Raungreinakennarar frá 30 löndum kynna nýjungar í kennslu

15.08.2017 | Raddir

Raungreinakennarar frá 30 löndum kynna nýjungar í kennslu

sdís Ingólfsdóttir, framhaldsskólakennari í Kvennó, sótti raungreinaráðstefnuna Science on Stage 2017 sem fram fór í Ungverjalandi í sumar. Var þetta í fyrsta sinn sem fulltrúi raungreinakennara hér á landi er meðal þátttakenda. Um 400 kennarar frá þrjátíu löndum tóku þátt í ráðstefnunni og kynntu nýjungar sem hafa reynst vel í kennslu í efnafræði, líffræði, jarðfræði og fleiri raungreinum.

Fyrir milligöngu Félags raungreinakennara sótti ég ráðstefnuna Science on Stage í Debrecen í Ungverjalandi um mánaðamótin júní – júlí. Samtökin sem voru stofnuð árið 2000 halda ráðstefnu annað hvort ár þar sem evrópskir raungreinakennarar af öllum skólastigum koma saman og kynna nýjungar í kennslu. Venjan er að þátttakendur séu valdir úr hópi umsækjenda og hafði Félag raungreinakennara frumkvæði að því að finna þátttakendur í ár en þetta er í fyrsta sinn sem þátttakandi frá Íslandi sækir ráðstefnuna. Umsækjendur eru valdir í samræmi við fyrirfram ákveðin þemu en að þessu sinni voru þau; vísindi fyrir yngstu nemendur, vísindi og umhverfi, tölvur í raungreinakennslu, samþætting kennslugreina, samvinnuverkefni milli kennara ólíkra greina, verkefni sem kosta lítið og eru aðgengileg öllum og loks voru samvinnuverkefni milli skóla í tveim eða fleiri löndum. Þema þess sem ég hafði fram að færa var efnafræðikennsla með litlum kostnaði.

Debrecen, önnur stærsta borg Ungverjalands, er háskólabær á miðri sléttunni, rúma 200 kílómetra frá höfuðborginni Búdapest. Þangað sækja íslenskir stúdentar til að nema læknisfræði og eru nú á annan tug íslenskra nemenda í læknadeildinni í Debrecen þar sem ég gisti á stúdentagarði. Herbergið var ætlað þremur og leit út eins og baðstofuloft á Íslandi fyrr á tímum. Beggja vegna voru svefnbálkar en ekkert þil var á milli svo stúdentarnir liggja þannig að tærnar snertast næstum því. Sex eru um hverja sturtu og salerni. Ég hugsaði með mér að ekki myndu íslenskir stúdentar sætta sig við þennan aðbúnað. En verðið á gistingunni var lágt.

Fjölbreytt og fróðleg verkefni
Ráðstefnan var haldin í glæsilegri aðstöðu í Kölcsey-ráðstefnumiðstöðinni í miðbæ Debrecen. Sýningarsvæðið var á þremur hæðum, básarnir voru á þriðja hundrað, skipt niður eftir skólastigum. Alls voru samankomnir yfir 400 kennarar frá þrjátíu löndum sem settu upp sýningarbása þar sem þeir kynntu nýjungar og aðferðir sem reynst hafa vel við kennslu í efnafræði, eðlisfræði, líffræði, jarðfræði og fleiri raungreinum sem kenndar eru Evrópu. Ísland fékk bás númer 37, þar sem ég setti upp veggspjöld, Íslandskort og efnafræðibækur ásamt tilheyrandi tilraunadóti. Bauð ég upp á íslenskar sælgætiskúlur sem minna á snjóbolta sem mæltist vel fyrir og dró að.

Margir kennarar voru að sýna einstök verkefni sem höfðu verið unnin í skólunum. Sem dæmi var grunnskólakennari frá Þýskalandi með kynningu á samþættri kennslu þar sem nærumhverfi skólans var nýtt í kennslu. Nemendur skólans eru hvaðanæva að úr heiminum. Á svæðinu var námugröftur um aldir aðalatvinnugrein héraðsins. Með því að nota hlutverkaleik fengu börnin innsýn í sögu og menningu, efnafræði og jarðfræði. Auk þess byggðu þau göng úr pappa, saumuðu föt og kynntust verkfærum og aðferðum.

Ensk kona hafði gert samanburðarrannsókn á mismunandi hunangi með nemendum á aldrinum 8 til 11 ára. Danskir leikskólakennarar rannsökuðu eiginleika smjörs og belgískur kennari nýtti bjórbruggun til að kenna efnafræði í framhaldsskóla. Egg, kartöflur, rúsínur og bananar voru einnig viðfangsefni og eðlisfræðikennarar voru með segulmagnaðar sýningar. Símar og tölvur voru nýttar til hins ýtrasta, rafsegulbylgjur og geimferðir komu við sögu svo fátt eitt sé nefnt. Írsku kennararnir, sem voru með fjölskipað lið, hafa þann hátt á þeir safna saman því sem þeim finnst áhugaverðast að gefa út í bók. (Sjá nánar hér.)

Kynning sem skilar sér vonandi í betri kennslu
Nefnd frá stýrihóp Science on Stage gekk um og í lokin voru veittar viðurkenningar. Alls voru níu verkefni verðlaunuð, t.d. fengu hollenskir grunnskólakennarar viðurkenningu fyrir verkefni um geimferðir, þeir sendu legókarla með veðurloftbelg í geimferð. Og danskur framhaldsskólakennari fékk verðlaun fyrir eðlisfræðiverkefnið „Smoke on the Water“ þar sem nemendur smíðuðu rafmagnsbassa.

Flestar þjóðir voru með marga þátttakendur en aðeins einn eða tvo bása. Því gátu kennararnir skiptst á að fara á milli og kynna sér það sem hinir höfðu fram að færa í sýningarbásunum, sótt vinnustofur og hlustað á fyrirlestra. Dagskráin var þéttskipuð alla dagana og til þess að einyrkinn frá Íslandi gæti tekið þátt var eiginmaðurinn fenginn til að leysa af á básnum. Á laugardeginum var opinn dagur og gátu gestir og gangandi litið við á sýningunni. Dreif að fólk á öllum aldri, háskólastúdentar og fjölskyldur með börn.

Boðið var upp á nokkrar heimsóknir seinni part dags, m.a. á vísindasafnið Agora, í háskólann og rannsóknarstofu í kjarnorku. Lokakvöldið fór fram á nýjum glæsilegum knattspyrnuleikvangi sem tekur 20 þúsund manns í sæti. Þar var danssýning og snæddur dýrindis kvöldverður.

Það er von mín að Félag raungreinakennara sjái sér fært að halda áfram að vinna að því að Ísland verði hluti af Scienc on Stage. Fái jafnvel fleiri áhugamenn um skólaþróun með sér í lið. Vonandi getum við sent fulltrúa með flott verkefni á næstu ráðstefnu, árið 2019. Þannig fái fleiri að njóta þess að kynnast frábærum kennurum frá öðrum Evrópulöndum sem eru að vinna skapandi starf í raungreinakennslu sem vonandi skilar sér í betri kennslu og árangri nemenda á öllum skólastigum.

Ásdís í íslenska básnum þar sem mátti finna veggspjöld, Íslandskort og efnafræðibækur ásamt tilheyrandi tilraunadóti. Íslenskar sælgætiskúlur vöktu athygli og drógu gesti að básnum.

Ásdís Ingólfsdóttir

Formaður Vinnuumhverfisnefndar KÍ
Viðfangsefni: Raungreinar, Efnafræðikennsla