Draumastarfið mitt varð engu

16.05.2018 | Raddir

Draumastarfið mitt varð engu

Þann 3. apríl síðastliðinn var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Norðurlands í máli sem ég höfðaði gegn Akureyrarbæ. Þetta er tímamótadómur fyrir stéttina mína og á vonandi eftir að breyta miklu fyrir alla kennara. Málið snýst um að mér voru dæmdar bætur eftir að ég hlaut skaða við að kenna við óviðunandi aðstæður í íþróttahúsi Lundarskóla eða KA-húsinu árið 2011 með þeim afleiðingum að og hef ekki getað starfað sem íþróttakennari síðan og á við mikið raddvandamál og raddþreytu að stríða.

Ósk mín er að þessi dómur marki stefnu við gerð nýrra kjarasamninga kennara þar sem röddin verði viðurkennd sem atvinnutækið okkar og þess vegna metin eins og ber. Þessi dómur ætti einnig að stuðla að enn betri fræðslu um röddina og verndun hennar í námsefni allra kennara og kennaranema. Það skiptir miklu máli að allt fagfólk og ráðamenn taki höndum saman og nýti sér þessa niðurstöðu okkur öllum til hagsbóta þvi það eru ótal dæmi um að kennarar hafi hrökklast úr starfi vegna raddvandamála. Kennarar verða einnig að berjast fyrir bættum vinnuaðstæðum og hreinlega neita að vinna við aðstæður sem geta skaðað röddina. Þetta snýst um heilsu okkar allra.

Ég hef orðið vör við mikið þekkingarleysi hvað varðar raddvandamálið hjá mér, meðal annars hjá læknum og skólafólki. Þó ég geti haldið uppi samræðum í stuttan tíma er ég á engan hátt í ástandi til að kenna í íþróttasal eða skólastofu, til þess þarf kennari að vera með sterka og góða rödd sem getur miðlað fræðslu til nemenda og endst allan daginn. Inn á heimasíðu Kennarasambands Íslands er mjög gott fræðslumyndband sem heitir, raddvernd og ráð til að draga úr raddþreytu, sem ég hvet alla til að kynn sér.

Það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í.Ritstjórn Skólavörðunnar bendir áhugasömum á myndband þar sem dr. Valdís I. Jónsdóttir gefur góð ráð er varðar röddina.

Jóhanna Einarsdóttir

kennari í Lundarskóla á Akureyri
Viðfangsefni: Raddvernd