Verðmæti tónlistarnáms

22.03.2017 | Raddir

Verðmæti tónlistarnáms

„Á pallinum stendur ung stúlka. Hún er með blokkflautu í hönd. Það eru tónleikar og fyrir framan hana situr fullt af fólki. Á fremsta bekk eru foreldrar hennar og systkini og fyrir aftan þau afi hennar og amma. Við hlið stúlkunar situr kennarinn með gítar í hönd. Hún flytur lagið sitt sem inniheldur aðeins nóturnar A og B (gamla Háið). Hún á bara að spila tvö lengdargildi; ýmist langar eða stuttar nótur.

Flutningurinn tekur eina mínútu. Í lokin leika hún og kennarinn af fingrum fram, ýmist fylgir hún takti kennarans eða hann eltir stúlkuna og kennarinn leikur hljóma sem passa við nótunar sem stúlkan leikur. Að lokum klappa áheyrendur og hún hneigir sig í auðmýkt. Foreldrar hennar og áar klappa innilega og amman er með klút til að þurrka hrifningartárin."

Þessi lýsing hér að framan er dæmigerð lýsing á verkefnum og upplifun ungra tónlistarnema í tónlistarskólum á Íslandi. Á þeirri stundu eru öll skynjunarfæri nemandans í gangi. Þau þarf hann að samhæfa og halda einbeitingunni svo hægt sé að spila lagið í gegn. Hann þarf að halda takti og hvert sekúndubrot skiptir máli – ekkert tækifæri er til að stoppa og hugsa sig um eða ræskja sig eða spyrja kennarann einhvers. Nemandinn elst upp við það, að það sé eðlilegt og sjáfsagt að spila á hljóðfæri einn með sjálfum sér, með öðrum og fyrir aðra. Hann má ruglast á tónleikum og fær samt klapp fyrir. Enginn dómur er lagður á hans hljóðfæraleik, enginn af þátttakendunum fær verðlaun. Allir eru þar á sínum eigin forsendum og tónleikarnir lítið skref fram á við fyrir hvern og einn í þroskavænlegu námi. Allir þátttakendur á tónleikunum vanda sig sem þeir geta – það er eina krafan.

Þar sem nemandinn stendur á pallinum þarf hann að halda jafnvægi, hann blæs í flautuna og notar tunguna til að skerpa tóninn, hann heldur á hljóðfærinu og notar fínhreyfingar fingranna til að loka réttum götum á flautunni og snertiskynið til að vita hvort götunum sé lokað. Hann er með augun á nótunum, heyrir hverja misfellu og hvern velheppnaðan tón, heyrir einnig til kennarans og þess sem hann leikur og svo stígur hann jafnvel taktinn ósjálfrátt.

Fyrir nemandanum eru tónleikar eðlilegur þáttur í lífinu. Það er eðlilegt og sjálfsagt að koma fram. Hann veit að hann verður ekki dæmdur – honum verður ekki refsað hvernig sem fer, enginn annar er betri eða meiri en hann og hann ekki framar neinum öðrum.

Framkoma á tónleikum er liður í því að hver og einn æfist í því að standa fyrir máli sínu og að þurfa ekki að óttast það – túlka það sem leikið er og seinna að viðra skoðanir sínar. Tónlistarnemar í íslenskum tónlistarskólum fá góða þjálfun í tjáskiptum og sköpun. Í gegnum hljóðfæranámið þjálfast þeir í sjálfstæðum vinnubrögðum og að vinna með öðrum, bæði við heimanámið og í samspili í tónlistarskólanum. Þeir nota alla mögulega miðla til að leita efnis og hlusta. Þeir bera ábyrgð á náminu enda eru þeir þar á eigin forsendum.

Það eru fyrrum nemendur tónlistarskólanna á Íslandi sem í flestum efnum halda uppi því öfluga tónlistarlífi sem við Íslendingar búum við. Þeir eru þar flytjendur og hlustendur. Þeir eru útgefendur, framleiðendur, stjórnendur og framkvæmdaaðilar, kennarar, tónskáld og útsetjarar og hljóðfærasmiðir. Skrifaðar hafa verið bækur, ritgerðir og blaðagreinar um peningaleg verðmæti þessa öfluga tónlistarlífs.

Á hverjum degi eru haldnir tónleikar, í hverjum mánuði tónlistarhátíðir, á hverju misseri koma hingað í heimsókn á vegum þessara fyrrum nemenda frægir tónlistarmenn og á hverju ári gera íslenskar hljómsveitir það gott í útlöndum. Mestöll þessi starfsemi er ávöxtur íslensks tónlistarskólastarfs. En samt eru óupptalin mestu verðmætin; það eru tónleikar stúlkunnar sem lýst er í upphafi þessarar greinar og allur aðragandi þeirra, nám hennar í skólanum og ástundun, svo og allra þeirra þúsunda sem á Íslandi stunda tónlistarnám.

Sú þroskavænlega athöfn að leika á hljóðfæri verður að vísu ekki mæld og ekki verðlögð á mælikvarða peninganna eða með krossaprófum ekki frekar en svo margt í íslensku skólakerfi. Þekking og skilningur á skólastarfi er grundvöllur þess að geta metið þau verðmæti sem í því er fólgið. Allur sá þroski sem nemendur öðlast eru verðmæti og þar sem hinir veraldlegu mælikvarðar ekki virka er það aðeins trú okkar á verkefnin sem gildir.


MYND: Tónlistarnemendur leika á lokahátíð Nótunnar 2014.

Kjartan Eggertsson

aðstoðarskólastjóri Hörpunnar
Viðfangsefni: Tónlistarnám, Tónleikar, Tónlistarskólinn