Lærdómssamfélag og samræmd próf

15.05.2018 | Raddir

Lærdómssamfélag og samræmd próf

Nú á vorönn hafa samræmdu könnunarprófin enn og aftur fengið mikið pláss í fjölmiðlum og þá ekki síst vegna þeirra vandamála sem upp komu við framkvæmd þeirra í 9. bekk. Prófin hafa í gegnum tíðina oftar en ekki beint kastljósinu að skólastarfi undir neikvæðum formerkjum og einkum að einstaka skólum og sveitarfélögum sem ekki hafa náð góðum árangri. Það hefur vafalaust ekki auðveldað þeim að laða til sín öfluga kennara.

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Í kjölfar vandamálanna sem upp komu núna í mars kallaði mennta- og menningar-málaráðherra marga aðila úr skólasamfélaginu að borðinu til að ræða þá stöðu sem upp var komin og gafst þá tækifæri til að ræða almennt um kosti og galla samræmdra prófa. Sú umræða hefur haldið áfram og margir hafa tjáð sig opinberlega um málefnið. Hafa verið færð rök fyrir því að samræmdu könnunarprófin hér á landi hafi jafnvel haft neikvæð áhrif á þróun kennsluhátta og almennt skólastarf.

Víða hafi prófin ekki ýtt undir fjölbreytta kennsluhætti heldur frekar verið stýritæki þannig að áhersla er lögð á að kenna fyrir þau. Þau kalli fram kennsluhætti sem beinast að því að miðla því inntaki sem talið er að búi nemendur undir þau og stuðli þannig að einhæfni í kennslu enda styðja rannsóknir þá staðhæfingu. Samræmdu könnunarprófin eru aðeins lítill hluti af námsmati skólanna en hafa þó fengið mikla athygli í opinberri skólamála¬umræðu á kostnað margra annarra mikilvægra þátta í skóla¬starfi.

Samræmd könnunarpróf samrýmast illa stefnunni um skóla án aðgreiningar. Ef laga á námið að margbreyttum þörfum nemenda getur ekki verið réttmætt að mæla árangur þess á samræmdum mælikvarða. Ætla verður að skrifleg samræmd próf henti sérlega illa sem námsmat fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku og nemendur með leshömlun. Þessir nemendur hafa þvert á móti ríka þörf fyrir einstaklingsmiðað nám, sveigjanlega kennsluhætti og námsmat sem metur hæfni þeirra á þeirra eigin forsendum og stuðlar að góðum námsárangri, félagsfærni og sjálfstrausti. Samræmd próf geta hentað til að meta þekkingu og ef til vill að einhverju leyti færni, en hæfni, eins og hún er skilgreind í Aðalnámskrá grunnskóla, geta þau varla metið. Til dæmis er það hæpið að þau gefi réttmætar og áreiðanlegar niðurstöður um ábyrgðartilfinningu, víðsýni og sköpunarmátt nemenda, siðferðileg og samfélagsleg viðhorf þeirra, hæfni nemenda til að greina eigin þekkingu, draga ályktanir og rökstyðja og hæfni þeirra til að nota margvísleg tjáningarform til miðlunar.

Leiðsagnarmat í stað samræmdra prófa

Mörg lönd sem við berum okkur saman við eru með aðrar áherslur sem skila góðum námsárangri. Að okkar mati er nú kominn tími til að ríki og sveitarfélög, í samvinnu við háskóla, einbeiti sér að rannsóknum á því hvernig einstaka skólar og skólakerfið í heild stendur sig í að uppfylla aðalnámskrár og aðra þætti menntastefnunnar. Niðurstöður á að nýta til að styðja við aðgerðir til úrbóta með langtímasjónarmið að leiðarljósi. Ein aðgerðanna snýr að nauðsyn þess að efla starfsþróun kennara á sviði leiðsagnarmats sem felur í sér ígrundun og sjálfsmat nemenda og leiðsögn er opnar þeim ýmsar leiðir til að velta fyrir sér eigin námi. Leiðsagnarhlutverk námsmats er að hjálpa hverjum og einum til að ná árangri á sínum forsendum. Rannsóknir benda til að þróun leiðsagnarmats hafi jafnvel meiri áhrif á þá sem standa höllum fæti í námi en aðra. Þótt samræmdu prófin útiloki vissulega ekki þróun leiðsagnarmats í skólum má gera því skóna að athyglin á þau dragi úr áherslu á eflingu þess.

Í þeirri vinnu sem er fram undan er mikilvægt að vinna í anda hugmyndafræði lærdóms-samfélagsins (e. professional learning community) þar sem margir koma að málum. Byggja þarf upp traust og samstarfs¬hugsun meðal skóla og menntamálayfirvalda. Lykilhugtök í þeirri nálgun eru dreifð forysta, styðjandi samvinna, traust og öflug starfsþróun kennara og skólastjórnenda. Áherslur margra landa, sem hafa náð hvað lengst í skólamálum, eru meðal annars á samstarf um lausnir á forsendum hvers skóla þar sem horft er til þróunar starfshátta. Breytingar á skólastarfi standa alltaf og falla með kennurum og skólastjórnendum. Að efla samábyrgð skóla, sveitarfélaga, kennarasamtaka, háskóla og menntamálayfirvalda skiptir því sköpum í allri skólaþróun og þar með talið fyrir bættan náms¬árangur og líðan nem¬enda.

Anna Magnea Hreinsdóttir

sviðsstjóri í Borgarbyggð

Þorsteinn Hjartarson

fræðslustjóri í Árborg
Viðfangsefni: Leiðsagnarmat, Samræmd könnunarpróf