Starfsánægja, lífið og hláturinn

12.09.2018 | Raddir

Starfsánægja, lífið og hláturinn

Á mínum fyrri vinnustað var andinn á kennarastofunni einstakur. Kennarastofan varð okkur athvarf, ef eitthvað bjátaði á í kennslu eða einkalífi vissum við að við fengjum stuðning meðal samstarfsmanna. Vinátta var líka mikil, á kennarastofunni ríkti gleði, þar var mikið hlegið, hljóð oft yfir hávaðamörkum en kennarar fóru léttari í næsta tíma sem smitaðist til nemenda. Starfsánægjan var mikil og starfmannaveltan náttúruleg, það hætti enginn fyrr en hann varð vegna aldurs. Gestir höfðu á orði hve bragurinn væri léttur og hve öfundsverð við værum að eiga þetta andrúmsloft, eitthvað óáþreifanlegt en afar mikilvægt hverjum vinnustað.

Vinnuumhverfi er ekki bara vinnuaðstaðan sem slík þótt hún skipti gríðarmiklu máli heldur einnig andinn, bragurinn, starfsánægjan, því glaður starfsmaður leggur sig meira fram, er trúrri vinnustaðnum og líður vel. Gleðin gefur af sér. Við hugsum mikið um loftgæði, lýsingu og hjóðvist þegar við erum inni í skólastofunni. Tennisboltar undir stólfætur, opnanlegir gluggar, almennileg lýsing og innirödd er eitthvað sem okkur þykir sjálfsagt og þekkjum. En áttum við okkur á því að ef teygist verulega úr hinum þekkta álagstoppi sem finnst á hverjum vinnustað verðum við þreytt. Ef okkur endast ekki frímínúturnar til að koma okkur milli stofa og ef hópar verða of fjölmennir hækkar verkefnabunkinn í samræmi við það og sólarhringurinn styttist. Ef alltaf er verið að tala um samdrátt og sparnað, kennarafundir verða of langir og það eina sem við hugsum um eru verkefnin og undirbúningurinn sem bíður, allt sem á eftir að gera heima og uppeldið og.., þá verðum við þreytt, mjög þreytt og hláturinn á kennarastofunni dofnar.

Kannastu við ástandið?

Ábyrgðin er okkar
Við flettum varla blöðum eða rennum gegnum netmiðla án þess að rekast á fréttir af bágbornu líkamlegu og andlegu ástandi þjóðarinnar, aukning kulnunar í lífi og starfi er staðreynd, lækkað hefur verulega í sjúkrasjóði KÍ, nemendum með greiningar og heilsubresti fjölgar (tek það fram að þetta er ekki stutt neinum rökum öðrum en tilfinningu þess sem kennt hefur í yfir 20 ár). Í samtali við langreyndan kennara kom upp úr dúrnum að honum þóttu nemendur taka miklum breytingum með komu snjalltækja, þessi tilfinning er verðugt rannsóknarefni því ég tel hann ekki einan um þessa tilfinningu. Það er efni í aðra grein.

Hvað er til ráða?

Vissulega fáum við alltaf sömu svörin þar sem eitt þeirra er að áreiti vegna stafrænna miðla hafi aukist, álag er um leið meira þar sem mikill tíminn fer í annað en áður. Um leið höfum við miklar áhyggjur af félagsþroska nemenda okkar og barna sem eiga sín helstu samskipti með samskiptaforritum ekki mannlegum eins og við teljum æskilegt. Væri ráðið þá að við færum öll í stafræna afvötnun? Það er reyndar ekki svo galin hugmynd en byrjum á byrjuninni.

Við berum ábyrgð á heilsu okkar, forgangsröðun og lífi okkar í heild. Sem betur fer eru flest okkar á þeim stað að við getum staldrað við og spurt okkur: Hvað skiptir mestu máli í lífinu núna?

Hvað er það?

Ég þurfti að gera það sjálf daginn sem ég vaknaði og leið eins og valtari hefði ekið yfir mig. Mín fyrsta hugsun var að sem betur fer væri ég nýkomin í sumarfrí svo ég missti ekki úr vinnu... en þarna vaknaði ég einstæð móðir í meira en fullu kennarastarfi, með nokkur aukaverkefni til að drýgja tekjurnar og áttaði mig á að ég hafði unnið yfir mig. Ég vóg salt á barminum og ég endurmat lífið, forgangsraðaði fjölskyldu og vinum í fyrsta sæti og vinnu í annað. En það er ekki nóg, ég minnkaði vinnu, hélt mig við fulla kennslu og hætti að taka aukaverkefni. Í stað verkefnanna fór ég að ganga á fjöll og hlæja meira því við þurfum að hreyfa okkur.

Og ég fuðraði ekki upp heldur hélt áfram að lifa, hlæja, brosa og kenna.

Það er betra að vakna ekki upp við valtarann, forgangsröðum strax.

Sigrún Birna Björnsdóttir

sérfræðingur í vinnuumhverfis- og jafnréttismálum hjá KÍ