Starfendarannsóknir efla starfsþróun kennara

18.04.2018 | Raddir

Starfendarannsóknir efla starfsþróun kennara

Í Menntaskólanum við Sund hefur hópur kennara og stjórnenda unnið saman í starfendarannsóknarhópi síðan 2005. Hópurinn vinnur að breytingastarfi til að þróa nám og kennslu en hver kennari gerir rannsókn á eigin starfsháttum til að bæta sig í starfi og tengir saman þróunarstarf og rannsókn. Sameiginlegt markmið hópsins hefur verið að finna leiðir til að hvetja nemendur til að auka ábyrgð sína á náminu. Breytingarnar hafa beinst að því að virkja nemendur til þátttöku í námsferlinu í kennslustofunni og veita röddum nemenda aukið vægi.

Hópurinn heldur fundi mánaðarlega yfir skólaárið þar sem kennarar kynna og ræða um rannsóknir sínar. Með hópnum starfar ytri ráðgjafi frá Háskóla Íslands. Hlutverk hans er fjölþætt, t.d. faglegur stuðningur, ráðgjöf vegna kynninga á ráðstefnum, undirbúningur funda og þátttaka í umræðum hópsins. Í umræðunum veitir ráðgjafinn hvatningu og hrós, setur fram efasemdir og spurningar, tengir við fræðin, hvetur okkur til að kynna og birta rannsóknir okkar og setur fram tillögur um skref fram á veginn. Hafþór Guðjónsson, dósent við menntavísindasvið HÍ hefur verið ráðgjafi hópsins frá upphafi.

Við byggjum starf okkar á hugmyndum Jean McNiff sem lýsir starfendarannsókn sem spíral. Við byrjum á hringferli, skoðum starfshætti okkar, komum auga á hvað er vert að bæta, gerum áætlun um breytingu, söfnum gögnum, metum í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir og breytum og metum starfið þar til fullnægjandi árangur næst og þá byrjum við upp á nýtt. Spírallinn vísar til þess að starfendarannsókn lýkur aldrei, því þegar við höfum fengið bráðabirgðaniðurstöðu í einu viðfangsefni þá hafa vaknað nýjar spurningar sem leita þarf svara við og við höldum áfram inn í næsta hring með nýtt efni.

Á fundunum beinist athyglin oft að togstreitu þátttakenda í starfinu og því hvaða breytingar þarf að gera til að leysa úr henni. Þátttaka í starfendarannsóknum hefur aukið atbeina kennara til breytinga á starfi sínu og einnig aukið atbeina til þverfaglegs samstarfs. Þetta eru bein áhrif frá fundum hópsins þar sem saman koma kennarar úr ólíkum faggreinum og lýsa starfi sínu og rannsóknum. Við erum að innleiða kennslufræði um virkni og ábyrgð nemenda á námi sínu í gegnum fjölbreytta verkefnavinnu og skapandi nám. Við flytjum þannig áhersluna frá miðlun kennarans á efninu yfir í þátttökunám nemenda, t.d. samvinnunám, skapandi nám, vendinám og kynningar nemenda. Nemendur eiga að læra efnið heima og vinna síðan ýmis verkefni í kennslustundum. Þessar hugmyndir spretta upp úr starfi kennaranna, sérstaklega í rannsóknarhópnum. Kennslufræðin um virkni og ábyrgð nemenda er orðin að yfirlýstri stefnu skólans í nýrri námskrá og nýju þriggja anna kerfi frá og með haustinu 2016. Nú styðja stjórnendur við breytingar sem kennarar voru byrjaðir að gera.

Við teljum að áhersla okkar á verkefnavinnu eigi samhljóm við hugmyndafræði sem felst í því að byggja upp námskraft nemenda „Building Learning Power“. Kjörorð BLP eru seigla, ráðkænska, ígrundun og miðlun. Upphafsmaður BLP er Guy Claxton sem hefur lagt mikla áherslu á að menntun snúi ekki eingöngu að innihaldi námsins heldur einnig að starfsháttum í skólunum, t.d. námsvenjum, hugsun og viðhorfum nemenda. Samkvæmt Claxton á nám að felast í að læra að gera hluti með öðrum, þora að gera mistök og rækta með sér nýjar hugmyndir. Brýnast er að þróa skólamenningu og námsumhverfi sem ræktar með ungu fólki viðhorf sem auðvelda því að takast á við verkefni og óvissu á yfirvegaðan hátt.

Starfendarannsóknir veita kennurum kjark og þor til að gera breytingar á starfinu, auka starfsánægju þeirra, færa þá nær nemendum og hvetja til þverfaglegs samstarfs. Þær hafa áhrif á sjálfsmynd kennara, veita kennurum vald yfir eigin þekkingu á starfinu og leiða til varanlegra breytinga á kennsluháttum. En þær valda einnig togstreitu vegna tímaskorts þar sem hvorki er gert ráð fyrir sérstökum tíma fyrir rannsóknir né þverfaglegs samstarf þannig að starfendarannsóknin bætist ofan á allt annað. Sumir finna fyrir óöryggi gagnvart rannsóknaraðferðum og telja sig þurfa meiri stuðning þar. Einnig er erfitt að gagnrýna eigið starf og það tekur á að gera breytingar því alltaf er eitthvað sem gengur ekki vel til að byrja með. Þá geta hópurinn og ytri ráðgjafinn veitt mikilvægan stuðning. Einnig er hér mikilvægt að afla fjölbreyttra gagna og hlusta á raddir nemenda. Hefð og samningar gera ráð fyrir samstarfi kennara í sínum faggreinum á meðan starfendarannsóknarhópurinn er þverfaglegur. Gert er ráð fyrir fagfundum en ekki ætlaður tími fyrir þverfaglega samvinnu. Það getur myndast togstreita ef mismunandi áherslur eru lagðar innan fagsins og þverfaglegrar vinnu, nýjungarnar gætu ekki virkað innan fagsins eða öfugt.

Takk fyrir þessa ráðstefnu, hún veitir mikilvægt tækifæri fyrir kennara á öllum skólastigum að deila á milli sín hugmyndum og reynslu sinni af starfsþróun því við þurfum að byggja upp betra skipulag í kringum starfsþróun kennara til að efla þá faglega til að taka forystu í þróun skólastarfsins.

Greinin er byggð á erindi sem Hjördís Þorgeirsdóttir flutti á ráðstefnu um starfsþróun og mikilvægi hennar fyrir framþróun skólastarfs. Að ráðstefnunni, sem fór fram í febrúar 2018, stóðu Menntavísindasvið HÍ, Kennarasamband Íslands og menntamálaráðuneytið.

Umfjöllun um ráðstefnuna.

HEIMILDIR
Claxton, G. (2002) Building learning power. Bristol: TLO Limited.
Hafþór Guðjónsson (2011). Action Research in Iceland - with the "I" at the center of inquiry. Paper presented at the Value and Virtue in practictioners research, York St John University, York, England.
Hjördís Þorgeirsdóttir. (2016) Investigating the use of Action Research and Activity Theory to Promote the Professional Development of Teachers in Iceland. Doktorsritgerð HÍ og UE. http://hdl.handle.net/1946/23886
McNiff, J., & Whitehead, J. (2006). All you need to know about action research. London: Sage.

Dr. Hjördís Þorgeirsdóttir

félagsfræðikennari í MS
Viðfangsefni: Starfsþróun