Áfram höldum við að slökkva elda, en hvers konar líf er það?

06.09.2017 | Raddir

Áfram höldum við að slökkva elda, en hvers konar líf er það?

Kæri bæjarstjóri, nú hef ég unnið í leikskóla síðan 2000, sem leiðbeinandi, leikskólakennaranemi, leikskólakennari og nú síðast sem aðstoðarleikskólastjóri. Ég hef unnið í stórum og litlum skólum og bæði hér í Kópavogi og í Osló, Noregi. Ég lifi og hrærist í starfinu, hugsa um það dag og nótt og sæki mér þekkingu í formlegu og óformlegu námi eins og ég get. Ég get ekki annað sagt en að þetta er lífið!

En, hvers konar líf er þetta? Leikskólakennurum fækkar á gólfinu á höfuðborgarsvæðinu og síðan ég útskrifaðist hefur leikskólakennaranemum fækkað og ekki lítur út fyrir að það sé að lagast. Einnig er mikil munur á milli leikskóla með fagmönnun. Sumir leikskólar eru betur settir en aðrir því leikskólakennarar sækja í að starfa með öðrum leikskólakennurum en það þýðir að sumir leikskólar sitja eftir með færri leikskólakennara við störf. Einnig má benda á að yngri leikskólakennarar endast styttra í starfi en þeir sem á undan voru og má rekja það eflaust til framboðs á öðrum störfum og ólíkra krafna nútímasamfélags.

Börnunum fækkar ekki, sveitarfélögin stæra sig af því að þau bjóði upp á leikskólapláss fyrir yngri börn en nágrannasveitarfélögin og nú eru langflest börn á leikskólaaldri í leikskóla en á kostnað hvers?

Í mínum leikskóla eiga að vera 120 börn, margir telja þau ekki sem einstaklinga heldur númer á blaði. Það fer ekkert eftir því hvað þau eru gömul, hvar þau eru stödd í þroska, hegðun, sérþörfum eða stuðningi. Skólann verður að fylla alveg sama hvað. Á kostnað hvers?

Börnin eiga rétt á einstaklingsmiðuðu, fjölbreyttu námi og svo þarf að sinna þörfum og tilfinningum hvers og eins og bregðast við hverju þeirra sem einstaklingi. Við eigum að vinna að málörvun, þjálfun gróf- og fínhreyfinga, myndsköpun, tónlist og síðast en ekki síst ýta undir sjálfstæði, en á sama tíma þjálfa þau í félagslegum samskiptum. Leikskólakennarar eiga líka að eiga í samskiptum við foreldra, vinna með öðrum starfsmönnum að stefnumótun, skipulagningu, mati og endurmati, bæði gagnvart börnunum og skólanum sjálfum og sinna sérúræðum fyrir þau börn sem það þurfa. Vistunartími barna lengist ár frá ári þrátt fyrir umræður og loforð um fjölskylduvænna samfélag. Mörg börn eru í 9 tíma vistun og einhver lengur. Á kostnað hvers?

Börnin eiga rétt á einstaklingsmiðuðu, fjölbreyttu námi og svo þarf að sinna þörfum og tilfinningum hvers og eins og bregðast við hverju þeirra sem einstaklingi.

Ég get sagt með stolti að leikskólakennarar og leiðbeinendur eru alltaf að gera, eða reyna að gera allt sem talið er upp hér að framan. En á kostnað hvers?

Deildarstjóri í leikskóla fær 5 tíma á viku í undirbúning, hann fellur að sjálfsögðu niður í manneklu enda verðum við að byrja á því að tryggja öryggi barnanna. Aðrir leikskólakennarar frá 4 tíma á viku og þeir ófaglærðu fá engan undirbúning. Fyrir utan það hversu fáir tímar þetta eru þá er gert ráð fyrir því að undirbúningurinn sé unninn á opnunartíma leikskólans og innan veggja hans. Á kostnað hvers?

Þið getið sennilega séð fyrir ykkur hversu gott er að vinna að undirbúningi á starfinu þegar þú veist að aðrir starfsmenn deildarinnar reyna að troða marvaðann svo þau drukkni ekki. Það er raunveruleikinn sem við stöndum frammi fyrir alla dagana í leikskólanum. Við erum með alltof mörg börn, fáa fagmenntaða starfsmenn, fáa starfsmenn, þau börn sem þurfa stuðning fá hann seint og illa enda kerfið undirmannað og við upp á aðra komin með mat á því hver þörfin er. Á kostnað hvers?

Við erum með alltof mörg börn, fáa fagmenntaða starfsmenn, fáa starfsmenn, þau börn sem þurfa stuðning fá hann seint og illa ...

Í leikskólanum reynum við að gera umhverfi barnanna sem mest skapandi, þægilegt fyrir börn á öllum aldri og hvetjandi fyrir þau til þess að gera sjálf og geta sjálf. En hvernig er umhverfi leikskólakennarans?

Í leikskólanum er ekki gert ráð fyrir „fullorðins húsgögnum“, þar eru þrjár tölvur fyrir 25 starfsmenn og þær eru eldri en elstu menn muna. Á sama tíma fá öll börn frá 5. bekk afhentan iPad til eigin afnota. Hvar eru iPadarnir fyrir leikskólakennarana?

Aðstæður við matarborð, fataherbergi og skiptiaðstöðu eru oft til bráðabirgða og með öllu ófullnægjandi. Við berjumst við hljóðvist enda ekki forgangsatriði að koma upp viðeigandi hljóðdempandi einangrun í leikskólum. Atvinnusjúkdómar leikskólakennara eru stoðkerfisvandamál og heyrnarskemmdir. Hver á að borga?

Í leikskólanum er ekki gert ráð fyrir „fullorðins húsgögnum“, þar eru þrjár tölvur fyrir 25 starfsmenn og þær eru eldri en elstu menn muna.

Ég er bjartsýn að eðlisfari og læt mér nú yfirleitt fátt fyrir brjósti brenna en nú upp á síðkastið hefur þetta náð mér. Hvað bíður mín? Mig langar til þess að vinna í leikskólanum áfram og vonast til þess að ég hafi það sem þarf til að verða stjórnandi, leiðtogi jafningja minna. Starfið er gefandi og á hverjum degi tökumst við á við krefjandi og spennandi verkefni. En hvernig eigum við að vinna þessi störf við þær aðstæður sem okkur eru boðnar?

En er ljós í göngunum?

Ég sé ekki fram á að leikskólakennurum muni fjölga, hvernig eigum við þá að halda áfram með faglegt starf? Ég sé ekki fram á að vistunartími barnanna sé að styttast, hvernig á ég leysa mönnun allan daginn þegar starfsmennirnir vinna að sjálfsögðu ekki meira en 100% starf, 8 tíma á dag en börnin eru mörg í 120% vistun, þ.e. 9 – 9, 5 tímar.

Áfram höldum við að slökkva elda og láta þetta ganga, en hvers konar líf er það? Leikskólinn er fyrsta skólastigið og allir hamra á því hversu mikilvægt það er að grípa inn í sem fyrst og styðja við börn strax á fyrstu stigum. Það þýðir ekki að tala bara um hvað leikskólinn er mikilvægur og hampa okkur á tyllidögum, það þarf að hlúa að okkur til þess að við gefumst ekki upp því kjarni leikskólastarfs er fólkið sem vinnur í leikskólanum.

Hvað ætlið þið að gera til þess að Leikskólar Kópavogs haldi áfram að vera í fremstu röð?

Með kveðju, Gerður Magnúsdóttir aðstoðarleikskólastjóri.


Athugas. ritstjórnar: Greinin er bréf sem Gerður sendi bæjarstjóra Kópavogs, bæjarráði og leikskólanefnd Kópavogs. Gerður gaf Skólavörðunni góðfúslegt leyfi til að birta bréfið í heild sinni. Fyrirsögnin er Skólavörðunnar. Myndin er úr safni.

Gerður Magnúsdóttir

aðstoðarleikskólastjóri í leikskólanum Sólhvörfum