Aukin réttindi fyrir börn

17.09.2018 | Raddir

Aukin réttindi fyrir börn

Ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga tóku gildi hér á landi í júlí á þessu ári en með þeim var leidd í íslenskan rétt persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins. Þótt margt í nýju lögunum sé óbreytt frá eldri löggjöf innihalda þau ýmsar nýjar reglur segir Hildur Þórarinsdóttir, lögfræðingur hjá Persónuvernd. „Þar má t.d. nefna aukin réttindi fyrir einstaklinga, þ.m.t. börn. Helstu breytingar sem tengjast skólastarfi tengjast m.a. svokallaðri ábyrgðarskyldu sem felur í sér að skólar eru ábyrgir fyrir því að farið sé að meginreglum um persónuvernd og þurfa auk þess að geta sýnt fram á það. Einnig þarf að liggja fyrir skrá yfir vinnslustarfsemi, auk þess sem skylt er að tilkynna Persónuvernd um öryggisbresti. Einnig ber öllum stjórnvöldum, þ.m.t. öllum skólum, að tilnefna persónuverndarfulltrúa en samnýting þeirra er reyndar möguleg. Þá eru nýmæli í lögunum varðandi sektarheimildir Persónuverndar.“ Undanfarið hafa Persónuvernd, Heimili og skóli og SAFT unnið að fræðsluefni fyrir grunnskóla landsins um persónuvernd í íslensku skólasamfélagi sem verður vel kynnt auk þess sem boðið verður upp á fræðslu um persónuvernd fyrir skólastjórnendur, kennara og foreldra í vetur.

Þarf að vanda til verka

Gríðarlega umfangsmikil söfnun upplýsinga á sér stað í skólum landsins að sögn Hildar. Því skiptir afar miklu máli að vandað sé til verka við slíkar skráningar, ekki síst í ljósi þess að um er að ræða upplýsingar sem fylgja barninu alla tíð. Áður en persónuupplýsingar um nemendur eru skráðar í rafrænt upplýsingakerfi, t.d. Mentor eða Innu, verður alltaf að gæta þess að heimild sé til að skrá upplýsingarnar samkvæmt persónuverndarlögum. „Oftast hvílir lagaskylda á viðkomandi skóla að skrá ýmsar upplýsingar í slík upplýsingakerfi, og svo lengi sem skráningin er innan þeirra marka og í samræmi við verklagsreglur, sem nauðsynlegt er að skólar setji sér, er hún heimil. Auk þess verður öll skráning að samrýmast grunnkröfum persónuverndarlaganna. Skólastjórnendur bera ábyrgð á því að vinnsla persónuupplýsinga um nemendur séu í samræmi við lög.“

Réttur á einkalífi

Réttur barna til friðhelgis einkalífs er tryggður í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og því mjög mikilvægt að foreldrar og aðrir sem annast börn séu meðvitaðir um réttindi barna til persónuverndar segir Hildur. „Miðlun persónuupplýsinga um börn í gegnum samfélagsmiðla telst vera vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt persónuverndarlögunum. Því er mikilvægt að afla samþykkis barna áður en rætt er um þau þar eða birtar af þeim myndir, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. Við höfum bent á að brýnt sé að hafa í huga að allt sem birt er á Netinu má finna síðar og getur haft áhrif á líf barns með ýmsum ófyrirséðum hætti. Börn eiga rétt á sínu einkalífi og um leið að geta ákveðið hvaða upplýsingum um sig þau vilja deila og með hverjum.“

Auknar kröfur til samþykkis

Nýju lögin kveða líka á um auknar kröfur til samþykkis segir Hildur. „Samþykki þarf þannig að vera upplýst, óþvingað og ótvírætt. Það þýðir að sá sem er spurður verður að vita nákvæmlega hvað hann er að samþykkja og samþykkið verður að vera veitt af fúsum og frjálsum vilja. Auk þess þarf það að fela í sér sérstaka aðgerð eða yfirlýsingu, sem þýðir til dæmis að ekki er hægt að líta á þögn sem samþykki. Þá er samþykki foreldris eða forsjáraðila nauðsynlegt fyrir börn yngri en 18 ára.“


Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. september 2018.

Hildur Þórarinsdóttir

Lögfræðingur hjá Persónuvernd