Starfsánægja hefur áhrif á líðan og heilsufar

13.10.2017 | Raddir

Starfsánægja hefur áhrif á líðan og heilsufar

Norðurlandsdeildir Delta Kappa Gamma sem eru alþjóðasamtök kvenna í fræðslustörfum stóðu fyrir samræðuþingi annað árið í röð í tilefni alþjóðadags kennara 5. október 2017. Markmið Beta og Mý deilda með samræðuþingunum er að vekja athygli á og halda á lofti mikilvægu og margþættu starfi kennara á öllum skólastigum og stuðla að faglegri umræðu.

Yfirskrift samræðuþingsins í ár var „Líðan og starfsánægja kennara“. Þingið var haldið að Borgum og boðið var upp á veitingar í upphafi þings. Aðgangur var ókeypis og öllum opinn án skráningar en fjöldi þeirra sem mætti var um 70 manns. Sigrún V. Heimisdóttir sálfræðingur var fengin til að flytja stutt erindi um efnið.

Meðal þess sem fram kom í innleggi Sigrúnar var að líðan er tilfinningaleg upplifun sem getur verið jákvæð, hlutlaus eða neikvæð en þættir sem hafa áhrif á starfsánægju eru m.a. áhugahvöt, þekking á eigin þörfum, sjálfsvitun (hvernig sé ég mig sem starfsmann) og huglægt mat s.s. viðhorf. Starfsánægja er mikilvæg bæði fyrir starfsmann og stofnun, hún hefur áhrif á líðan og heilsufar starfsmanns sem um leið hefur áhrif á fjarveru og starfsmannaveltu auk þess sem vinnustaðir eru skemmtilegri þar sem starfsánægja ríkir. Þeir aðilar sem hafa áhrif á starfsánægju eru starfsmaðurinn sjálfur, samstarfsfólk og stjórnendur. Þessir hópar geta unnið að forvörnum og markmiðið er að draga úr tíðni, magni og alvarleika streituvalda.

Mikilvægt er að skoða starfið sjálft, vinnutilhögun og vinnuaðstæður, sýna frumkvæði og taka ábyrgð, skilgreina ógnanir í þeim tilgangi að fækka þeim, finna tækifæri, skoða lausnir og möguleika. Ekki er þó alltaf hægt að draga úr steituvöldum en þá þarf að styrkja starfsmanninn/hópinn og góðar leiðir til þess eru m.a. streitustjórnun, hugræn atferlismeðferð, slökunarleiðir og hreyfing. Þegar skoðað er hvað skiptir máli í forvörnum og streitustjórnun skipta félagslegir þættir og sterk liðsheild/samstarfshópur máli. Fram kom í máli Sigrúnar að mikilvægt sé að skoða hvað hver og einn getur gert í streitustjórnun. Starfsmaðurinn þarf að geta nýtt hæfileika sína, þroskast í umhverfi sínu, ráða við verkefni sem unnið er að, hafa frumkvæði og ná að samræma vinnu og einkalíf.

Sigrún fjallaði jafnframt um hugtakið streita en það kemur upphaflega úr verkfræði þegar fjallað var um álag á vélar og tæki. Í dag er starfstengd streita notað yfir líkamlegt, sálrænt eða félagslegt álag sem hægt og sígandi hefur neikvæð áhrif á einstaklinga sem svo veldur streitu.

Eftir innlegg Sigrúnar fóru fram samræður í sex til tíu manna hópum og lagt var upp með fimm spurningar sem hóparnir svöruðu. Skipting í hópa fór þannig fram að þegar gestir mættu drógu þeir litað spjald og liturinn á spjaldinu sagði fyrir um hvar hver og einn átti að sitja því borðin voru einnig merkt litum. Því varð skemmtileg blöndun milli skólastiga innan samræðuhópanna. Veggspjöld voru látin ganga á milli hópa og var ein spurning á hverju veggspjaldi. Því fékk hver hópur tækifæri til að ræða hverja spurningu og bæta við svör hinna hópana ef nýjar hugmyndir komu fram. Í lok samræðuþingsins valdi hver hópur tvö svör til að kynna af þeim svörum sem voru á hverju veggspjaldi.

Spurningarnar sem lagt var upp með voru eftirfarandi:

1. Hvernig starfsaðstæður þurfum við til að okkur líði vel?

2. Hvað getur starfsmannahópurinn gert til að stuðla að starfsánægju?

3. Hvað geta kennarar gert til að stuðla að eigin starfsánægju?

4. Hvað get ég sem starfsmaður gert til að stuðla að góðri liðsheild?

5. Hvernig er umræðan um starfið og hvernig ætti hún að vera?

Niðurstöður eftir samræðuþingið verða sendar til Fræðslusviðs Akureyrarbæjar, Sambands íslenskra sveitafélaga og Kennarasambands Íslands.Jónína Hauksdóttir, félagi í Beta deild Delta Kappa Gamma og í stjórn landssambands samtakanna.

Vefsíða Delta Kappa Gamma

Jónína Hauksdóttir

skólastjóri og félagi í Beta deild Delta Kappa Gamma
Viðfangsefni: Alþjóðadagur kennara, Starfsánægja