„Tökum stöðu með börnunum“

14.02.2019 | Raddir

„Tökum stöðu með börnunum“

Ég heiti Kristín Ýr Lyngdal og starfa sem grunnskólakennari í Fellaskóla í Reykjavík. Ég útskrifaðist úr Háskóla Íslands með kennararéttindi vorið 2016 og var því að hefja mitt þriðja ár í kennslu. Ég elska að vera kennari, það er skemmtilegasta starf í heimi og ég finn það á hverjum degi að ég valdi hárrétt fyrir mig. Mig langar að byrja á því að hleypa ykkur aðeins inn í líf mitt sem kennari. Ég er umsjónarkennari 10. bekkjar við Fellaskóla.

Umsjónarbekkurinn minn telur 24 nemendur. Í honum eru nemendur af 13 þjóðernum, sem gefa 13 mismunandi móðurmál, búseta þeirra á landinu er mislöng, sú stysta 1,5 ár. Nemendur mínir eru mismunandi, aðstæður þeirra og bakland er fjölbreytt og staða þeirra og geta í námi einnig.

Nemendur mínir koma af fjölbreyttum heimilum, 13 þjóðerni og 13 móðurmál gefa auðvitað af sér 13 mismunandi menningarheima, siði og reglur. Foreldrahópurinn er svo auðvitað jafn fjölbreyttur og nemandahópurinn hvað varðar stöðu, menntun, fjárhagsaðstæður og bakgrunn. Svona lítur svo vikudagskrá út hjá mér. Þetta er frekar hefðbundin vika.

Ég kenni 23 kennslustundir í viku, þrjár kennslustundir á viku sinni ég starfi mínu sem verkefnastjóri yfir innleiðingu á nýrri uppeldisstefnu í skólanum. Þarna fara sex klukkustundir í Skrekksæfingar, sex fundir vegna nemenda ýmist með nemendurm, foreldrum, skólastjórnendum og/eða fulltrúum þjónustumiðstöðvar. Fundirnir tengjast mætingu, hegðun, líðan og/eða greiningaferlum. Þarna er svo undirbúningsfundur m/ samstarfskennurum vegna samvinnuverkefnis, undirbúningsfundur v/ komu kennaranema og stigsfundur. Glöggir menn sjá að inn í þessari dagskrá er enginn brennimerktur tími fyrir undirbúning kennslu, gerð námsefnis, svörun á tölvupóstum, yfirferð verkefna, undirbúning fyrir fundi, tími til að sinna eftirmálum fundanna, samskipti við foreldra o.s.frv. Ég er ekki að þylja þetta upp til að kalla eftir vorkunn eða til að gefa í skyn að ég hafi það eitthvað verr en aðrir, síður en svo. Allir skólar og allir kennarar á landinu hafa fjölbreytta nemendahópa og allir kennarar hafa þétta dagskrá. Ég er bara eitt dæmi, eitt lítið peð í þessu öllu saman.

Ég er kennari sem fer heim með nagandi samviskubit nær hvern einasta dag því ég veit að það eru nemendur hjá mér sem þurfa meiri athygli, meiri tíma, erfiðara eða auðveldara námsefni, vantar einhvern til að tala við eða eru með hugmyndir sem þau langar að prófa. En ég hef bara því miður ekki tíma, verkfæri eða stuðning til að uppfylla þessar kröfur. Og ég lofa ykkur því, að ég er ekki ein.

Menntun fyrir alla er í mínum huga eitthvað sem ætti að vera sjálfsagður hlutur í íslensku skólakerfi. Ég skil menntun fyrir alla á þann hátt að allir sem búa á Íslandi, sama hver bakgrunnurinn er, eigi rétt á menntun við sitt hæfi. Hvort sem þú ert einhverfur alíslenskur strákur, lesblind pólsk stelpa, bráðgreindur Víetnami eða ofvirkur strákur sem elst upp á sveitabæ hjá ömmu og afa á Vopnafirði. Menntun við hæfi þýðir þá að hvert barn fái námsefni sem hentar því, farið sé yfir námsefnið á þeim hraða sem hentar því, það sé hvatt áfram á þann hátt sem hentar því, það fái þann sveigjanleika, þá umhyggju og þá þolinmæði sem hentar því til þess að það nái árangri.

Núverandi menntamálaráðherra hefur nú hrint af stað þörfu en erfiðu verkefni, þ.e. gerð nýrrar menntastefnu. Þessi menntastefna verður að sýna og gera það mögulegt að kennari eins og ég, geti uppfyllt allar þessar kröfur sem ég nefndi hér áðan gagnvart öllum mínum nemendum. 2. viðmið stefnunnar er að löggjöf og stefnumótun á sviði menntunar án aðgreiningar hafi það markmið að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri. 5. viðmiðið fjallar um ráðstöfun fjármuna og að nú til dags séu flestir sammála um að núverandi ráðstöfun tálmi framförum í menntun án aðgreiningar.

Þarna vil ég nefna sérstaklega sérstöðu Fellaskóla sem dæmi. Það er nær ómögulegt að tryggja jöfn tækifæri þegar hlutfall erlendra nemenda er 80% í einum skóla en undir 5% í öðrum. Stærsta vandamálið þarna er íslenskukennsla. Það er óraunhæft að búast við því að nemandi sem kemur nýr til landsins nái góðum tökum á íslensku þegar rétt um 20% þeirra sem hann umgengst í skólanum eru alíslenskir. Sjálf legg ég til að reynt sé að jafna þetta hlutfall á milli skóla svo tækifæri erlendu nemandanna verði jöfn þeirra alíslensku. Ef það er ekki möguleiki þá verða yfirvöld að skipuleggja fjárveitingu til skóla í takt við stöðu þeirra og fjölbreytileika nemenda.

Eins og staðan er í dag þá býr Fellaskóli t.d. yfir meiri mannafla en gengur og gerist, en það þýðir þó bara að hann sparar á öðrum stöðum. Þarna vantar stuðninginn, peninginn, verkfærin, stefnuna, verkferlið, eftirfylgnina og gæðaeftirlitið. 4. viðmið stefnunnar er að öllum í skólasamfélaginu, á öllum stigum kerfisins, sé gert kleift að ígrunda og framkvæma dagleg störf sín með menntun án aðgreiningar að leiðarljósi. Það eru töluverðir möguleikar á endurmenntun í boði fyrir kennara, fjölmörg námskeið, fyrirlestrar, kynningar o.s.frv.

Ég persónulega nýti hvert einasta tækifæri til að sækja þess konar viðburði. Ég kem til baka uppfull af nýjum hugmyndum til að nýta í kennslunni, til að einstaklingsmiða, til að vekja áhuga o.s.frv. En til að geta nýtt hugmyndirnar þarf ég tíma til að undirbúa þær, þann tíma hef ég ekki. Hvernig pössum við að kennarar nýti það sem þeir læra í endurmenntun? Þarna vantar aftur stuðninginn, verkfærin, stefnuna, eftirfylgnina, gæðaeftirlit og það sem meira er tíma.

Til þess að allir nemendur á Íslandi fái menntun við hæfi og svo ég haldi áfram að elska starfið mitt þá bið ég menntamálaráðherra að leggja áherslu á eftirfarandi atriði við gerð menntastefnunnar:

● Traust og virðingu gagnvart kennurum og skólakerfinu
● Tíma
● Stuðning
● Eftirfylgni og gæðaeftirlit
● Ég þarf varla að nefna það… en aukið fjármagn
● Og að lokum, svo ég vitni í Ólaf Arngrímsson, skólastjóra Stórutjarnaskóla, þá verður ,,…að taka stöðu með börnunum.”

Hann talaði um að ef við viljum barnvænt samfélag þá geri það ,,kröfu um breyttan hugsunarhátt, lágstemmdari, með minni áherslu á veraldleg gæði en meiri á mannleg gildi og innihald.”

Takk fyrir mig!

Erindi þetta flutti Kristín Ýr Lyngdal, grunnskólakennari í Fellaskóla, í Seljaskóla 13. nóvember síðastliðinn. Fundurinn var einn af mörgum undir yfirskriftinni Menntun fyrir alla. Fyrirsögn greinarinnar er Skólavörðunnar.

Kristín Ýr Lyngdal

grunnskólakennari í Fellaskóla