Draumalandið Kanada

13.11.2017 | Raddir

Draumalandið Kanada

Í vor 2017 fór ég í námsferð til Edmonton, Kanada. Ég kynntist góðu fólki í háskólanum University of Alberta, móðurmálskennurum í International and Heritage Languages Association (IHLA), en ekki síst frábærri fjölskyldu frá Akranesi, sem býr í Edmonton, þeim Bryndísi Þórarinsdóttur og Halldóri Geir Þorgeirssyni. Við Bryndís og Halldór spjölluðum mikið um skóla heima á Íslandi og heima í Kanada, en fjölskyldan hefur mikla reynslu af kanadísku skólakerfi eftir að hafa búið í tveimum fylkjum, Ontario og Alberta.

Börnin þeirra hafa samanlagt verið í tíu skólum, ekki meðtaldir leikskólar og háskóli. Þau geta ekki sagt að það hafi verið ´piece of cake´ en börnin hafa öll tekið nýjum breytingum vel, aldrei vælt eða kvartað. Bryndís og Halldór hafa lagt óendanlega vinnu í að undirbúa krakkana í hvert skipti þegar breytingar hafa verið í aðsigi. „Þannig fyrirbyggir maður að upp komi vandamál,“ segir Bryndís.

Af hverju Kanada?
Bryndís, Halldór og fjögur börn þeirra, þau Snær, Eik, Nói og Ilmur hafa búið í Kanada í 8 ár. Þau vildu bjóða börnunum uppá reynslu af því að búa í útlöndum, en sáu einnig viðskiptatækifæri þar.
Fyrir valinu varð Oakville í Ontario, sem er lítil borg nálægt Toronto. Eftir að hafa gert rannsóknarvinnu á netinu og farið út og tryggt húsnæði skoðuðu foreldrarnir skóla og völdu þá sem þeim fannst henta best fyrir börnin. Við leitina völdu þau skóla sem væru með ESL prógram (English as a Second Language) þar sem börnin töluðu mismikla ensku. Börnin fengu undirbúning fyrir ferðina, skoðuðu allt með foreldrum á netinu, sérstaklega nýtt hverfi og skóla. Svo byrjaði ævintýrið stóra.

Undirbúningur fyrir skólagöngu
Sumrinu, áður en skólinn byrjaði, var varið í að hjálpa börnum að aðlagast nýrri borg í nýju landi. Eftir voru fjölskylda og vinir á Akranesi og í Reykjavík en framundan var framtíðin. Frá fyrsta degi eignaðist fjölskyldan vini og nágrannar buðu uppá viðburði og buðu fjölskylduna velkomna með opnum örmum. Fjölskyldan hlakkaði til að kynnast nýju fólki á nýjum stað.

Fyrstu skrefin í skólanum
Börnin voru á aldrinum 2-11 ára þegar fjölskyldan flutti til Oakville. Nói, Eik og Snær fóru í 2., 4. og 7. bekk í skóla en Ilmur byrjaði í leikskóla. Tvö eldri börn fótuðu sig mjög vel í bekkjunum sínum. Eik blandaðist strax inn í bekkinn sinn og spjallaði strax við alla, hún naut sín, lærði enskuna hratt og eignaðist vini. Snær hlustaði fyrst og lærði á umhverfið. Ilmur fór í leikskóla sem var talsvert frábrugðinn því sem foreldrarnir þekktu frá Íslandi. Systkinin fengu auka enskukennslu og stuðning í skólanum sem ESL nemendur og með þeim var vel fylgst. Þau fengu einstaklingsaðstoð í skólanum, sátu nálægt kennaranum og fyrsta skólaárið fór í það að koma þeim inn í málið og að læra á skólakerfið. Fjölskyldan fann heimakennara og hann hjálpaði börnunum í tvö ár. Eftir eitt ár voru börnin útskrifuð úr ESL prógrammi.

En það var ekki aðeins enska sem börnin þurftu að læra. Þau þurftu að bæta við mismuninn í faggreinum þar sem kanadískir jafnaldrar þeirra voru talsvert á undan í námsefninu en jafnaldrar þeirra á Íslandi. Þetta átti einkum við í stærðfræði og faggreinum. Skólinn aðstoðaði börnin við að ná bæði enskunni og að ná jafnöldrum í öðrum greinum. Heimakennarinn spilaði við börnin og náði vel til þeirra, áður en hún fór að leggja fyrir verkefni.
Bryndís fann fyrir miklum muni á leikskólum á Íslandi og í Kanada, börnin fyrir vestan fengu til að mynda ekki snertingu frá fullorðnum sem á Íslandi er eðlilegur hluti af leikskóladeginum. En foreldrarnir dóu ekki ráðalausir, fundu leikskóla sem var rekinn af hlýjum evrópskum konum, og á mánuði var aðlögunin búin. Á þessum leikskóla var knúsað og haldið eins og í íslenskum leikskóla og Bryndís sat á hliðarlínunni og las, þangað til Ilmur sagði við mömmu sína „Mamma, hér eru engar aðrar mömmur!“

Erfiðleikar
Eik eignaðist margar vinkonur á fyrsta ári í 4. bekk, Nói í 2. bekk eignaðist nokkra góða vini, en Snær í 7. bekk var aðeins með einn vinn. Þessi vinur reyndist ekki góður því hann bannaði öðrum börnum að leika við þennan nýja „vin sinn“. Sá nemandi varð uppvís af því að leggja annan nemanda í einelti sem var strax tekið hart á, drengurinn var færður í annan skóla.

Það reyndist erfiðast að aðlagast nýjum skóla fyrir Nóa. Kanadamen fara gjarnan eftir reglum og ein af þeim reglum kvað að foreldrar megi ekki vera með börnum í skóla án þess að hafa farið í gegnum ýtarlega bakgrunnsskoðun, sem er sex vikna ferli. Nói náði ekki góðum tökum á enskunni fyrsta sumarið en skólinn fullvissaði foreldra að allt yrði í lagi. Samt skildi Nói lítið af því sem fram fór. Eftir fyrsta mánuð hafði karakter stráksins breyst, allt ljós fór úr honum, hann hefði þurft stuðning foreldra á sínu móðurmáli fyrstu dagana og vikurnar sem honum var meinað og hann lokaðist og hætti að deila upplifunum með foreldrum. Að endingu ákváðu foreldrarnir að strákurinn færi ekki aftur í skólann fyrr en að lausn yrði fundin. Fundur var haldinn með kennurum hans og skólastjóra og ákveðið hvernig framhaldið skyldi vera. Skólinn áttaði sig á að innflytjendabörn þurftu aðra nálgun sem endaði með að Bryndís var beðin um að setjast í skólaráð, ekki síst til að deila reynslu innflytjenda af því að aðlagast kanadísku skólakerfi. Bryndís nýtti einnig öll tækifæri sem hún hafði til að fara í skólann, vera sýnileg, læra á kerfið og kynnast hinum mömmunum.

Aftur flutt
Eftir rúm tvö ár í Oakville ákvað fjölskyldan að flytja inn á hinar víðáttumiklu sléttur, alla leið til Edmonton í Alberta. Í Edmonton reka þau fyrirtæki sem selur ferskan íslenskan fisk í vesturfylkjum Kanada. Þeim fannst frábært að fá þessa tengingu við Ísland en ákvörðunin var líka eigingjörn – fjölskylduna langaði að fá góðan fisk. Aftur reyndi mikið á börnin því skólar í Kanada eru á ábyrgð fylkisins og því eru áherslur þeirra mismunandi eftir fylkjum. Skólarnir fyrir vestan, í Alberta, gera enn meiri kröfur á börn en skólarnir í Ontario og því var ljóst að börnin væru aðeins á eftir jafnöldrum sínum þar, þrátt fyrir að hafa náð jafnöldrum sínum í Ontario. Foreldrar sáu til þess að börnin fengju nægilegan undirbúning og stuðning. Skólarnir buðu einnig upp á góðan stuðning fyrir systkinin. Stærðfræði, samfélagsfræði og vísindi þyngdust enn frekar með flutningi til Alberta svo börnin þurftu aftur aðstoð til að ná samnemendum sínum. Nemendur í Kanada eru talsvert á undan jafnöldrum sínum á Íslandi í námi sem aftur þýðir að þau útskrifast fyrr en á Íslandi, eða 18 ára.

Hver er munur á skólum á Íslandi og í Kanada?
Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar inn í kanadískan skóla er komið er hve mikill agi er um allan skólann, á göngum og í kennslustofum. „Fuglabjarg“ er ekki leyft en aganum er ekki haldið með ströngu viðmóti. Hegðun er partur af því að læra og því er góð og skipulögð hegðun kennd og innrætt. Góð umgengni og virðing fyrir skólanum, starfsfólki og öðrum nemendum er hluti af skóladeginum. Að setja stólana upp á borð, til að auðvelda aðgengi þeirra sem á eftir koma að skúra er sjálfsagt mál. Börnin eru þjálfuð í að ganga í röðum, en þannig getur heill skóli safnast á salnum, átta hundrað börn, á um 10 mínútum. Hver nemandi kemur labbandi inn með sínum bekk og sest á sinn stað án vandræða. Þetta finnst Bryndísi og Halldóri alltaf merkilegt, en áður fannst þeim skiljanlegt að ekki væri hægt að hafa slíka stjórn á börnum.

Þegar búið er í landinu og maður á krakka í skóla, þá tekur maður eftir hve mikil virðing er borin fyrir kennurum og kennslustarfinu. Kennarar hafa góð laun og eðlilegt er að börn og foreldrar noti eftirnafn kennarans ásamt herra og frú. Engin þolinmæði er fyrir slæmri hegðun foreldra gagnvart kennurum eða starfsfólki skólans og vita Halldór og Bryndís um dæmi þess að foreldrar hafi fengið á sig nálgunarbann vegna þessa. Í því tilfelli var móður meinað að koma nær skólum í Edmonton en sem nam bílastæðinu þar sem hún hafði haft í hótunum við starfsfólk skóla vegna deilna um í hvaða skóla barn hennar þurfti að fara. Skólinn hefur fastmótaða stefnu gagnvart óæskilegri hegðun nemenda, í einu tilfelli þar sem upp kom eineltisvandamál var gerandanum strax vikið úr skólanum og fluttur í annan skóla til að betur væri hægt að vinna með hans vanda. Hegðunarvandamál eins og eiturlyfjaneysla, einelti eða önnur ofbeldishegðun eru aldrei samþykkt og tekið á með festu. Börnin eru venjulegast færð yfir í annan skóla sömuleiðis til að hægt sé betur að vinna með vanda þeirra.

Í Kanada standa allir og syngja þjóðsönginn á morgnana. Honum er breytt reglulega, hann rappaður og jazzaður og allir þekkja hann fram og til baka. Það er mikið rætt um hver þín skylda er gagnvart Kanada, landinu þínu og hvað það þýðir að vera hluti af þjóðinni. Kanada er mikið innflytjendaland og merkilegt að sjá hve hratt innflytjendur aðlagast og verða virkir þátttakendur í þjóðfélaginu. Innflytjendur eru ekki vandamál, heldur eru þeir auðlind sem þjóðin þarf á að halda og því er þekking þeirra virkjuð. Nemendum er kennt að bera virðingu fyrir siðum og hefðum hver annars, óháð kyni, húðlit, eða öðru. Þeir eru lánir kynna sína siði og venjur fyrir samnemendum sínum og því hafa ófá skiptin farið í það hjá Bryndísi að útskýra íslenska jólasveininn fyrir kanadískum nemendum sem öfunda þessa íslensku krakka af öllum þessum fjölda jólasveina. Margar skemmtilegar sögur hafa spunnist út frá þessu, til að mynda kom ein mamma samnemanda Eikar að máli við Bryndísi og sagði henni að sonur hennar hefði kvartað yfir að skórinn hans væri alltaf tómur á morgnana.

Á morgnana er þeim börnum sem eiga afmæli óskað til hamingju í kallkerfi skólans og þeim boðið að koma á skrifstofuna til að fá litla gjöf. Þetta hefur verið venjan í öllum þeim skólum sem börnin hafa verið í, frá þeim minnsta til þess stærsta sem í eru um 1000 nemendur.

Skólastjórinn er mjög sjáanlegur í skólanum, hann tekur þátt í öllu og kemur mikið inn í bekki. Hann tekur út kennarana, fylgist með kennslu, hann ræður og rekur kennara, hann fer í afleysingar, skrifstofan er alltaf opin og nemendum velkomið að ganga inn á öllum tímum. Skólastjórinn hjálpar til þar sem þarf, hvort sem það er að hjálpa húsverðinum með snjómokstur eða sem forfallakennari þegar þarf. Bæði skólastjóri og aðstoðarskólastjóri standa flesta morgna fyrir utan skólann og bjóða börn og foreldra velkomin. Foreldrar fara oft í vettvangsferðir með nemendunum, og stundum fara eldri nemendur með yngri nemendum. Miklar áherslur eru á raungreinar, en einnig er stöðugt lesið og lærð enska, alveg upp í háskólastig. Börnum er kennt að tjá sig og gera sig skiljanleg, en einnig að hlusta á annað fólk og eiga samskiptum við aðra. Móðurmálið er ávallt metið og þjálfað. Sérstaklega er fylgst með enskunni hjá tvítyngdum börnum þar sem rannsóknir sýna að þau eru venjulega eftir á upp að 6. bekk með lestur og skilning. Þetta er vegna þess að þau lifa í tveimur málheimum. Ef skólanum finnst þau vera að dragast aftur úr, stendur ákveðið prógram til boða til að bæta úr því. Lesið er nokkrum sinnum á dag og skólarnir vel útbúnir. Próf eru hluti af skólagöngunni og nemendum kennt að þau sé ekki stressvaldur, heldur hluti af náminu.

Heimanám er reglulega fyrir öll börn; það getur verið lestur, verkefni, að klára skólavinnu, undirbúningur, eða skila tilteknu efni rafrænt „á klukkunni“, fyrir miðnæti á sama degi. Hugsunarhátturinn er þó þannig að börnin eru stöðugt að læra því það er ótrúlega gaman að læra. Það eru endalaus úrræði á netinu og það er ævintýraheimur þar. Börnin eru ábyrg fyrir heimanámi sínu og að þegar því er lokið tekur við frítími. Skólinn er ekki vinna sem þarf að klára sem fyrst, eins og að moka snjó. Hugsunin er sú að það sé ótrúlega gaman að læra og maður læri alla ævi, eins og að anda að sér.
Ef börn gera ekki heimavinnu, eru það ekki börn heldur foreldrar sem eru ábyrg fyrir því. Þetta gerðist einu sinni fyrir fjölskylduna eftir að hún flutti til Alberta, hún fékk gula spjaldið. Þar stendur að það sé á ábyrgð foreldranna að börnin læri heima. Ef fjölskyldan aðstoðar ekki gerir skólinn það og börnin eru látin klára í frímínútum eða hádegishléi.
Foreldrafundir eru merkilegir, skólinn fullur af börnum-sjálfboðaliðum, og foreldrarnir fá miða með skipulagi. Kennarinn kynnir námsefni á tíu mínútum, svo hringir bjalla og foreldrarnir, eins og nemendur á skóladeginum, ganga í gegnum skólann í næstu stofu, og upplifa skólann á sama máta og nemendurnir. Þessir fundir eru ekki einstaklingsfundir nema ef nauðsyn krefur. Allar upplýsingar til foreldra eru aðgengilegar á SchoolZone, allir eru með sinn aðgang, foreldrar, nemendur og kennarar. Börnin eru vön að vinna í tölvum alveg frá því í fyrsta bekk, og foreldrar nálgast flestar upplýsingar um framvindu og námsefni barnanna þar, svipað og Mentor.

Mjög snemma á skólagöngunni er farið að tala við börnin um framtíðarnám í fullri alvöru. Spurt er í hverju nemandi er góður, stærðfræði, vísindum, tungumálum, og nemendur átta sig á sínum sterku hliðum. Bæði bekkjarkennarar og námsráðgjafar, sem eru til staðar á hverju skólastigi, taka börnin í viðtöl og ræða við þau um framtíðaráætlanir. Þessi umræða heldur stöðugt áfram og byrjar mjög snemma, börnum bent á möguleika sem fylgja stökum greinum, og börnin aðstoðuð við að „finna sína hillu“. Halldóri og Bryndísi brá mikið þegar Snær kom heim einn daginn úr 7. bekk og sagði frá því að herinn hefði verið með starfskynningu í skólanum og meðal annars útskýrt fyrir krökkunum kosti hermennsku og hvernig herinn aðstoðaði hermenn í gegnum háskólanám.

Sjálfboðaliðastörf
Það er hluti af náminu að stunda sjálfboðavinnu með einhverjum hætti. Börnunum er einnig kennt hversu mikilvægt það er fyrir þjóðfélagið en ekki síður að þegnanir gefi tíma sinn til góðra verka. Gerð er til að mynda krafa um að börnin skili um 40 klukkutíma sjálfboðavinnu til að geta útskrifast úr framhaldsskóla.

Það eru margir sjálfboðaliðar í skólastarfi. Það eru foreldrar, afar, ömmur eða fólk úr hverfinu sem hefur tíma, sem gefur tíma sinn til að passa umhverfið, eru með gæslu í frímínútum ásamt kennurum, eða stjórna bílaumferð í kringum skólann. Sjálfboðaliðar koma í bekki til að aðstoða, en rík áhersla er líka lögð á að börnin taki þátt í sjálfboðavinnu. Nemendur hjálpa á skrifstofu til að ritarar geti tekið matarhlé, hjálpa yngri nemendum með lestur, allt í sjálfboðavinnu. Skemmtilegt verkefni fyrir nemendur er að verða gangbrautaverðir, fá vesti og þjálfun og stjórna umferðinni í kringum skólann á morgnanna og í lok skóladagsins. Ilmur er gangbrautavörður og allir fara eftir skipunum hennar, jafnt börn sem foreldrar. Umferðin stöðvast þegar hún gefur merki. Börnin fá fleiri hlutverk í skólanum sínum, ekki aðeins að læra, heldur að hjálpa að byggja upp. Það er ætlast til af foreldrum að vera sjálfboðaliðar, fara með í ferðir og aðstoða. Eldri börn fylgja yngri börnum. Kennarar ásamt öðru starfsfólki skólans ganga í þau störf sem þarf að vinna svo sem gæslu á skólalóð, umferðargæslu og annað sem til fellur. Í lok skólaársins er svo öllum þakkað fyrir að hjálpa til í skólanum, klappað fyrir þeim og veitt viðurkenning. Þetta gildi er djúpt í samfélaginu, það er ætlast til þess að fólkið leggi sitt að mörkum og vinni sjálfboðavinnu. Nemendum er kennt að sjálfboðastarf er mikilvægur þáttur í því að taka þátt í samfélaginu og nauðsynlegur liður á starfsumsókn enda gera atvinnurekendur ráð fyrir að umsækjendur sinni sjálfboðastarfi. Ef sá hluti á ferilskrá er auður er það merki um að viðkomandi sé ekki hluti af heildinni.

Hvar eru börnin stödd í dag og framtíðarhorf
Nú í dag tala öll börnin fjögur lýtalausa ensku, reyndar „austur-kanadísku“, nema Ilmur sem talar “vestur-kanadísku”, og eru öll jafnvíg samnemendum. Þrjú elstu börnin náðu frábærum tökum á ensku og hafa haldið áfram í námi. Snær er á öðru ári í háskóla, og Eik og Nói eru í IB námi í fjölbraut. Systkinin völdu þungt IB nám til að geta haft fleiri námsmöguleika í framtíðinni. Ilmur átti erfiðast með enskunámið, en hún heldur áfram að fá stuðning meðan hún þarf á því að halda. Slíkt er algengt með tvítyngd börn fram að 12-13 ára aldri og skólinn gerir ráð fyrir að þau börn þurfi aðstoð. Nóa gengur vel í skóla og er með góða vini.

Börnin hafa heimsótt Ísland í nokkur skipti og geta borið saman löndin og menningu þeirra. Þau tala áfram íslensku heima og sín á milli, hafa aðgang að ótal bókum á íslensku og hlakka til að fá heimsóknir frá Íslandi, en sjá frekar framtíð sína í Kanada en á Íslandi. Þau lærðu að meta að verðleikum það sem nýtt land hefur að bjóða, þau gildi sem eru í skólum og samfélaginu. Heimili fjölskyldunnar er alíslenskt, með tilheyrandi skreytingum og mat, og móðurmálið er óaðskiljanlegur hluti af því.

EFTIRMÁLI HÖFUNDAR

Reynslan mín í Kanada litaðist ekki síst af samskiptum mínum við hjónin Bryndísi og Halldór og börnin þeirra. Tvítyngdi strákurinn minn sem fór í skóla í Edmonton í tvo og hálfan mánuð, gat leikið með yngstu dóttur hjónanna og fengið lánaðar bækur á íslensku hjá henni. Hér fékk hann dýrmætan tíma í móðurmáli sínu, íslensku, og gat hvílt hugann frá nýja tungumálinu, ensku, sem umkringdi hann í skólanum, heima og í fríi með enskumælandi vinum. Hann náði góðum tökum á ensku á þessum tíu vikum, en leið ekki vel í nýjum bekk og eignaðist enga vini þar. Hann og Ilmur gátu hins vegar leikið og spjallað strax og urðu góðir vinir, og ég trúi því að þessar stundir hafi lýst upp erfiðar, krefjandi vikur í enskumælandi umhverfi. Á meðan börnin léku, ræddum við Bryndís mikið um reynslu barnanna okkar í skólum og fannst síðan tilvalið að taka saman umræðuefni okkar og deila með kennurum á Íslandi, en í íslenskum skólum eru um tíu prósent barna af erlendum uppruna.


Renata Emilsson Peskova

doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ