Sköpun og samvinna með Minecraft

09.05.2016 | Raddir

Sköpun og samvinna með Minecraft

Ég hef unnið að þróun verkefnabókar í stærðfræði þar sem öll verkefnin eru tengd og ætluð Minecraft-tölvuleiknum. Þættir úr stærðfræði og spilun á Minecraft eru þannig samþætt. Á þeim fáum mánuðum sem ég hef notað verkefnabókina hef ég séð að nemendur tengja mjög vel við aðferðir sem þau þekkja úr Minecraft. Nemendum gengur vel að muna aðferðir sem þau nota í Minecraft og færa þeir svo aðferðirnar yfir í stærðfræðibækurnar, sem dæmi sjá nemendur mjög vel hvernig yfirborðsflatarmál er fundið í Minecraft og tengja mjög vel við það þegar þau sjá hugtakið í stærðfræðibókinni. Þessi hlutbundna vinna sem þau gera í Minecraft virðist hjálpa þeim að efla hugtaka skilning.

Nemendur vinna að jafnaði mest í venjulegum stærðfræðibókum en ég nota Minecraft einu sinni til tvisvar í mánuði, stundum oftar.

Verkefnabókin inniheldur 17 verkefni nú þegar auk hugmynda um hvernig megi stækka verkefnin. Bókin er hugsuð sem hugmyndabanki að verkefnum sem kennarar geta nýtt sér til þess að gera kennsluna fjölbreyttari. Þetta er ekki síður áskorun fyrir kennara en nemendur. Að gera eitthvað öðruvísi sem brýtur kennsluna upp er auðvitað hlutur sem skemmtilegt er að þróa. Bókin er enn í þróun og ég vonast til að geta nýtt verkefnið sem hluta af lokaverkefni mínu í meistaranáminu. Nemendur eru duglegir við að hjálpa til við þróun bókarinnar og vilja fleiri verkefni í bókina. Nokkrar hugmyndir eru á teikniborðinu sem munu án rata í bókina síðar.

Ég sé endalausa möguleika á að nota Minecraft í kennslu, hvort sem er í stærðfræði, umsjónartímum, ensku, íslensku, samfélagsfræði eða hvaða fagi sem er. Nemendur eru afar ánægðir að eiga möguleika á að læra stærðfræði á meðan þau spila Minecraft. Alls konar verkefni hafa litið dagsins ljós og það væri við hæfi að sýna eitt af verkefnunum í bókinni. Verkefnið sem ég ætla að sýna nefnist „Jarðskjálfti í Perú“ og er hægt að nota sem æfingu í hnitakerfinu auk þess búa nemendur til dæmi sem þeir leggja fyrir samnemendur eða aðra hópa. Þetta er ótrúlega skemmtilegt verkefni sem sló í gegn í 8. – 10. bekk hjá mér. Verkefnið má sjá hér fyrir neðan.

Ég hef að mestu hugsað bókina út frá stærðfræði en hef auk þess unnið að einu verkefni með umsjónarbekknum mínum (9. bekkur) í umsjónartímum. Þar búum við til veröld og erum í fjögurra til fimm manna hópum. Nemendur læra að virða eigur annarra og vinna saman. Þau fá viss fyrirmæli frá kennaranum í hverjum tíma og þurfa sem hópur að vinna úr vandamálunum. Dæmi um vandamál er að hús einhvers nemanda er sprengt. Nemendur þurfa að hjálpast að við að byggja húsið upp á nýtt og finna út hvernig húsið var eyðilagt. Ræða þarf viðurlög þess sem eyðilagði húsið og allt þar fram eftir götunum. Í Minecraft felast miklir möguleikar á að efla samvinnu bekkjarins.

Ég skora á kennara að deila skoðunum og því sem þeir eru að gera. Kennarar þurfa að fara út fyrir þægindarammann, þora að breyta til og gera nýja hluti. Nemendur elska það og kennarar líka.

Gunnlaugur Smárason, grunnskólakennari og meistaranemi við HÍ.


JARÐSKJÁLFTI Í PERÚ – DÆMI UM VERKEFNI

Í nótt gerðist hræðilegur atburður, jarðskjálfti upp á 7,8 á Richter varð í grennd við fjallaþorp í Perú. Tíu manns er enn saknað og höfum við fengið hnit af staðsetningu þeirra. Verkefnið okkar er að bjarga þeim og koma þeim upp úr holunum sem þau grófust í. Þegar við höfum bjargað öllum, ætlum við að hjálpa til að endurbyggja þorpið þeirra.

Hér fyrir neðan er kort af þorpinu, notaðu það til að finna fólkið í holunum.

Til þess að fá fjallaþorpið (Heiminn) gerir þú eftirfarandi.

Þú ferð í New game -> ýtir á Advanced (uppi í hægra horninu) -> stimplar svo inn -94440 í seed-dálkinn -> Svo ýtir þú á Create World!

Það sem þarf að gera í verkefninu...

 1. Staðsetja fólk á kortið og á sama stað í Minecraft
 2. Búa til dæmi sem leiða nemendur að hnitinu
 3. Brenna, brjóta í þorpinu (svo það líti út eins og jarðskjálfti hafi orðið)
 4. Reiknaðu dæmin á blaðinu
 5. Finndu hnitin
 6. Bjargaðu fólkinu upp úr holunum
 7. Hjálpaðu til við að endurbyggja þorpið

Gott er að hafa í huga og leiðbeina nemendum:

 1. að hafa alltaf jafn stóra holur sem fólkið „týnist“ í.
 2. að hafa grasker eða ljós ofan í holunni
 3. ekki sprengja þegar þú leitar að fólki (gætir drepið fólkið)
 4. ekki gera dæmin of auðveld (kennari leiðbeinir í gegnum þann hluta).

Gerðu verkefnið stærra…

Hægt er að leyfa nemendum að finna flottar veraldir og búa til kort með hnitakerfi. Nemendur vita oftast meira um hvar flottar veraldir er að finna.

Nemendur búa til dæmi úr því sem unnið er með:

Prósentur, hlutföll, algebru, margföldun, deilingu, samlagningu, frádrátt og jöfnur svo eitthvað sé nefnt.

Frjálsræðið er algjört í þessu skemmtilega verkefni. Einnig er hægt að samþætta verkefnið við sögu, samfélagsfræði, íslensku, ensku, dönsku og fleira. Nemendur upplifa sig sem hjálparsveit og geta skrifað greinar og umfjallanir um starf sitt í fjallaþorpinu í Perú.

Sex kennslustundir fara í verkefnið – auk þess að úrvinnslan getur tekið 2 til 4 kennslustundir.

Um höfundinn og verkefnið
Höfundur vinnur að verkefnabanka fyrir Minecraft í kennslu. Honum til aðstoðar er unnusta hans, Steinunn Alva Lárusdóttir, sem er einnig Í meistaranámi. Steinunn Alva sér um uppsetningu og fræðilega kafla bókarinnar en Gunnlaugur annast hugmyndavinnur er lýtur að verkefnum. Gunnlaugur kennir stærðfræði á elsta stigi í Grunnskólanum í Stykkishólmi.


Gunnlaugur Smárason

grunnskólakennari og meistaranemi við HÍ