Menntun fyrir alla – rödd kennara

14.12.2018 | Raddir

Menntun fyrir alla – rödd kennara

Flestir eru sammála um að kennarar séu í lykilstöðu þegar kemur að menntun fyrir alla. Um hana getur vart verið að ræða án þess að kennarar starfi heilshugar í þeim anda. Til að kennarar geti tileinkað sér nýjan hugsunarhátt og leiðir í kennslu þurfa þeir að hafa rými til starfsþróunar – og þar er ekki átt við tveggja daga námskeið að vori eða hausti, hversu skemmtileg sem þau kunna að vera.

Starfsþróun kennara er ekki einfalt viðfangsefni því að það er afar erfitt að breyta kennarahegðun. Það er þó ekki vegna þess að kennarar spyrni við fótum eða séu andsnúnir breytingum. Orsakanna er fremur að leita í ýmsu því sem gerir kennarastarfið svo sérstakt (og kann að virðast mótsögn við fyrstu sýn): Kennsla er tvímælalaust mjög flókið starf. Enginn dagur er öðrum líkur og kennarar þurfa að geta brugðist hratt og örugglega við óvæntum aðstæðum. Þar af leiðandi er mikið um „viðbrögð án umhugsunar“ í kennslu og smám saman taka kennarar að treysta á ákveðnar leiðir í ákveðnum aðstæðum, nánast rútínur, og þeim er erfitt að breyta.

Kennsla er sérfræðistarf. Það sem þarna er lýst er kallað „rútínu-sérþekking“ og er gjarnan gerður greinarmunur á henni og „aðlögunar-sérþekkingu“ (e. adaptive expertise). Hið síðarnefnda birtist í því að kennari gerir sér grein fyrir eigin viðhorfum og hvernig þau hafa áhrif á kennsluhætti, áttar sig á því þegar þessi viðhorf kunna að vera fjötur um fót, horfist í augu við það þegar vandamál verða viðvarandi og treystir sér til að leita (utanaðkomandi) ráða og lausna. Þetta krefst tíma og tækifæra til að staldra við og í því liggur vandinn – fáir kennarar hafa ráðrúm eða þann stuðning sem nauðsynlegur er til að sinna starfsþróun af þessu tagi.

Um hríð hef ég stýrt þverfaglegu samstarfi kennara í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Það, og hundruð heimsókna í kennslustofur ótal skóla síðustu áratugi, færir mér heim sanninn um að kennarar kunna vel að meta að fá tækifæri til að ræða kennslu sína í jafningjahópi og fá endurgjöf starfsfélaga sinna. Enn fremur eflir það þá í starfi að hafa traustan fræðilegan grunn til að byggja vinnu sína á. Til að starfsþróun virki eins og til er ætlast þarf hún að standa um lengri tíma og nauðsynlegt er að geta fléttað hana inn í eigin kennslu jafnharðan. Þá er ekki síður mikilvægt er að tileinka sér hugsunarhátt rannsakandans, að geta unnið kerfisbundið, hafa góða þekkingu á viðeigandi hugtökum, sem og eigin hugsun (e. metacognitive) – og nú er komið að rúsínunni í pylsuendanum: Kennarar þurfa að hafa bæði umboð til gera breytingar og finna að þeir hafi áhrif.

Kennarar eru sérfræðingar. Sýnum þeim traust og veitum þeim tækifæri og skólinn í víðasta skilningi mun njóta góðs af.

Greinin er byggð á erindi sem Súsanna flutti á fundi í Laugalækjarskóla 20. nóvember 2018. Fundurinn hluti af fundaröðinni Menntun fyrir alla.

Myndin er úr safni KÍ.

Súsanna Margrét Gestsdóttir

aðstoðarskólameistari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla