Hvað er Hagþenkir?

05.12.2016 | Raddir

Hvað er Hagþenkir?

Kennarar á öllum skólastigum vita að við þurfum gott námsefni sem er í samræmi við kröfur hverrar kennslugreinar á hverjum tíma. Kennarar vita líka að við þurfum vönduð fræðirit af margvíslegu tagi. Við þurfum vandaðar grunnrannsóknir á öllum sviðum sem skapa nýja þekkingu og miðla henni til annarra sérfræðinga, en við þurfum líka aðgengilegri fræðirit þar sem sérfræðiþekking er tekin saman og henni miðlað til stærri hóps. Síðast en ekki síst þurfum við fræðirit fyrir börn um allt milli himins og jarðar.

Þetta efni fellur ekki af himnum ofan. Námsefni og fræðirit, hvort sem er í hefðbundnu bókarformi, á stafrænu formi eða í öðrum miðlum verður ekki til nema einhverjir taki að sér að semja það.

Engin námsgögn án höfunda
Kennslugögn og fræðirit eru sköpunarverk höfunda sem hver í sínu lagi eða í hópum virkja sérþekkingu sína og sköpunarkraft til að skrifa þetta efni og matreiða það með öðrum hætti. Höfundar slíkra rita eru kannski ekki jafn áberandi á almannavettvangi og þeir rithöfundar sem skrifa ljóð og skáldsögur – hvað þá glæpasögur – en þeir eru ekki síður mikilvægir, bæði fyrir menntakerfið og fyrir íslenska bókmenningu.

Höfundar fræðirita og kennslugagna hafa verið til á Íslandi svo lengi sem menn hafa skrifað hér bækur. Snorri Sturluson skrifaði bæði fræðirit og kennslubækur og fyrsti málfræðingurinn skrifaði sína ritgerð um það leyti sem menn voru að byrja að draga til stafs með latínuletri á íslensku. Þrátt fyrir þetta hefur ekki alltaf farið mikið fyrir höfundum fræðirita og kennslugagna og lengst af voru þeir sjaldséð sjón í félagsskap rithöfunda. Þetta breyttist í byrjun júlí árið 1983, þegar 35 íslenskir rithöfundar komu saman á fundi í Reykjavík. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa skrifað fræðirit eða kennslubækur og höfðu ­uppgötvað að þeir áttu sameiginlegra hagsmuna að gæta. Tilgangur fundarins var að stofna félag fræðirita- og kennslugagnahöfunda. Nú, rúmum þrjátíu árum síðar er félagið, sem nefnist Hagþenkir, ennþá starfandi og félagsmennirnir eru orðnir rúmlega 600.

Nafn félagsins er sótt í samnefnt rit Jóns Ólafssonar frá Grunnavík um „almennt stand á Íslandi“, lærdóm og bókiðnir“. Ritið skrifaði Jón árið 1737, en það var ekki gefið út fyrr en árið 1996.

Samningar um ljósritun og aðra afritun
Tilefni þess að félagið var stofnað var að skömmu áður höfðu samtök rétthafa á sviði ritlistar, tónlistar og myndlistar gert samninga við ríkið, sem leyfðu ljósritun á útgefnu efni í skólum gegn sanngjarnri greiðslu. Þar sem fæstir höfundar námsefnis voru félagar í Rithöfundasambandinu þótti þeim ráð að stofna sitt eigið félag til að gæta hagsmuna sinn. Félagið fékk skömmu síðar aðild að Fjölís, samtökum rétthafa sem gæta hagsmuna þeirra sem snúast um ljósritun og aðra fjölritun, og þess varð ekki langt að bíða að félagið yrði stærsti einstaki hagsmunaaðilinn innan samtakanna, enda eru námsgögn og fræðirit af ýmsu tagi stærstur hluti þess höfundarréttarvarða efnis sem fjölritað er í skólum og öðrum stofnunum.

Ljósritunarsamningarnir sem voru fyrst gerðir á níunda áratugnum hafa breyst og þeim hefur fjölgað. Fjölís er nú með samninga við ríkið um ljósritun í grunn-, framhalds- og háskólum, við tónlistarskóla, sveitarfélög og fleiri minni aðila. Einnig er í gildi samningur við háskólana um skönnun á útgefnu efni en enginn samningur er til um skönnun á öðrum skólastigum, þótt samtökin hafi árum saman reynt að semja við ríkið til að gera slíka afritun löglega.

Hvert fara peningarnir?
Eitt meginhlutverk Hagþenkis er að sýsla með þessa fjármuni og sjá til þess að þeir rati til höfunda, bæði þeirra sem hafa samið það námsefni og þau fræðirit sem fjölfölduð eru og einnig til þeirra sem semja ný fræðirit og kennslugögn. Á hverju ári auglýsir félagið eftir umsóknum um styrki og þóknanir. Tvisvar á ári eru auglýstir ferðastyrkir fyrir félaga í Hagþenki og einu sinni á ári eru auglýstir starfsstyrkir til ritstarfa og þóknanir fyrir ljósritun og aðra löglega fjölritun. Aðalfundur félagsins hverju sinni ákveður hvernig þessum fjármunum skuli ráðstafað. Á þessu ári hafa fjórar milljónir verið veittar í ferðastyrki, fimm milljónir hafa runnið til umsækjanda í formi þóknana fyrir ljósritun og síðast en ekki síst hafa 13 milljónir verið veittar í starfsstyrki til ritstarfa í 37 fjölbreyttum verkefnum. Verkefnin eru fjölbreytt, félagið styrkir gerð námsefnis á öllum skólastigum, fræðirita fyrir almenning og sérhæfðari rita sem byggja á grunnrannsóknum. Allir styrkirnir renna til höfundanna sjálfra til að auðvelda þeim að sinna ritstörfum.

Allir geta sótt um starfsstyrki til ritstarfa. Það er ekki skilyrði að hafa skrifað námsefni eða fræðirit áður, mörg dæmi eru um það að námsefnishöfundar sem eru að stíga sín fyrstu skref hafi notið stuðnings félagsins. Það er ekki skilyrði að vera félagi í Hagþenki til að hljóta styrki til ritstarfa eða þóknanir vegna ljósritunar í skólum og öðrum stofnunum.

Allir geta sótt um starfsstyrki til ritstarfa. Það er ekki skilyrði að hafa skrifað námsefni eða fræðirit áður, mörg dæmi eru um það að námsefnishöfundar sem eru að stíga sín fyrstu skref hafi notið stuðnings félagsins.

Norrænt samstarf
Hagþenkir var stofnaður að fyrirmynd norskra samtaka, Norsk faglitterær forfatterforening, og félagið hefur frá upphafi unnið náið með norrænum systurfélögum. Fulltrúar félaganna hittast árlega á samráðsfundum og annað hvort ár hittast fulltrúar allra rithöfundasamtaka á Norðurlöndum (bæði höfundar skáldrita, fræðirita og kennslubóka) ásamt þýðendum á fundum Norræna rithöfunda og þýðendaráðsins. Þetta samstarf er félaginu mikilvægt. Norræn höfundasamtök eru leiðandi í hagsmunabaráttu höfunda á alþjóðavettvangi og við höfum notið góðs af því. Þegar kemur að samningamálum og samskiptum við bæði útgefendur og ríkisvaldið eru þau dýrmæt fyrirmynd. Á undanförnum árum hafa fundir félaganna mikið snúist um þann nýja veruleika sem blasir við höfundum í stafrænum heimi og viðbrögð við honum.

Starf félagsins
Félagið reynir eftir fremsta megni að halda fræðiritum og kennslugögnum á lofti. Á hverju ári er Viðurkenning Hagþenkis veitt fyrir fræðirit eða kennslugögn. Viðurkenningin felst í peningaverðlaunum sem nú eru ein milljón króna. Áður en handhafi viðurkenningarinnar er útnefndur eru tíu verk tilnefnd til viðurkenningarinnar, valin af sérstöku viðurkenningarráði sem í sitja fimm félagsmenn, sérfræðingar á ólíkum fræðasviðum.

Hagþenkir rekur skrifstofu sem er til húsa í Reykjavíkurakademíunni, ­Þórunnartúni 2. Framkvæmdastýra félagsins, Friðbjörg Ingimarsdóttir, sér um daglegan rekstur þess. Á skrifstofunni geta félagsmenn sótt sér ráðgjöf um samninga og önnur hagsmunamál, framkvæmdastýra skipuleggur einnig viðburði á vegum félagsins og stýrir starfi Viðurkenningarráðs félagsins.

Margir kennarar semja námsefni af ýmsu tagi, þótt þeir hugi ekki alltaf að hagsmunum sínum sem rithöfunda.

Átt þú heima í Hagþenki?
Hagþenkir er löggilt höfundarréttarfélag og hefur sem slíkt rétt til að semja um kjör námsefnishöfunda við þá stofnun sem nú heitir Menntamálastofnun og er arftaki Námsgagnastofnunar. Lengi vel var í gildi samningur milli félagsins og stofnunarinnar um greiðslur til höfunda, en sá samningur er löngu úreltur og fallinn úr gildi. Félagið hefur lengi reynt að fá stofnunina að samningaborðinu að nýju og nú á haustdögum hefur sú viðleitni borið þann árangur að stofnaður hefur verið starfshópur sem hefur það hlutverk að skoða samskipti stofnunarinnar við höfunda. Vonir stjórnar félagsins standa til þess að afraksturinn verði nýr samningur eða samningar og við höfum leitað til norrænna systurfélaga um fyrirmyndir að slíkum samningum.

Margir kennarar semja námsefni af ýmsu tagi, þótt þeir hugi ekki alltaf að hagsmunum sínum sem rithöfunda. Félagið er opið öllum þeim sem eiga umtalsverðan höfundarrétt að verja, hvort sem er vegna námsefnis, fræðilegra skrifa eða hvors tveggja. Á hagthenkir.is má finna upplýsingar um starfsemi félagsins og þar er líka að finna öll eyðublöð til að sækja um styrki og þóknanir. Síðast en ekki síst er þar að finna inntökubeiðni í félagið. Það getur margborgað sig fyrir höfunda námsefnis að ganga til liðs við Hagþenki, ekki bara vegna sinna eigin hagsmuna heldur einnig vegna þess að því fleiri sem við erum og því þéttar sem við stöndum saman, þeim mun meiri líkur eru á að við náum árangri.

Jón Yngvi Jóhannsson

lektor við Menntavísindasvið HÍ og formaður Hagþenkis
Viðfangsefni: Kennarar, Höfundarréttur, Námsefni, Hagþenkir