Snjalltækni, sköpun og málrækt í leikskólanum Krógabóli

18.04.2018 | Raddir

Snjalltækni, sköpun og málrækt í leikskólanum Krógabóli

Undanfarin fjögur ár hefur verið unnið fjölbreytt þróunarstarf í leikskólanum Krógabóli á Akureyri. Verkefnið hófst veturinn 2014-2015 þegar læsisvinna í leikskólanum var tekin til endurskoðunar. Markmiðið með verkefninu var heildstæð nálgun á vinnu með málið, þ.e. vinna með alla þætti málsins í leik og daglegu starfi. Lögð var áhersla á lestur, samræðu, tjáningu, ritun og miðlun en auk þess var unnið markvisst með orðaforða og skilning.

Fyrsta skrefið í þróunarvinnunni var að búa til nýja aldurstengda námskrá fyrir leikskólann. Nýja námskráin er einföld og aðgengileg og auðveldar kennurum að skipuleggja starfið og laga það að aldri og þroska barnanna. Námskránni fylgja matsblöð sem kennarar fylla út yfir veturinn en þau eru síðan notuð til að uppfæra námskrána að hausti. Þannig á námskráin að vera lifandi plagg sem þróast í takt við tíðarandann og það sem er í gangi í leikskólanum hverju sinni.

Annað skrefið var að auka aðgengi kennara að vönduðu efni og aðstoða þá við að nýta það í starfi með börnunum. Allt málörvunarefni sem til var í leikskólanum var flokkað, merkt og sett á áberandi stað miðsvæðis. Til að auðvelda kennurum að skipuleggja málörvunarstundir voru búnar til kennsluleiðbeiningar með hugmyndum að fjölbreyttum verkefnum sem byggja á leik, hreyfingu og vinnu með bækur.

Þriðja skrefið var að innleiða þemavinnu byggða á barnabókum. Þemavinnan byggir á fjölbreyttri vinnu með alla þætti málsins þar sem mikið er lagt upp úr lestri, rannsóknarvinnu, samræðum og sköpun. Að verkefninu loknu fer bókin, kennsluhugmyndirnar og þau verkefni sem búin hafa verið til út frá efni bókarinnar í poka sem geymdur er í verkefnasafni leikskólans. Smám saman hefur orðið til gott safn af bókapokum sem handhægt er að grípa og nýta, t.d. í þemaverkefnum, samverustundum, hópastarfi eða sérkennslu.

Mikill kraftur var í kennarahópnum og vilji til að halda áfram með verkefnið eftir að fyrsta árinu lauk. Í kjölfarið hófst þriggja ára þróunarvinna þar sem spjaldtölvur voru innleiddar í leikskólastarfið með nýsköpun í kennsluháttum að leiðarljósi. Markmiðið var áfram að vinna með málið á skapandi hátt en nú í gegnum sögu-, rafbóka- og myndbandagerð. Frá upphafi var lagt upp með að líta á snjalltæknina sem verkfæri og nýja leið til að læra. Sett voru skýr markmið um hvernig tæknin var nýtt í starfinu og mikið lagt upp úr að sköpunargleðin fengi að njóta sín í verkum barna og kennara.

Þegar verkefnið hófst var til ein spjaldtölva í skólanum en í dag hefur hver hópstjóri, auk sérkennslustjóra, spjaldtölvu til afnota fyrir sig og sinn hóp. Frá upphafi var mikið lagt upp úr jafningjafræðslu og að kennarar hjálpuðust að við að læra á tækin. Verkefnið hlaut veglegan styrk frá Sprotasjóði sem gerði skólanum kleift að ráða verkefnastjóra til að halda utan um verkefnið, kynna það út á við, aðstoða starfsfólk skólans við að læra á tækin og nýta þau til gagns og gamans í starfinu. Styrkurinn gerði skólanum einnig kleift að njóta ráðgjafar frá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Kennsluráðgjafar frá MSHA heimsóttu skólann reglulega, héldu námskeið fyrir starfsfólk, gáfu góð ráð, hvöttu mannskapinn til dáða og sáu um skýrslugerð. Skapandi starf með tækni blómstraði og í desember 2017 var opnuð vefsíða á slóðinni http://snjalltaekni.xoz.is þar sem sjá má brot af þeim áhugaverðu og skemmtilegu verkefnum sem unnin voru. Verkefnin sýna og sanna að vinna með tækni í leikskóla getur bæði verið málörvandi og skapandi.

Þróunarverkefnið hefur verið kynnt víða, nú síðast 22. febrúar síðastliðinn á ráðstefnunni Starfsþróun kennara - forysta og ánægja í skólastarfi. Ráðstefnur um skólaþróun eru mikilvægur vettvangur fyrir kennara til að miðla reynslu sinni, skiptast á skoðunum og læra hver af öðrum. Það er áhugavert að fá tækifæri til að heyra hvað aðrir skólar eru að gera, kynnast umbótum í skólastarfi og nýsköpun í kennsluháttum. Á ráðstefnum hittast kennarar úr skólum víða að af landinu og þar myndast tengsl og kvikna hugmyndir sem geta leitt til nýrra verkefna og framþróunar í skólastarfi. Að taka þátt í þróunarstarfi og fá tækifæri til að læra og deila reynslu sinni með öðrum er mikilvægur hluti símenntunar og frábær leið til að viðhalda starfsánægju og koma í veg fyrir kulnun.

Greinin er byggð á erindi sem Íris Hrönn Kristinsdóttir flutti á ráðstefnu um starfsþróun og mikilvægi hennar fyrir framþróun skólastarfs. Að ráðstefnunni, sem fór fram í febrúar 2018, stóðu Menntavísindasvið HÍ, Kennarasamband Íslands og menntamálaráðuneytið.

Umfjöllun um ráðstefnuna.

Íris Hrönn Kristinsdóttir

verkefnastjóri
Viðfangsefni: Starfsþróun