Kennum kennurum kynja- og jafnréttisfræði

22.05.2017 | Raddir

Kennum kennurum kynja- og jafnréttisfræði

Á nýafstöðnu málþingi kynjafræðinemenda og kennara í Borgarholtsskóla voru nemendur í pallborðsumræðum einhuga um að kynjafræði ætti að vera skyldufag í framhaldsskóla – og jafnvel grunnskóla. Ætli það sé ekki einsdæmi að nemendur geri sér far um að ,,agítera“ fyrir því að tiltekið fag verði gert að skyldu? Það eru sannarlega hundruð nemenda í kynjafræði sem hafa hvatt til þess bæði í ræðu og riti, auk annarra sem hafa lagt málefninu lið svo sem háskólakennara, Kvenréttindafélagsins, ýmissa femínistafélaga og fleiri. Hluti af rökstuðningnum fyrir því að kynjafræði ætti að vera skyldufag snýst um að það muni ekki nást jafnrétti í samfélaginu án þess að menntakerfið í heild sinni verði virkur aðili í því starfi.

Skólakerfið er hluti af vandanum, því þar er staðalmyndum og ranghugmyndum oft viðhaldið með ómeðvitaðri hlutdrægni, en þó líka hluti af lausninni. Því er nauðsynlegt að vekja hvern og einn kennara til vitundar um jafnréttismál – á ígrundaðan og vandaðan hátt þar sem kynjakerfið, mismunun, kvenfyrirlitning, fórnarkostnaður karlmennskunnar, kynskiptur vinnumarkaður, hefðbundin kynhlutverk og annað sem varðar jafnréttismál – er sett í samhengi. Allir kennarar þurfa að öðlast skilning á því hvernig ójafnréttið birtist í samfélaginu og í samskiptum – og verða þannig næmir á hvernig mismunun er viðhaldið og fá þjálfun og þekkingu til þess að bregðast við og fræða.

Jafnréttisfræðsla í skólakerfinu þarf að vera bein og óbein. Nemendur þurfa að fá beina fræðslu, þar sem farið er í birtingarmyndir ójafnréttis og þær settar í samhengi. Auk þess þarf hver og einn kennari að vera meðvitaður um að hann sé ekki að viðhalda staðalmyndum og ranghugmyndum í samskiptum sínum, námsgögnum eða aðgerðaleysi. Jafnrétti þarf að vera kerfisbundið og altækt í skólum.

Skólar þurfa að hafa jafnrétti að leiðarljósi í öllum sínum ákvörðunum og starfi; félagslífi nemenda, stjórnun skólastofnana, viðmóti, andrúmslofti og skólamenningu. Kennarar eiga að vera leiðandi afl í jafnréttisstarfi í skólum og til þess að svo verði þurfa allir kennarar að fá heildstæða jafnréttisfræðslu.

Jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands hefur skorað á stjórnendur í öllum menntastofnunum á öllum skólastigum að sinna jafnréttisfræðslu. Því hefur verið vel tekið og margt gott starf fer fram víða í skólunum. En forsenda fyrir því að jafnrétti verði rauður þráður í skólastarfi á Íslandi er að kennarar hafi forsendur til að taka virkan þátt í því starfi. Kynja- og jafnréttisfræðum alla kennara á öllum skólastigum og setjum þannig kraft í að samfélagið okkar verði byggt á jafnrétti – til heilla fyrir alla.

Greinin birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2017.

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir

framhaldsskólakennari og fulltrúi í jafnréttisnefnd KÍ
Viðfangsefni: Jafnrétti, Kynjafræði, Jafnréttisfræðsla