Metnaðarfullir leikskólakennarar – gæði í leikskólastarfi

17.10.2017 | Raddir

Metnaðarfullir leikskólakennarar – gæði í leikskólastarfi

Jón Torfi Jónasson var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 2 núna í liðinni viku og ræddi þar um menntamál. Hann ræddi þar um metnað kennara og vilja þeirra til þess að hafa ráðrúm til þess að standa sig vel í starfi. Ég get heils hugar tekið undir orð Jóns Torfa og fullyrði að þó svo að í umræðunni, síðustu misseri, um vanda leikskólanna við að fá fólk til starfa hafa leikskólakennarar ekkert slakað á eigin kröfum til gæða leikskólastarfs. Metnaðurinn er slíkur að margir leikskólakennarar eru að ganga sér til húðar og það er auðvitað ekki nógu gott.

Leikskólar hér á landi eru í fremstu röð í heiminum hvað varðar gæði í námi og kennslu og þannig viljum við hafa það. Það er staðreynd að mörg lönd horfa með aðdáun á leikskólastarfið okkar. Menntun leikskólakennara hefur alltaf verið mikil að gæðum og það er ekki spurning að hækkandi menntunarkröfur síðustu áratugi hefur glætt leikskólana miklum faglegum auði sem við erum mikið öfunduð af, meðal annars af nágrönnum okkar á hinum Norðurlöndunum.

Velmenntaðir kennarar með fræðilega þekkingu
Með því að færa nám leikskólakennara á meistarastig hafa rannsóknir á leikskólastarfi aukist verulega og það var einmitt það sem við þurftum svo mikið á að halda hér á landi. Leikskólakennaranemar koma nú til starfa sem velmenntaðir kennarar með fræðilega þekkingu og reynslu af rannsóknarstarfi, tilbúnir að takast á við metnaðarfullt starf inni í leikskólanum. Við verðum að hlúa vel að þessu fólki og veita þeim það svigrúm sem þarf til þess að sérfræðiþekking þeirra nýtist sem best í leikskólanum. Til þess þarf m.a. að auka undirbúningstíma, en í dag hafa leikskólakennarar einungis fjórar klukkustundir á viku til þess að vinna að öllum þáttum starfsins fyrir utan kennslu.

Kennsluskylda leikskólakennara er 36 klst. á viku og sá allra lengsti tími sem þekkist samkvæmt skýrslu OECD sem birt var síðasta sumar. Það segir sig sjálft að leikskólarnir eru í engri aðstöðu til að halda í leikskólakennara með framhaldsmenntun á ýmsum sviðum og hafa um leið aflað sér kennsluréttinda í grunnskólanum. Það er þyngra en tárum taki að horfa á eftir menntaðasta fólkinu okkar yfir á næsta skólastig einungis vegna starfskjaranna. Ekki eru það launin, af því að grunnskólakennarar og leikskólakennarar eru með sömu laun. Ég hef t.d. ekki hitt þann sérkennara sem farið hefur yfir í grunnskólann sem ekki saknar leikskólans. Vinnuálagið, viðvera með börnum og ónógur undirbúningstími eru að þeirra sögn ástæða veru þeirra í grunnskólanum. Þetta verða rekstararaðilar leikskólanna að laga og það sem allra, allra fyrst.

Ég hef verið svo lánsöm að hafa haft tækifæri til að koma í mjög marga leikskóla hér á landi undanfarin ár og kynna mér starfið sem þar fer fram. Það hef ég gert vegna þess að mér hefur verið boðið í heimsókn sem varaformaður Félags leikskólakennara, en einnig hef ég haft gæfu til að sækja viðburði í hinum ýmsu leikskólum á vegum Faghóps um skapandi leikskólastarf. Metnaðurinn og áræðni leikskólakennara er ótrúlegur og eins og ég sagði áður greinilegt að ekkert, alls ekkert er slakað á gæðum þó svo að illa ári.

Skapandi starf í leikskólum
Þetta skólaár 2017-2018 er fimmta árið sem Faghópur um skapandi leikskólastarf býður upp á viðburði í leikskólum undir kjörorðinu „skapandi leikskólastarf“. Markmiðið með þessum viðburðum er að kynna allt það mikla skapandi starf sem fram fer í leikskólum landsins. Þar gefst leikskólakennurum tækifæri á að miðla og kynna skapandi starf út frá grunnþáttum menntunnar í viðkomandi leikskóla í samstarfi við Faghópinn.

Viðburðirnir hafa verið vel sóttir af starfsfólki leikskóla og einstaka grunnskólakennari hefur einnig mætt. Það hefur verið samdóma álit allra sem mætt hafa að dagskráin á hverjum stað hafi verið áhugaverð og menntandi. Fyrir svo utan hvað það gefur fólki líka að hitta aðra kennara og skiptast á hugmyndum að verkefnum og margs konar tilbrigðum í kennslufræði. Heimsóttir hafa verið tuttugu og þrír leikskólar á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Í vetur verða viðburðir í sjö leikskólum og hefur einn nú þegar farið fram í Nóaborg og sá næsti verður í leikskólanum Reynisholti miðvikudaginn 25. október næstkomandi, kl. 17-19.

Ég vil hvetja alla sem láta sér annt um leikskólastarf að mæta, ég vil sjá að leikskólanefndir, fólk sem er að íhuga framboð til sveitarstjórnar, sveitarstjórnir, kennarar á öðrum skólastigum, háskólakennarar, menntamálayfirvöld og aðrir þeir sem að menntun koma, nýttu sér þessa viðburði Faghópsins til þess að kynna sér þvílíkt gæða skólastarf fer fram í leikskólum hér á landi.

Fjóla Þorvaldsdóttir

leikskólakennari og varaformaður FL
Viðfangsefni: Leikskólinn, Skapandi starf