​Børnenes Friskole í Aarhus er samstarfsskóli okkar

28.06.2016 | Skólinn

​Børnenes Friskole í Aarhus er samstarfsskóli okkar

Skólaárið 2011 – 2012 hófst samstarf þriggja dönskukennara í grunnskólunum norðan Glerár á Akureyri. Kristín List Malmberg úr Síðuskóla, Sigríður Hreinsdóttir úr Glerárskóla og Steinunn Kristín Bjarnadóttir úr Giljaskóla hittust á samstarfsfundi til skrafs og ráðagerða. Á fundinum fæddist hugmyndin að valgrein í dönsku fyrir 30 nemendur á unglingastigi.

Veturinn var notaður til að setja saman verkefnislýsingar og markmið, auk þess sem sótt var um styrk frá Nordplus. Styrkbeiðnin hlaut náð fyrir augum úthlutunarnefndar Nordplus og var því ekkert því til fyrirstöðu að leggja lokahönd á undirbúning. Haustið 2012 var boðið upp á valgreinina í fyrsta skipti með góðum árangri. Að vori var ákveðið að leyfa tveimur árum að líða og leggja þá mat á hvort rétt væri að bjóða aftur upp á dönskuval fyrir nemendur skólanna þriggja.

Áherslur aðrar en nemendur eiga að venjast
Aðalnámskrá grunnskóla kveður á um frelsi nemenda í 8. – 10. bekk til að ráðstafa hluta af námstíma sínum í námsgreinar og námssvið að eigin vali. Fyrirkomulag sem þetta býður upp á mikla fjölbreytni í námi enda eru valgreinar í grunnskólum landsins af öllum stærðum og gerðum.

Að vel athuguðu máli tóku Kristín, Sigríður og Steinunn ákvörðun um að endurtaka leikinn vorið 2015 og bjóða upp á valgrein þar sem dönsk tunga og menning eru í aðalhlutverki. Áherslur eru nokkuð frábrugðnar því sem nemendur eiga að venjast úr hefðbundinni tungumálakennslu. Samfélagsgreinar, svo sem landafræði, þjóðfélagsfræði og lífsleikni, eru fyrirferðarmiklar í náminu. Krakkarnir læra dönsku með því að vinna ýmis merkingarbær verkefni sem tengjast menningu og staðháttum í Danmörku og einnig á Íslandi.

Eitt helsta aðdráttaraflið í hugum nemenda er þó sennilega samstarf þeirra og umsjónarmanna valgreinarinnar annars vegar og kennara og nemenda í Aarhus í Danmörku hins vegar. Tengsl við nemendur í öðru landi ýta undir námsáhuga og stuðla þannig enn frekar að merkingarbæru námi. Samvinnan nær hámarki þegar dönsku nemendurnir heimsækja vini sína á Akureyri að hausti og þegar íslensku krakkarnir endurgjalda heimsóknina að vori.

Danskir nemendur í heimsókn á Akureyri
Eftir að ákvörðun var tekin um að bjóða nemendum aftur upp á valgreinina hófst undirbúningur hjá þeim stöllum. En hvernig skyldi undirbúningi hafa verið háttað í seinna skiptið. Kristín, Sigríður og Steinunn sitja fyrir svörum: „Børnenes Friskole í Aarhus er samstarfsskóli okkar. Sanne Fleckner, aðstoðarskólastjóri og umsjónarkennari, er í samstarfi við okkur og hefur verið með okkur frá upphafi verkefnisins 2012. Við fengum undirbúningsstyrk sem gerði okkur kleift að hitta Sanne loksins á undirbúningsfundi í janúar 2015 og saman notuðum við tímann til að vinna styrkumsóknina. Skemmst er frá því að segja að við hlutum styrk frá Nordplus Junior til að fjármagna verkefnið og þá var ekki aftur snúið.“

Einstök viðfangsefni í valgreininni byggja að miklu leyti á lykilhæfniþáttum aðalnámskrár grunnskóla. „Nemendur í valinu voru paraðir við dönsku nemendurna sem komu allir úr 9. bekk, samtals 19 krakkar. Gestirnir frá Aarhus bjuggu á heimilum íslensku ungmennanna en einnig á gistiheimili. Þá gisti allur hópurinn saman eina nótt í Glerárskóla. Krakkarnir gerðu ýmislegt saman í Íslandsheimsókninni. Til dæmis unnu þau sameiginleg verkefni á dönsku um mismunandi fjölskyldugerðir í löndunum tveimur, fóru í sund og heimsóttu Mývatnssveit, svo eitthvað sé nefnt.“ Í valgreininni er lögð áhersla á að efla færni krakkanna í dönsku talmáli, t.d. með leikrænni tjáningu og munnlegum kynningum á alls kyns verkefnum. Ekki síst er það hugsað sem æfing fyrir heimsókn íslensku krakkanna til Aarhus.

Vel heppnuð Danmerkurferð
Að lokinni heimsókn dönsku nemendanna hófst undirbúningur fyrir Danmerkurferð á vorönn. Áfram æfðu krakkarnir sig að tala á dönsku. Þeir kynntu sér áhugaverða staði í Aarhus og þá gerði íslenski hópurinn myndband á dönsku um unglingamenningu á Íslandi til að sýna vinum sínum í Danmörku. Dagana 9. -15. apríl 2016 dvöldu krakkarnir, alls 29 nemendur, í Aarhus. „Krakkarnir okkar gistu heima hjá dönsku vinum sínum hluta af Danmerkurdvölinni. Einnig var gist í skólanum. Þetta var mjög skemmtilegt allt saman. Hóparnir tveir unnu saman verkefni um norræna goðafræði í máli og myndum. Þau unnu líka sameiginleg skólaverkefni sem tengdust danskri menningu. Krakkarnir okkar heimsóttu líka Aros listasafnið og Den gamle by sem er safn gamalla húsa. Þau fóru einnig í skógarferð og dagsferð til vinabæjar Akureyrar, Randers.

Spennandi að bjóða upp á valgreinina aftur
Í lok skólaárs stóðu krakkarnir fyrir samverustund með foreldrum þar sem afrakstur vetrarins var kynntur í máli og myndum. Nemendur sýndu verkefnin sem unnin voru, sögðu frá ferðinni til Danmerkur og frá heimilunum sem þeir dvöldu á. Boðið var upp á kaffi og danska eplaköku sem krakkarnir sjálfir sáu um að útbúa. Að sjálfsögðu fóru kynningarnar að mestu leyti fram á dönsku.

Mikil ánægja ríkti meðal íslensku nemendanna með heimsókn dönsku krakkanna til Akureyrar og ekki síður ferðina til Danmerkur. Þá er ekki annað að sjá og heyra en ánægjan sé einnig til staðar innan danska hópsins. Í Fréttablaði Børnenes Friskole má sjá stutta samantekt um heimsókn íslensku krakkanna til Aarhus. „Islændingene rejser glade hjem, de er meget positive og vil gerne fortsætte samarbejdet fremover. Og det samme vil vi, for værtsskap giver venskap“ [Íslendingarnir fara glaðir heim, þeir eru mjög jákvæðir og hafa áhuga á frekara samstarfi. Og það sama viljum við, því gestrisni skapar vináttu]. Undir þetta skrifar Sanne Fleckner.

En eru uppi áform um að bjóða upp á valgreinina aftur? „Samstarf okkar þriggja hefur verið mjög farsælt og ánægjulegt og gefur okkur mikið sem dönskukennurum. Okkur finnst mjög spennandi að bjóða upp á valgreinina aftur. Samstarfið við danska kollega okkar, Sanne Fleckner, er mjög jákvætt og skemmtilegt og við vitum af áhuga hennar á áframhaldandi samstarfi. Það er ekki sjálfgefið að fá styrk til svona verkefnis og við teljum okkur heppnar að hafa fengið jákvæð svör í þessi tvö skipti. Við vonum það besta og mun tíminn leiða það í ljós hvað verður,“ segja þær Kristín, Sigríður og Steinunn.

Viðfangsefni: Danskir skólar, Samstarf, Norrænt samstarf, Grunnskóli