Íslenska er stórmál

19.11.2018 | Raddir

Íslenska er stórmál

Íslenska er stórmál. Engin spurning, enda er þessi yfirskrift fullyrðing.

Sjálfsagt er misjafnt hvað fólki finnst og hefur fundist þar um á ýmsum tímum. Enn misjafnara eftir því hvað átt er við með mál. Hvort það er mál í merkingunni tunga, tungumál eða mál í merkingunni atriði eða viðfangsefni.

Sjálfur er ég á því að þetta sé reyndar satt á allan máta. Íslenska er mál málanna. Hjá okkur.

Sennilega hefur íslensk tunga aldrei verið álitin meira stórmál, eða öllu heldur ætlað stærra hlutverk en fram kemur í kenningum dr. Helga Pjeturss. Samkvæmt þeim er hún eina málið uppi á stjörnunum þangað sem við deyjum öll.
Ef þetta er rétt athugað hjá dr. Helga má ætla að hans íslenska sé þar töluð. Það væru út af fyrir sig nokkur tíðindi því annar höfundur sem gert hefur íslensku að stórmáli, þó með öðru móti sé, það er að segja Halldór Laxness, kemst svo að orði í Grikklandsári sínu að Helgi Pjeturss hafi, á bókum sínum, eins og hann segir „einna fegursta íslensku sem rituð hefur verið á okkar tíð.“

Svo heldur skáldið áfram: „Það er mikið ljósbað að lesa þennan stíl sem við samanburð gerir íslenskan nútímahöfund að hálfgerðu ómálgabarni.“

Loks klykkir Halldór þannig út, áfram af nokkurri hógværð sem vonandi er uppgerð: „Ég veit vel að ég hef ekki túngu úr höfði Helga Pjeturss; reyni það ekki einusinni.“

Þetta er reyndar dálítið hættulegt viðhorf: Ef Halldór Laxness verður eins og ómálgabarn í glímu sinni við tunguna, hvað þá með okkur hin?

Annars er þessi tiltekna stórmálshugmynd heillandi ef maður lætur hana ekki stíga sér til höfuðs á jörðu niðri. Ég var svo heppinn að kynnast manni sem hafði beinan aðgang upp þangað gegnum miðilsfundi og hermdi mér mörg tíðindi þaðan. Um það orti ég eitt sinn prósaljóð sem ég ætla að leyfa mér að fara með þó það heiti ensku nafni: Imagine

Granni minn einn sem ég hitti oft úti í búð hafði stærri loftnet en aðrir og kunni margt að segja frá því mikla ríki á öðrum hnöttum þar sem íslenskan ein er opinber tunga. Fyrirmælin til okkar þaðan væru skýr: Hætta fiskveiðum, virkja tungumálið. Ég gat glatt vin minn með því að segja honum að þetta hefði ég löngu gert fyrir mína parta. Að öðru leyti virtist starfið þarna uppi vera eins og eitt risavaxið námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Það gengur bara vel sagði granni minn. Maó til dæmis orðinn alveg ótrúlega sleipur. Aðeins einn maður léti sér ekki segjast og héngi á móðurmáli sínu eins og hundur á roði: John Lennon. Seigur alltaf að berjast gegn kúguninni, hugsaði ég en sagði ekki neitt.
Nú er það svo að Himnaríki er auðvitað ekkert annað en stjórnsýslunafnið á þessu mikla ríki framliðinna á stjörnunum, þaðan sem hið mikla samband mun hefjast. Og því verður það að segjast að trúverðugleiki kenningarinnar hefur illu heilli að minnsta kosti ekki aukist upp á síðkastið, nú þegar svo virðist komið að jafnvel guð almáttugur, yfirbjóðandinn engla og þjóða, kunni ekki lengur neitt í íslensku. Þegar ómálgabörn nútímans ljúka upp munni til að ávarpa almættið finnst þeim yfirleitt öruggast að segja: Ómægodd. Kannski má auðveldlega skilja þann málótta sem virðist hafa náð tökum á Lennon. Kannski eru áhrif Lennons, áhrif enskunnar, þar uppi þrátt fyrir allt orðin óþarflega mikil, einmitt af þessum sökum, kynnu einhverjir að segja. Áhrif enskunnar svo á jörðu sem á himni.

Við erum dálítið gjörn á það nú um stundir að kenna ensku og enskumælendum um allar hremmingar íslenskrar tungu. Við tölum um ásókn hennar og yfirgang. Í henni felist ógn. Enska er vissulega alstaðar og alltumlykjandi eins og hér hefur komið skýrt fram og margt að varast, meðal annars er hún kominn í staðinn fyrir öll önnur erlend mál, jafnvel færeysku og norsku, en hún er ekki persóna með vitund og vilja, ekki skrímsli sem sjálft hefur ákveðið að ásækja okkur, fíll sem af eindregnum brotavilja og skemmdarfýsn ætlar sér að brjóta allt og bramla í okkar viðkvæmu postulínsbúð.
Nei, ógnin stafar ekki þaðan, heldur frá sjálfum okkur, sem betur fer held ég. Þó oft sé sagt að sjálfskaparvítin sé verst að varast, þá leggst hér þó sú líkn með þraut að það er þá hægt að gera eitthvað í málunum.

Það var ekki bandarísk málnefnd eða Alþjóðatúristasambandið sem gaf fyrirmæli um að Laugavegurinn endilangur skuli hafður á ensku. Við ákváðum það sjálf.

Það var ekki Alþjóða flugmálastofnunin sem krafðist þess að enska skyldi hafa forgang umfram íslensku á skiltum í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Við ákváðum það sjálf.

Það var ekki Alheimssamband flugfélaga sem fyrirskipaði Flugleiðum að taka upp nafnið Icelandair og Flugfélagi Íslands að kalla sig Air Iceland Connect, við ákváðum það sjálf.

Það var ekki VB, Verslunarmannafélag Bretlands sem gaf fyrirmæli um að afgreiðslu- og þjónustufólk hérlendis þurfi alls ekki að kunna íslensku svo fremi sem það kann ensku. Við ákváðum það sjálf.

Hið sama gildir um ótal margt annað sem við höfum gert og gerum tungu og menningu til óþurftar án þess reyndar enska sé þar sökudólgur:

Engin utanaðkomandi ógn skipaði okkur að skera skólabókasöfnin niður við trog, við ákváðum sjálf að það væri mjög hagkvæmt.
Þannig mætti lengi telja. Ýmsum kann að þykja slík romsa dapurleg en gleymum ekki því jákvæða sem við blasir: Fyrst við ákváðum þetta sjálf þá getum við líka breytt því. Það er ekki of seint. Málið er í okkar eigin höndum, gleðjumst yfir því.
Við eigum að nota málið og nýta við öll tækifæri, alltaf og alstaðar.

Með réttri blöndu af fastheldni og framsækni, er íslensk tunga hæf í allt og til í allt ef við viljum það sjálf. Og okkur ber að vilja það. Sem hornsteinn íslenskrar menningar er hún ekki aðeins mál málanna heldur stórmál stórmálanna.

Þórarinn Eldjárn: Erindi flutt á Skólamálaþingi KÍ 2018, sem fram fór í Veröld – húsi Vigdísar 4. október.
Greinin var birt í Skólavörðunni, 2. tbl. 2018.