrými og hugsar sig um. Í stað þess að sitja hreyfingarlaust þá heldur það áfram að skrifa á skjáinn þótt skrifin séu bara einhver þvæla, í mörgum tilfellum ekki einu sinni orð. Þegar hugurinn hefur svo náð í skottið á skrifunum er þvælunni bara eytt og skrifin halda áfram. Börnin „hugsa upphátt“ með fingrunum. Fimmtán ára börn eru að mestu hætt að „krota“ með þessum hætti. Þegar þau breyta texta (fyrir utan augljósar innsláttarvillur sem allir aldurshópar leiðrétta) er það yfirleitt til að skipta út einstökum orðum eða hugtökum. Sautján ára nemendur eru eins og hinir fimmtán ára að því leyti að yfirleitt er verið að skipta út því sem skrifað hefur verið. Munurinn er þó sá að nemendur á þessum aldri geta skipt út heilum setningum eða jafnvel málsgreinum.

Það er sérstakt umhugsunarefni fyrir íslenskt skólafólk að við skárum okkur úr í alþjóðlegum samanburði í þeirri rannsókn sem Victoria fjallaði um. Íslensk ungmenni virðast öðlast ritfærni (svona mælda) óvenju hægt og eru komin í háskóla þegar þau eru á sama stað og framhaldsskólanemar í öðrum löndum. Það getur verið vísbending um að auka þurfi vægi ritunar á framhaldsskólastigi og í efstu bekkjum grunnskóla.

Það þarf ekki að misskilja mörg orð til að misskilja allan textann
Sigríður Ólafsdóttir, lektor í máltöku og læsisfræðum, benti á að ritfærni byggir að verulegu leyti á því að tileinka sér þann hluta orðaforðans sem telst til „lágtíðniorða“. Þar á meðal er hinn fræðilegri hluti orðaforðans. Slíkur orðaforði er sjaldnast stór hluti venjulegra frásagna. Hann er aftur á móti grundvallarþáttur annarra textagerða sem leggja mætti meiri áherslu á í íslenskum skólum. Þá er slíkur orðaforði gjarnan snar þáttur í textum margra kennslubókahöfunda. Enda hefur komið í ljós að stór hluti barna skilur ekki fjölda orða sem fram koma í algengum kennslubókum. Hér er oft um að ræða orð sem fullorðnir telja ranglega að börn hljóti að hafa á valdi sínu. Hún tók dæmi af orðum eins og „margvíslega“, „verulega“ og „staðreynd“ en um helmingur barna í 5. og 6. bekk eiga í vandræðum með að skilja orðin. Raunin er nefnilega sú að börn þurfa að skilja 49 af hverjum 50 orðum í texta til að eiga raunhæfa möguleika á að skilja hann. Munurinn á orðskilningi barns með slakan lesskilning og góðan liggur stundum í sáralitlum mun, örfáum prósentum. Það þarf að skilja nánast öll orð í texta til að skilja merkingu hans. Þar munar mest um lágtíðniorðin.

Sigríður telur einboðið að nota þurfi máltækni og greina betur skil lágtíðni- og hátíðniorða í íslensku eins og hún er skrifuð og töluð í dag. Þannig megi t.d. hanna stafræn hjálpartæki við ritun auk þess sem hægt sé að yfirfara kennsluefni og próf með tilliti til aðgengileika.

Samantekt: Ragnar Þór Pétursson

Ljósmynd / Kristinn IngvarssonViðfangsefni: Læsi, Leikskólinn, Grunnskólinn, Orðaforði