Náttúrufræðimenntun – nám fyrir grunnskólakennara

17.05.2018 | Raddir

Náttúrufræðimenntun – nám fyrir grunnskólakennara

Langar þig að efla þekkingu þína og færni varðandi náttúrufræðimenntun? Við Menntavísindasvið HÍ verður í haust boðið upp á fyrsta námskeiðið í röð sex 5 eininga námskeiða fyrir starfandi grunnskólakennara, í náttúru­fræðimenntun. Námskeiðin eru á meistarastigi sem stefnt er að unnt sé að ljúka með annað hvort 15 eða 30 eininga viðbótardiplómu í náttúrufræðimenntun. Möguleiki er einnig að taka einstök námskeið. Námskeiðin geta nýst sem valeiningar í meistaranámi fyrir þá sem það kjósa. Námskeiðin verða kennd í staðnámi í Reykjavík en kennarar af landsbyggðinni geta tekið námið í fjarnámi.

Mikilvæg starfsþróun
Námið er hugsað fyrir alla sem koma að eða hafa áhuga á náttúrufræðimenntun í grunnskóla hvort sem er á yngsta-, mið- eða unglingastigi. Leitast verður við að námið eigi sér stað í lærdómssamfélagi kennara á sama skólastigi. Þátttakendur vinna verkefni er tengjast aldurshópi að eigin vali, og eru ýmist einstaklings-, para- eða hópverkefni. Námið er skipulagt með skýrum tengslum við daglegt starf kennara og tengt raunverulegum viðfangsefnum starfsins. Þannig felur námið í sér ný og spennandi tækifæri til að vinna með öðrum grunnskólakennurum og kennurum á Menntavísindasviði.

Við mótun námskeiða og samsetningu námsins var stuðst við svör kennara í grunnskólum um á hvaða sviði náttúrufræðimenntunar þeir vildu auka þekkingu sína og færni. Því verður fjallað um hvernig beita megi ólíkum nálgunum og vinnubrögðum í kennslu og þá sérstaklega verklegri kennslu og nýtingu nánasta umhverfis í daglegu skólastarfi. Einnig fá kennarar tækifæri til að dýpka þekkingu sína og skilning á völdum efnisþáttum náttúrugreina.

Markmið og hæfniviðmið
Markmið námsins er að efla starfsþróun grunnskólakennara á sviði náttúrufræðikennslu og styðja þá í að vera leiðandi í náttúrufræðimenntun í sínum skóla.

Í lok námsins ættu þátttakendur að geta:

  1. skipulagt verkleg viðfangsefni sem hluta af kennslu um mörg svið náttúrugreina,
  2. rökstutt notkun nánasta umhverfis skóla í kennslu náttúrugreina,
  3. útskýrt mikilvægi og gildi verklegra viðfangsefna fyrir áhuga nemenda og hugtakanám í náttúrugreinum,
  4. skipulagt kennslu þannig að hún efli markvisst læsi nemenda á sviði náttúrugreina,
  5. unnið með álitamál í samfélaginu er varða umhverfismál og stuðlað að getu nemenda til aðgerða.

Skipulag námsins
Farið verður hægt af stað og fyrsta skólaárið 2018-2019 verður eitt fimm eininga námskeið kennt að hausti og annað að vori. Skólaárið 2019-2020 er stefnt að því að kenna tvö námskeið á hverju misseri. Þannig að námið dreifist á fjögur misseri alls. Áætlað er að kennsla hefjist í fyrri hluta ágúst á haustmisseri og í byrjun janúar á vormisseri. Seinna árið eru námskeiðin kennd eitt í einu, hvert á fætur öðru og kennslustundir verða á tveggja vikna fresti á föstudagseftirmiðdögum og laugardagsmorgnum. Þannig er fyrri hluti misseris helgaður einu námskeiði og seinni hlutinn öðru. Þeir sem óska eftir að taka námið í fjarnámi þurfa að gera ráð fyrir að koma í staðlotur einu sinni til tvisvar á misseri. Leitast verður við að hafa staðloturnar utan starfstíma grunnskólanna eins og mögulegt er. Námsmat í námskeiðunum byggir á fjölbreyttum verkefnum með áherslu á samvinnu þátttakenda en ekki verða haldin lokapróf.


Ef næg þátttaka fæst er stefnt að því að bjóða eftirfarandi námskeið (2018 – 2020)

Haustið 2018

Útikennsla og staðtengt nám (5 ECTS):
Fjallað verður um skipulag útikennslu og staðtengds náms og tekin dæmi um náttúrufræðileg viðfangsefni sem vinna má í umhverfi skóla. Fjallað verður um niðurstöður rannsókna á kostum og takmörkunum slíkrar kennslu.

Vorið 2019
Verkleg viðfangsefni í eðlis- og efnafræði (5 ECTS):

Áhersla verður á mikilvægi og gildi verklegra viðfangsefna fyrir áhuga og nám nemenda í náttúrufræði. Fjallað verður um ákveðin eðlis- og efnafræðileg viðfangsefni og verkleg viðfangsefni prófuð í tengslum við þau. Rýnt verður í ólíkan tilgang verklegra athugana og sjónum einnig beint að sýndartilraunum og tölvutækni.

Haustið 2019
Verkleg viðfangsefni í líf- og jarðvísindum (5 ECTS):

Áhersla verður á notkun spurnaraðferða (e. inquiry-based) í verklegri kennslu í líf- og jarðvísindum. Þátttakendur fá reynslu af margvíslegum athugunum og tilraunum sem nýtast í náttúrufræðinámi nemenda.

Læsi á náttúrufræðitexta (5 ECTS):

Fjallað verður um læsi í náttúrufræði og rannsóknir á því. Kynntar verða leiðir til að efla læsi á náttúrufræðitexta og sjónum beint að hugtakanámi og aðferðum tengdum lestri, ritun og umræðum.

Vorið 2020
Loftslagsbreytingar og menntun (5 ECTS):

Fjallað verður um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga í heiminum. Tekin verða dæmi af mengun lands og sjávar og sjónum beint að aðgerðum til að vernda náttúruna. Fjallað verður um hvernig vinna má með þessi viðfangsefni í skólastarfi.

Kennsluáætlanir í ljósi aðalnámskrár (5 ECTS):

Skipulag kennslu verður skoðað heildstætt í ljósi hæfniviðmiða aðalnámskrár. Unnið verður með gerð ólíkra kennsluáætlana og námsmat byggt á hæfniviðmiðum. Í vinnu við skipulag kennslu og námsmats verður sjónum beint að orku.

Umsóknarferli
Sótt er um námið rafrænt á vef Háskóla Íslands, www.hi.is. Veljið leiðina Menntunarfræði leik- og grunnskóla, viðbótardiplóma og kjörsviðið: kennslufræði og skólastarf. Þá eru námskeiðin Útikennsla og staðtengt nám og Verkleg viðfangsefni í eðlis- og efnafræði valin.

Umsóknarfrestur er til 5. júní 2018.

Grein Kristínar Norðdahl birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2018. Lesið blaðið hér.

Kristín Norðdahl

dósent á Menntavísindasviði HÍ
Viðfangsefni: Náttúrufræði