Gæðastjórnunarkerfi fyrir menntastofnanir

19.02.2019 | Raddir

Gæðastjórnunarkerfi fyrir menntastofnanir

Staðlar eru í grunninn viðmið um bestu framkvæmd (e. best practices) verkefna sem sérfræðingar á tilteknu sviði hafa sammælast um. Staðlar auðvelda stjórnendum skipulagsheilda að varða leiðina að bestu stjórnarháttum, viðmiðum og aðferðum þeirra bestu á viðkomandi sviði.

ISO 21001:2018 er alþjóðlegur staðall sem gefinn var út fyrr á árinu. Heiti hans á ensku er „Educational organizations – Management systems for educational organizations – Requirements with guidance for use.“ Hann er skrifaður af tækninefnd innan ISO sem skipuð er fulltrúum 41 þjóðar undir forystu Kóreu. Staðallinn er byggður upp eins og aðrir gæðastjórnunarstaðlar og lýtur að altækri gæðastjórnun í menntastofnunum. Í honum er lögð sérstök áhersla á nemendur og aðra haghafa, þátttöku hlutaðeigandi, ferla, úrbætur, ákvarðanir byggðar á gögnum, samfélagslega ábyrgð, siðferðileg viðmið, upplýsingaöryggi og margt fleira.

ISO 21001:2018 skilgreinir hlutverk stjórnenda, auðveldar þeim að viðhalda áherslu á þörfum nemenda og greina áhættu og möguleika í skólastarfinu. Einnig gefur hann leiðbeiningar um það hvernig stefna er þróuð og mótuð og um áætlanagerð. Í honum eru sömuleiðis leiðbeiningar um samskipti við birgja og þjónustuveitendur utan stofnunar. Þá gera gæðastjórnunarkerfi eins og ISO 21001:2018 ráð fyrir reglubundnu árangursmati og endurskoðun á ferlum í þeim tilgangi að leita stöðugt tækifæra til úrbóta. Staðallinn hefur að geyma viðauka sem varða sérstaklega menntastofnanir fyrir allra yngstu nemendurna, skilgreiningu haghafa og samskipti við þá, skilgreiningu á ávinningi af upptöku staðalsins, skilgreiningar á ferlum, mælingum og verkfærum sem notuð eru til mats og mælinga við stjórn menntastofnana og upplýsingar um ýmsa þætti er varða heilsu og öryggi nemenda, kennara og annars starfsfólks.

Í staðlinum er lögð sérstök áhersla á nemendur og aðra haghafa, þátttöku hlutaðeigandi, ferla, úrbætur, ákvarðanir byggðar á gögnum, samfélagslega ábyrgð, siðferðileg viðmið, upplýsingaöryggi og margt fleira.

Staðallinn er því ómetanlegur leiðarvísir um viðmið þeirra bestu varðandi upptöku gæðastjórnunarkerfis innan menntastofnunarinnar og hagnýtar leiðbeiningar um fjölmarga stjórnþætti menntastofnana. Engin krafa er gerð um vottun staðalsins, heldur er hann eingöngu hugsaður sem gagnlegt viðmið um stjórnhætti þeirra bestu. Með góðri ráðgjöf um innleiðingu er upptaka hans því með öllu á ábyrgð skipulagsheildanna sjálfra. Gæðastjórnun eins og sú sem hér um ræðir á við um allar stærðir og gerðir skipulagsheilda. Stærð skiptir því ekki máli þegar kemur að því að taka upp gæðakerfi, endurskoða stjórn- og starfshætti og sækjast eftir að starfa eins og þeir sem bestir eru.

Staðallinn gagnast þeim sem vilja koma á altækri gæða- og árangursstjórnun innan menntastofnunar. Innleiðing slíks staðals krefst ráðgjafar og beinnar aðkomu starfsmanna og haghafa. Kostnaður við innleiðingu gæðakerfa skilar sér margfalt til baka, bæði hvað varðar rekstrarkostnað, aukið hagræði og skipulag þar sem komið er í veg fyrir mistök og nýting á starfsfólki og öðrum aðföngum batnar. Ávinningur af upptöku slíks kerfis er því verulegur, bæði á efnahagslegu sviði og öðrum.

Greinin birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. 2018. Lesið blaðið hér.

Helga Sigrún Harðardóttir

framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands