Galdur fólginn í góðri kennslustund

02.10.2017 | Raddir

Galdur fólginn í góðri kennslustund

Mig langar að gera tölvumál í skólum að umfjöllunarefni. Nú hefjast og enda annir í skólum gjarnan á því að fenginn er einhver kennslufræðigúrú í heimsókn sem boðar fögnuð mikinn meðal kennara, af fullvissu þess sem veit, um nytsemina af notkun forrita af ýmsu tagi og appa í kennslu. Kennarar eru gjarnan beðnir um að loka augunum og ímynda sér framtíðina fulla af fljúgandi bílum og stórborgum á hafsbotni, skólar séu orðnir rosa góðir í því að undirbúa nemendur undir iðnbyltinguna en gallinn sá að hún var fyrir 200 árum o.s.frv.

Sjálfur er ég einn af þeim sem hef þráast við. Að sönnu hef ég ekkert á móti tækninni. Hún hefur smeygt sér inn á mörg svið kennslunnar hjá mér og sú þróun heldur eflaust áfram og ég berst með straumnum þótt ég standi ekki á öldufaldinum miðjum. Þannig hef ég verið að læra að búa til QR kóða af kollega mínum sem ég á eflaust eftir að skora mörg rokkstig fyrir hjá nemendum mínum þegar ég sveifla fram í kennslustund, glaðhlakkalegur eins og Sigmundur Davíð í Bylgjuviðtali í dag, og jafn viss um ávinninginn og hann af framboði sínu fyrir lýð og land.

Af hverju hef ég þá verið að þráast við? Ég hef stundum spurt mig að því án þess að geta beinlínis svarað því en svo rann það allt í einu upp fyrir mér. Svarið felst í mínum huga í einu orði. Stjórnleysi. Allir kennarar hafa lent í því að missa bekk og vita hvað það er óþægilegt. Snjallsímavæðingin undanfarin ár hefur gert það að verkum að nemendur eru með fullkomnar tölvur og netsamband inni í kennslustund. Samskiptamiðlarnir kalla. Vandaðar rannsóknir sýna að jafnvel þótt að kennarinn sé að reyna að fylgja kalli tímans með því að nota kennslufræðiforrit þá séu nemendur með mörg önnur forrit í gangi á meðan sem taki upp undir 70% tímans að sinna.

Lausnin felst í því að líta á þessa tækni sem hvert annað verkfæri sem stundum á við en oft ekki. Kennsla snýst að stórum hluta um mannleg samskipti. Það er einhver galdur fólginn í góðri kennslustund þar sem kennari miðlar til nema, útskýrir, spjallar, hlustar. Nemendur spegla sig í viðhorfum samnema, taka eftir hvar kennarinn hikar, hvar hann fer á flug í efninu o.s.frv. Það má líkja þessu við leiksýningu. Það er eitt að fara í leikhús og annað að sjá leiksýninguna eftir að hún hefur verið tekin upp og sýnd í sjónvarpinu um jólin. Seiðurinn rofnar. Verkefnavinna í tölvum getur bætt mörgu við kennslu en má ekki yfirtaka hana.

Skólastarf snýst um samskipti og það snýst um mennsku. Það þarf að vera skýr rammi um notkunina á tölvum í skólastarfi en upp á það vantar mjög víða. Það þarf líka að vera skýrt hvaða skilyrði forrit þurfa að uppfylla til þess að geta talist boðleg í kennslu. Þótt kallað sé eftir því að kennarar nýti þessa tækni þá vantar oft fjármagn til þess að kaupa þau forrit sem best reynast. Allir vilja fá nokkuð fyrir snúð sinn. Þannig eru dæmi þess að ekki sé greitt fyrir forrit sem notuð eru heldur notaðar útgáfur sem fjármagnaðar eru með auglýsingum. Kennari nokkur sagði mér frá því að í miðri kennslustund hefðu birst rússneskar vændiskonur á skjánum hjá nemum sem sitt vildu bjóða og sig. Er í lagi að nota forrit þar sem auglýsingar dúkka upp frekar en í kennslubókum? Hvað með persónuupplýsingar sem mörg forrit þ.m.t. FB krefjast af notendum? Er í lagi að biðja nemendur um að nota slík forrit í skólastarfi? Kappið hefur að mínum dómi borið forsjána ofurliði í þessum efnum. Samtök kennara og stjórnvöld mættu taka þessi mál fastari tökum og gefa skýrari línur.

Hrafnkell Tumi Kolbeinsson

framhaldsskólakennari
Viðfangsefni: Framhaldsskólinn, Snjallsímar, Kennsluforrit