Eru allir á hlaupum? Er ekki bara allt í góðu?

12.12.2017 | Raddir

Eru allir á hlaupum? Er ekki bara allt í góðu?

Kennarastarfið er jafn annasamt og það er skemmtilegt. Því miður fer það stundum svo að við kennarar þyrlumst upp í dagsins önn, gleymum að gefa okkur tíma til að setjast niður með samstarfsmönnum og eiga við þá uppbyggilegar samræður um starfið og áskoranir í kennslustofunni. Það er einfaldlega mikið að gera! Við erum á hlaupum og höfum kannski takmarkaðan tíma til að sinna nýjum liðsmönnum í stéttinni. Mögulega rjúkum við framhjá þeim og spyrjum kannski: ,,Er ekki bara allt í góðu? Gengur ekki bara vel?“

Á skólaárinu 2016-2017 hóf öflugur hópur nýrra kennara störf við Menntaskólann á Akureyri. Umræddir kennarar komu úr ólíkum faggreinum og höfðu ólíkan bakgrunn. Eitt áttu þeir þó sameiginlegt að þeir voru að stíga sín fyrstu skref í kennslustofunni. Til að koma betur til móts við nýja liðsmenn var ákveðið að setja á fót „nýliðakaffi“ að finnskri fyrirmynd. Hugmyndina fékk greinarhöfundur að láni frá bænum Kokkola í vesturhluta Finnlands og útfærði svo hún hentaði okkur í MA. Einu sinni í mánuði að jafnaði hittast nýliðar með leiðsagnarkennara og skólasálfræðingi yfir kaffi og kruðerí. Ekki svo að skilja að markmiðið sé einungis að ræða skíðafæri og stjórnmál yfir kaffibolla, eins skemmtilegt og það kann að vera.

Hver samverustund hefst með innleggi leiðsagnarkennara þar sem farið er yfir áskoranir í starfi kennarans og hvernig hægt er að leysa úr þeim í sameiningu. Þetta geta verið agamál nemenda, námsmat, samstarf kennara og hinar ýmsu kennslufræðilegu áskoranir. Mestur hluti tímans fer í viðrun, nýju kennararnir spyrja og velta vöngum og saman leysir hópurinn úr ýmsum verkefnum sem rekur á fjörur hans í upphafi starfsferilsins. Leiðsagnarkennari og skólasálfræðingur sjá síðan um að fylgja málum eftir ef nauðsyn krefur. Það kann að koma á óvart en það heyrir til algjörrar undantekningar ef umræðan fer út fyrir það efni sem ákveðið var í byrjun. Mögulega er þar umgjörðin sem skiptir mestu máli.

Áhersla er lögð á þægilegt andrúmsloft, traust, gott bakkelsi og jákvæðni. Þar sem aðeins einn reyndur kennari er á fundinum (leiðsagnarkennari) skiptir máli að til staðar sé gagnrýninn vinur (e. critical friend) sem grípur inn í ef þurfa þykir og getur ígrundað með leiðsagnarkennara hvað gekk vel og hvað mætti betur fara eftir hverja stund. Í því felst aðhald en líka stuðningur.

Hvorki í lögum um framhaldsskóla né í kjarasamningum kennara er kveðið á um leiðsögn með nýliðum þrátt fyrir að rannsóknir, innlendar og erlendar, sýni með óyggjandi hætti að slíkrar formlegrar leiðsagnar sé þörf og hún skili sér í bættu skólastarfi. Ef rétt væri að málum staðið fengju allir kennarar skipulagða leiðsögn í eitt ár hið minnsta. Fyrsta starfsárið getur verið þrautaganga sem einkennist af langri vinnuviku, streitu, einangrun og jafnvel reynist nýjum kennurum erfitt að greina á milli vinnu og einkalífs. Mikill kennaraskortur er fyrirsjáanlegur á næstunni og því er mikilvægt að hlúa að þeim sem ganga til liðs við stéttina t.d. með nýliðakaffi.

Það er þó engin uppgjöf hjá nýjum framhaldsskólakennurum. Síður en svo. Þeir hafa mikla skuldbindingu við starfið og eru ekkert á því að yfirvega starfsvettvanginn. Þeim þykir nefnilega vænt um starfið. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart því þegar öllu er á botninn hvolft er kennarastarfið gefandi og skemmtilegt, ekki satt?

Leiðsögn er verkefni allra í skólasamfélaginu. Nýliðakaffi er tiltölulega einfalt í framkvæmd en skilar merkingarbærri samræðu um kennslufræði og skólamál almennt. Nýliðakaffi á ekki hvað síst erindi við okkur reynsluboltana. Við höfum heilmiklu að miðla en það sem meira er, við getum lært afar mikið af nýjum og öflugum samstarfsmönnum. Þetta er því gagnkvæm leið til leiðsagnar.

Kannski má draga þetta saman með slagorði bandarískrar kaffikeðju með örlitlum lagfæringum:

„Innblástur og næring mannsandans – ein manneskja, einn bolli og eitt skólasamfélag í einu“*

*"To inspire and nurture the human spirit–one person, one cup and one neighborhood at a time." Slagorð Starbucks.

Myndin tengist finnska verkefninu sem hægt er að kynna sér hér.

Greinin er byggð að hluta til á meistaraprófsrannsókn höfundar (Allir á hlaupum – upplifun nýliða í stétt framhaldsskólakennara, 2016, Háskólinn á Akureyri).

Hildur Hauksdóttir

enskukennari og verkefnastjóri við MA
Viðfangsefni: Karlkennarar, Leiðsögn, Nýliðakaffi