Bílgreinar í hringiðu breytinga

20.11.2017 | Skólinn

Bílgreinar í hringiðu breytinga

Árum saman þurftu bifvélavirkjar einungis að spyrja sjálfa sig hvort ökutæki gengi fyrir bensíni eða dísil áður en þeir hófust handa við að gera við bilaða vél. En svo er ekki lengur. Tvinn-, tengitvinn-, rafmagns- og metanbílar eru meðal þeirra sem ryðjast inn á markaðinn um þessar mundir. Það hefur orðið bylting í heimi bílgreina síðustu misseri. En hvaða áhrif hefur það á kennslu í greininni?

Borgarholtsskóli er kjarnaskóli bílgreina á Íslandi og þar eru kenndar þær þrjár iðngreinar sem tilheyra bílgreinum, þ.e. bifvélavirkjun, bifreiðasmíði og bílamálun. Útsendari Skólavörðunnar settist á dögunum niður með þremur stjórnendum skólans, þeim Inga Boga Bogasyni aðstoðarskólameistara, Marín Björk Jónasdóttur, sviðsstjóra iðn- og starfsnáms, og Sigurjóni Geirssyni Arnarsyni, deildarstjóra bílgreina, og ræddi stöðuna eins og hún blasir við þeim. Öll eru þau sammála um að þær hröðu breytingar sem þegar hafa orðið á bílaflota heimsins og þær breytingar sem eru fram undan kalli á nýjar aðferðir við kennslu og nám. „Gagnvirkar upplýsingabrautir þurfa að vera greiðari og kennarar þurfa að fá tækifæri til að læra um nýjustu tækni hjá bílaumboðunum. Eins þarf að greiða götu sérfræðinga bílafyrirtækjanna til að koma í skólann og kenna þar nýjustu strauma og stefnur.“

Sigurjón segir að þó að breytingarnar hafi verið miklar síðustu ár og verði örugglega enn hraðari á næstu árum þá verði alltaf þörf fyrir bílgreinarnar. „Það verður aldrei þannig að þú getir farið með rafbílinn á tölvuverkstæði og látið gera við hann þar þó svo að hann gangi bara fyrir rafmagni. Það þarf alltaf að fagmenn til þess að laga bílinn þinn,“ segir Sigurjón. „Þeir sem sinna viðhaldinu í framtíðinni þurfa örugglega að hafa meiri tækniþekkingu en í dag, en á meðan bíll sprengir eldsneyti þá þurfum við fólk sem kann að laga slíkar vélar. En þetta á örugglega eftir að breytast þannig að menn sérhæfa sig meira en þeir gera í dag, sumir verða í hefðbundnum viðgerðum meðan aðrir sérhæfa sig meira í tölvum bílanna, rafbílum o.s.frv. Við verðum bara að búa okkur undir að kenna öllu þessu fólki og búa það undir þau verkefni sem taka við að námi loknu.“

Málningarhermar og rafmagns­bílar í skólunum
Ingi Bogi bætir við að eitt sem nú sé rætt sé samsetning nemendahópsins. „Hingað koma sextán ára krakkar með bíladellu sem er auðvitað jákvætt. En sú umræða er hafin að það þurfi að þróa námið í átt að háskólastiginu enda er tæknin alltaf að verða flóknari og því fylgir að kröfurnar sem gerðar eru til þeirra sem viðhalda bílunum okkar eru alltaf að aukast. Í þessu sambandi hefur verið bent á að þeir sem hefja nám í bílgreinum hjá okkur séu ekki einu sinni með bílpróf og menn velta fyrir sér hvort það sé heppilegt. Þó þessi umræða sé ekki komin langt þá geri ég ráð fyrir að hún eigi eftir að verða háværari á næstu misserum og árum.“

Borgarholtsskóli hefur reynt að bregðast við breyttum veruleika með því að þróa námið, en ekki síður með því að uppfæra tækjabúnað sinn. Hér til hliðar er fjallað um nýjan málningarhermi sem skólinn festi nýlega kaup á en það er langt í frá eina tækið.

„Við höfum fest kaup á rafmagnsbíl sem við nýtum við kennslu hér í skólanum og einnig eigum við tvo tvinnbíla,“ segir Sigurjón. „Við höfum síðan fengið menn frá til dæmis Toyota á Íslandi hingað inn sem gestakennara. Við kennum í dag nemendum á allan þann búnað og alla þá tækni sem er í þeim bílum sem seldir eru í dag.“

Námið í sífelldri endurskoðun
Sigurjón leggur áherslu á hversu mikilvægt samstarf við atvinnulífið sé og undir það taka Ingi Bogi og Marín. Þau segja að þar liggi mikil þekking og geta sem nauðsynlegt sé að tengja skólastarfinu.

„Við þurfum að spyrja hvernig nemendur atvinnulífið vill fá út úr þessu námi og hvernig við getum brugðist við breyttum kröfum fyrirtækjanna. Atvinnulífið er raunar í mjög góðri stöðu til að þróa námið enda er því ætlað að sinna um helmingi af menntun þessara nemenda með starfsnáminu. En okkar megin þurfum við t.d. stöðugt að vinna í því að endurskoða námskrána, breyta áföngum og/eða setja inn nýja. Við erum líka að skoða hvort við séum að kenna eitthvað sem er gamalt og úrelt, það er verkefni sem mun aldrei ljúka. Annað sem tengist þessu er símenntun kennara, sem auðvitað þurfa að þekkja alla þessa nýju tækni til að geta kennt hana. Þar treystum við líka mikið á samstarf við atvinnulífið. Þar erum við reyndar í ákveðinni klemmu því það er mikið að gera hjá þeim fyrirtækjum sem við erum í samstarfi við og þau eru ekki alltaf tilbúin að missa starfsmenn sína hingað inn til að sinna endurmenntun. Það er líka mikið að gera hjá kennurunum okkar, nema kannski rétt yfir hásumarið þegar lítið sem ekkert framboð er á námskeiðum og fræðslu fyrir þá,“ segir Marín.

„Sumir kennararnir okkar hafa reyndar leyst þetta með því að vinna einfaldlega tímabundið á einhverju verkstæðinu þar sem nýjasta tækni er í notkun, sem er dýrmætt,“ bætir Sigurjón við.

MÁLNINGARHERMIR
Borgarholtsskóli festi nýlega kaup á öflugum málningarhermi sem nýttur er til kennslu í bílamálun. Nemandinn stendur þá fyrir framan sjónvarpsskjá með málningarkönnu í hendinni. Hermirinn er mjög raunverulegur hvort sem um er að ræða hljóðið sem heyrist þegar sprautukannan er í notkun eða hvernig verkið birtist á stórum sjónvarpsskjánum fyrir framan nemandann. Tækið mælir hversu þykku málningarlagi er sprautað, hversu mikið efni er notað, hvað það hefði kostað o.s.frv. Hægt er að stjórna loftþrýstingi, spíssastærð og fleiru og upplifunin er nánast alveg eins og ef nemandinn væri að mála í sprautuklefa. Slíkir hermar eru notaðir víða um heiminn, meðal annars til að þjálfa menn sem mála orrustuþotur fyrir ameríska herinn og þá sem mála fyrir Benz, BMW og fleiri stóra bílaframleiðendur.

Aðalmynd: Í Borgarholtsskóla eru kenndar þær þrjár iðngreinar sem tilheyra bílgreinum; þ.e. bifrvélavirkjun, bifreiðasmíði og bílamálun. Ljósmynd: Helena Stefánsdóttir

Viðmælendur: Ingi Bogi Bogason aðstoðarskólameistari, Sigurjón Geirsson Arnarson, deildarstjóri bílgreina, og Marín Björk Jónasdóttir, sviðstjóri iðn- og starfsnáms. Ljósmynd Helena Stefánsdóttir

Greinin birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. 2017

Viðfangsefni: Iðnnám , Bílgreinar, Framhaldsskólar, Borgarholtsskóli