Menntun fyrir ALLA

12.12.2018 | Raddir

Menntun fyrir ALLA

Það er ánægjulegt að fara eigi fram vinna við nýja menntastefnu á Íslandi þar sem taka á tillit til allra, menntun fyrir alla, eins og yfirskriftin er. Það er afar mikilvægt og löngu tímabært að hafa þessi tvö orð að leiðarljósi: Fyrir ALLA, því öll börn eiga jú rétt á menntun. Þetta málefni snertir mig, sem sérkennara og deildarstjóra sérkennslu, afar mikið þar sem ég vinn með börnum sem flest eru með fötlun eða einhverjar sérþarfir, sem og fjölskyldum þeirra sem þurfa oft og tíðum að berjast fyrir réttindum barna sinna í kerfinu.

Leik-, grunn- og framhaldsskólar hér á landi eru fyrir alla, eða án aðgreiningar samkvæmt samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fólks með fötlun frá árinu 2006, og sem undirritaður var á Íslandi árið 2007
Í Sáttmálanum er skýrt kveðið á um réttindi fatlaðs fólks til menntunar án mismununar, í skóla án aðgreiningar á öllum skólastigum.

Í kjölfar þessa samnings og breytinga á lögum hefur fjölbreytileiki nemendahópa á öllum skólastigum aukist verulega. Í öllu almennu skólastarfi eru nú nemendur með sérþarfir, en samkvæmt reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskólum frá árinu 2010 teljast það vera þeir nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun, geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir.

Kveðið er á um það í lögum um grunnskóla að nemendur með sérþarfir eigi rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar. Í lögum um leikskóla er einnig kveðið á um að börn með sérþarfir eigi rétt á sérstakri aðstoð og þjálfun sem skuli fara fram undir handleiðslu sérfræðinga.

Grunnskólanemendum sem þurfa sérkennslu hefur fjölgað undanfarin ár og voru þeir orðnir 28,4% nemenda skólaárið 2014-2015. Á sama tíma lýsa foreldrar barna með sérþarfir yfir miklum áhyggjum af því að ekki sé verið að mæta þörfum barna þeirra nægilega vel í skólakerfinu.

Þetta er alveg sérstaklega viðkvæmur hópur nemenda sem þarf sérhæfðan stuðning til að fá jafngild tækifæri til náms á við aðra nemendur eins og þeir eiga rétt á samkvæmt Aðalnámskrá og lögum um grunnskóla. Í reglugerð um nemendur með sérþarfir er kveðið á um að þessir nemendur fái sérstakan stuðning og rökstudda einstaklingsnámskrá í samræmi við þær sérstöku þarfir sem þeir kunna að hafa á hverjum tíma.

Þar er einnig kveðið á að um að þessi stuðningur sé veittur af sérkennurum eða öðrum sérmenntuðum fagaðilum.
Með sérkennurum og öðrum fagaðilum er átt við þá sem hafa sérmenntun til þess að veita sérstakan stuðning í námi og sinna ráðgjöf til umsjónarkennara og annarra kennara. Mikilvægt er að umsjón með slíkum sérstuðningi sé í höndum sérmenntaðs starfsfólks sem hefur þekkingu á sérþörfum nemenda og þeim úrræðum sem þarf til að gefa nemendum jafngild tækifæri til náms. En því miður er það ekki alltaf svo.

Í rannsókn Amalíu Björnsdóttur og Kristínar Jónsdóttur frá árinu 2010 kom í ljós að 83% skólastarfsfólks var sammála því að umsjónarkennarar hefðu ekki þann undirbúning sem þarf til að sinna öllum börnum. Einnig sýndi úttekt Hafdísar Guðjónsdóttur og Jóhönnu Karlsdóttur frá árinu 2011 á inntaki menntunar kennara við Menntavísindasvið Háskóla Íslands að þar vantaði upp á undirbúning kennara til að mæta ólíkum þörfum nemenda innan skóla án aðgreiningar. Þessu ber að huga að þegar kemur að menntun kennara, þannig að þeir séu í stakk búnir til að takast á við fjölbreyttan nemendahóp.

Undanfarin ár hafa rannsóknir í skólum hérlendis leitt í ljós áhyggjur kennara og foreldra af því að þörfum nemenda með sérþarfir sé ekki nægilega vel mætt.

Það endurspeglast einnig í könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara, sem var gerð 2012, en þar kom fram að stór hluti kennara hafði áhyggjur af framkvæmd skóla án aðgreiningar og taldi álag í starfi hafi aukist mikið vegna aukinna hegðunarvandkvæða, fleiri nemenda með sérþarfir og minni aðstoðar stuðningsfulltrúa. Aðspurðir um hvað þeim þætti erfiðast í starfi nefndu flestir kennaranna agavandamál og nemendur með sérþarfir.

Þetta kemur einnig fram í úttekt Evrópumiðstöðvar árið 2017 um nám án aðgreiningar og sérþarfir á öllum stigum íslenska skólakerfisins, það er að segja, á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi en þar kemur fram að margir starfsmenn skóla efast um að grunnmenntun þeirra og/eða tækifæri til faglegrar starfsþróunar nýtist sem skyldi til undirbúnings fyrir skólastarf án aðgreiningar.

Það er því ljóst að veruleg þörf er á faglegum og vönduðum vinnubrögðum af hálfu sérhæfðs starfsfólks, þar á meðal sérkennara, til að sinna ráðgjöf til almennra kennara og beinum stuðningi við nemendur með sérþarfir.
Einnig er mikilvægt að endurskoða kennaramenntun með hliðsjón af því að nemendahópurinn er að verða sífellt fjölbreytilegri og kröfurnar um fjölbreytta kennsluhætti aukast að sama skapi. Til að koma til móts við núgildandi lög og námskrár verður að horfa fram á veginn og efla almenna kennaramenntun og ekki síður sérkennaramenntun. En það þarf líka að koma til móts við kennara hvað varðar vinnuálag og önnur kjaratengd atriði.

Að lokum langar mig að lýsa enn og aftur yfir ánægju minni með að þetta starf skuli vera farið af stað og vona að það verði í þetta sinn ekki bara komið til móts við þarfir nemenda í skóla fyrir alla heldur takist okkur að uppfylla þessar þarfir. Þá getum við með sanni sagt að á Íslandi sé menntun fyrir alla.

Greinin er byggð á erindi sem Sædís Ósk flutti á fyrsta fundi í fundaröð menntamálaráðuneytisins vegna mótun nýrrar menntastefnu til 2030. Fundurinn var haldinn í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri 3. september 2018.

Myndin er úr safni KÍ – ljósmyndari Anton Brink Hansen.


Sædís Ósk Harðardóttir

deildarstjóri stoðþjónustu við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri og formaður Félags sérkennara á Íslandi