​Óhefðbundin námsbraut fyrir afburðanemendur

22.11.2016 | Skólinn

​Óhefðbundin námsbraut fyrir afburðanemendur

Skólastofan í Tækniskólanum er hlýleg og er í raun skipt í tvennt með tveimur léttum glerveggjum. Í fremri hlutanum eru hefðbundin borð og stólar eins og í hverri annarri kennslustofu. En uppstillingin er öðruvísi. Borðunum er raðað í hring en ekki öll látin vísa í átt að kennaraborði og töflu. Fyrir innan eru hægindastólar og bekkir ráðandi. Nemendur eru á víð og dreif um stofuna; sumir með headphone á höfði og stara einbeittir á bjarta skjái fartölva en aðrir sitja í hópum og virðast vinna saman að ótilgreindum verkefnum. Ég er búinn að rölta um herbergið um stund, taka þar myndir og spjalla við nemendur þegar ég rek augun í kennara í einu horni stofunnar. Þá fyrst átta ég mig á því að ég er inni í miðri kennslustund.

Nemendurnir sem mæta dags daglega í þessa skemmtilegu skólastofu eru á nýrri námsbraut í Tækniskólanum. Hún ber nafnið K2, sem er skírskotun í næsthæsta fjalltind heims, og er ætluð námsmönnum sem eru vanir að fá háar einkunnir og skara fram úr, en hafa ekki boðist nein sérstök úrræði eða námsleiðir í skólakerfinu. Þar til nú.

Verkefnisstjóri brautarinnar, Nanna ­Traustadóttir, tekur á móti mér í skólastofunni og eftir að hafa aðstoðað tvo eða þrjá nemendur með tilfallandi verkefni ákveðum við að hætta að trufla þá og komum okkur fyrir í vinalegri skrifstofu hennar í Tækniskólanum, þessu sögufræga húsi á Skólavörðuholtinu. Við byrjum spjall okkar á aðdragandanum. Hvernig kom það til að ákveðið var að bjóða upp á slíka námsbraut við skólann?

„Það var skólameistari Tækniskólans, Jón B. Stefánsson, sem tók ákvörðun um að setja brautina á laggirnar. Mér skilst að hluti af ástæðu hans sé persónuleg, en í grunninn vildi hann einfaldlega gera eitthvað fyrir þennan hóp þar sem eitt af markmiðunum er að undirbúa nemendur sérstaklega fyrir tækni- og vísindagreinar á háskólastigi. Sjálf kem ég þannig að verkefninu að ég sótti um kennarastöðu við deildina en mál þróuðust þannig að ég var fengin til að móta brautina sem er auðvitað óskaplega spennandi verkefni.“

Samstarf við fyrirtæki
„Við röðum náminu þannig upp að við skiptum hverri einustu önn í þrjár fimm vikna lotur og í hverri þeirra kennum við tvær greinar. Ástæðan fyrir lotunum er að það gefur nemendum kost á að einbeita sér að þessum tveimur greinum og þeir hafa þar með allt öðruvísi tækifæri til að nálgast námið. Í lok hverrar annar, og þar með að loknum þremur lotum, eru síðan lokaverkefni í stað hefðbundinna prófa. Þessi verkefni tengjum við atvinnulífinu. Sem dæmi þá munu nemendur í lok yfirstandandi annar vinna verkefni í samstarfi við Stúdíó Sýrland. Það tengist upplýsingatækniáfanga sem þau sitja á þessari önn því markmiðið er að nemendur nái sem mestri hæfni í að búa til myndbönd og í raun öllu því sem nútíma upplýsingatækni gefur kost á. Sú þekking og reynsla mun nýtast þeim við vinnslu á lokaverkefnum þegar líður á námið. Á næstu önn munu nemendur vinna verkefni í samstarfi við Lýsi og við tengjum það áfanga í efnafræði sem þau hafa þá nýlokið. Á teikniborðinu eru einnig verkefni í tengslum við fyrirtæki á borð við Össur og CCP.

Þessu til viðbótar höfum við komið á samstarfi við Háskólann í Reykjavík um að ein lota á hverri önn mun fara fram í húsnæði þeirra. Þar með kynnast nemendur auðvitað náminu sem er í boði þar en við vonumst líka til þess að á tveimur síðustu önnunum verði þeir byrjaðir að vinna í t.d. stærðfræði á háskólastigi.“

Áskorun fyrir kennara
Á yfirstandandi önn stunda 26 nemendur nám á brautinni. Það vekur sérstaka athygli að í þeim hópi eru aðeins þrjár stelpur. Nanna segir það vissulega ekki gott, því þó brautin leggi áherslu á að undirbúa nemendur fyrir tækni- og vísindagreinar á háskólastigi hafi hún alls ekki verið hönnuð sérstaklega fyrir stráka.

„Við renndum í raun mjög blint í sjóinn þegar við byrjuðum að taka nemendur inn í námið. Við auglýstum það, fengum um fimmtíu umsóknir og enduðum á að taka hvern einasta umsækjanda í viðtal. Viðtalinu var gefið vægi ásamt einkunnum í ákveðnum faggreinum, sem okkur þykir hafa gefið góða raun. Með þessu náðist að skapa mjög góðan hóp sem vinnur vel saman og það skiptir auðvitað miklu máli. Það hallar vissulega talsvert á stelpurnar en vonandi verður það ekki raunin á næstu árum.“

Nanna segir að til viðbótar hafi snemma í ferlinu verið ákveðið að byggja námið ekki upp á hefðbundnum fyrirlestrum.

„Við vildum hafa námið óhefðbundið og þá gengur ekkert sérstaklega vel að vera með þessa reglubundnu fyrirlestra, glærusýningar o.s.frv. Í staðinn leggjum við upp úr því að nemendur sjái sjálfir um að leita að upplýsingum og að hlutverk kennarans sé þá að aðstoða við það. Við erum vissulega með örfyrirlestra enda þurfum við alltaf að koma ákveðnum upplýsingum á þann hátt beint til nemenda. En það má segja að nemendur þurfi í framhaldi að sjá um alla fótavinnuna – leita sér að upplýsingum og setja saman verkefni. Þannig að við mötum þá ekki. Þetta er auðvitað talsverð áskorun fyrir kennara en við finnum að þeir eru ánægðir að fá að takast á við þetta verkefni. Flestir þeirra höfðu frétt af því í hvaða átt við vildum fara með námið og sóttust eftir því að taka þátt. Þannig að flestir þeirra voru að leitast við að breyta vinnubrögðum og kennsluháttum og kannski þróa sig enn frekar í starfi.

Kennslurýmið endurspeglar líka þessa áherslu. Við ákváðum strax að hafa stofuna óhefðbundna og búa til þægilega og hlýlega vinnuaðstöðu, sem ég held að hafi tekist. Það þýðir til dæmis að nemendur eiga hér ekki föst sæti heldur raða þeir sér á hverjum degi eftir verkefnum. Þegar þeir eru til dæmis í upplýsingaleit eiga þeir það til að setja á sig headphone og koma sér þægilega fyrir í einhverjum hægindastólnum. Þegar þeir eru að vinna í hópum hentar betur að sitja við borð og svo framvegis.“

„Við ákváðum strax að hafa stofuna óhefðbundna og búa til þægilega og hlýlega vinnuaðstöðu, sem ég held að hafi tekist.“

Menntakerfið þarf að þróast
Nanna segist þess fullviss að á næstu árum muni verða miklar breytingar á skólastarfi.

„Við sem komum að þessu verkefni vitum að í menntakerfinu gerast hlutirnir frekar hægt. En við trúum því að þetta óhefðbundna kennsluform sem við erum að byggja upp verði ekkert svo óhefðbundið eftir tuttugu ár, og að kennarar og annað menntafólk muni líta til okkar eftir innblæstri. Því það skiptir auðvitað miklu máli að í skólunum og menntakerfinu í heild sé stöðug framþróun.“

Aðspurð um hvert þau leiti eftir innblæstri segir Nanna að hann sé víða að finna. „Fyrirmyndin er að hluta til bandarísk, að hluta til finnsk og að hluta til einhvers staðar annars staðar frá. Þó við reynum að gera hlutina öðruvísi en venjulega erum við samt ekkert að finna upp hjólið hérna. Það er til dæmis ekkert nýtt að vera með myndbönd sem lokaverkefni. Það má í raun segja að við tökum alls konar hluti og hugmyndir, sem hafa þegar verið prófaðir og gefið góða raun, og bræðum saman í pakka sem okkur finnst henta náminu og nemendum á brautinni. En við leggjum líka áherslu á að námið sé skemmtilegt og að nemendur hafi gaman af því sem þeir eru að gera, því það skiptir gríðarlega miklu máli.“

„Það er auðvitað frábært að nemendur upplifi hér námsgleði á ný eftir að hafa tapað henni áður.“

Námsgleði í stað leiða
Viðbrögð nemenda og foreldra hafa verið sérstaklega jákvæð. Hér að ofan má meðal annars finna hluta af bréfi sem einn nemandi á brautinni sendi Nönnu – en þar lýsir hann sérstökum áhuga á að kynna námið í sínum gamla skóla. Hann og fleiri hafa lýst því yfir að þeir hafi nánast verið búnir að missa áhuga á námi almennt og jafnvel verið á leið úr skóla, en nám á K2 hafi breytt því.

„Það er auðvitað frábært að nemendur upplifi hér námsgleði á ný eftir að hafa tapað henni áður. Það er ekki eitthvað sem við áttum endilega von á, þannig að það má segja að það sé óvæntur bónus fyrir okkur sem stöndum að baki brautinni. Það er líka geggjað að fylgjast með hópnum sinna fyrirliggjandi verkefnum af jafn miklum áhuga og eldmóði og raun ber vitni. En það er líka annað sem kom í ljós, og það er hvað þetta eru sterkir einstaklingar og þá meina ég ekki bara námslega. Sem dæmi þá fékk bekkurinn sæti í nemendaráði og þegar kom að því að velja fulltrúa þá kom í ljós að af 26 nemendum, þá sóttust 13 eftir því að komast í ráðið, sem er ótrúlega hátt hlutfall og segir margt um hvernig nemendur veljast í þetta nám.“

Greinin birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. 2016

Viðfangsefni: Framhaldsskólinn, Námgleði, Námsbraut