Að taka stöðu með börnum – menntastefna til ársins 2030

06.11.2018 | Raddir

Að taka stöðu með börnum – menntastefna til ársins 2030

Núverandi menntamálaráðherra hefur hrint af stað vinnu við gerð nýrrar menntastefnu sem gilda á til ársins 2030. Það er þarft verk og miklu skiptir að vel takist til.

Yngsta skólastigið á Íslandi er leikskólastigið og á þá hvort tveggja við, að þar eru yngstu nemendurnir og svo hitt, að styst er síðan starf leikskóla var gert að sjálfstæðu skólastigi. Það er ýmislegt sem bendir til að leikskólastigið sé enn í frumbernsku, hafi ekki slitið barnsskónum ef svo má segja. Þá er ekki átt við það starf sem unnið er í leikskólum landsins, - það er nær undantekningalaust prýðilegt. Hins vegar virðist sjónum ekki hafa verið beint nægilega að kerfinu sjálfu, umgjörðinni og skipulaginu, því svo er að sjá að það hafi fyrst og fremst þróast tilviljanakennt út frá þörfum foreldra og atvinnulífs fyrir barnagæslu.

Hvað aldur nemenda varðar þá er leikskólastigið fyrir börn undir skólaskyldualdri, eins og segir í lögum um leikskóla. Hvenær börn eiga að hefja nám eða vistun í leikskóla, er hins vegar óljósara og virðist fyrst og fremst fara eftir hentistefnu og fjárhagslegri getu hvers og eins sveitarfélags.

Ætli það séu engin uppeldisfræðileg eða þroskasálfræðileg rök fyrir því hvenær skynsamlegt er að barn komi til náms og dvalar í stofnun eins og leikskóla? Er eðlilegt að það sé bara tilviljunum háð? Er eðlilegt að það ráðist meira af þörfum foreldra fyrir að taka þátt í atvinnulífinu en þörfum barnsins sjálfs fyrir nærveru og umönnun foreldra sinna?

Lokið á leikskólakerfinu liggur ljóst fyrir, skilin milli leik- og grunnskólans. En þarf ekki líka að setja botn í kerfið, botn byggðann á hagsmunum barnsins, þroskasálfræðilegum rökum? Eða finnst okkur eðlilegra að miða botninn við þarfir samfélagsins fyrir barnagæslu hverju sinni? Ný menntastefna þarf að svara þessum spurningum með skýrum faglegum leiðbeiningum um upphaf leikskólastigsins.

Og hvað með dvalartíma barna í leikskólum? Er gott og eðlilegt að lítil börn dvelji að meðaltali um 45 vikur á ári í leikskóla, meðan börn í grunnskóla eru 36 vikur í skólanum ár hvert? Skóladagur leikskólabarna er auk þess í flestum tilfellum lengri en hjá grunnskólabörnum. Finnst okkur eðlilegt að því yngri sem börnin eru því lengri tíma dvelji þau í skólanum?

Leikskólakerfið er fyrst og fremst sniðið að þörfum þéttbýlis því það gerir ráð fyrir að foreldrar komi börnum sínum sjálfir í leikskólann og sæki að skóla loknum. Það krefst stuttra vegalengda til og frá skóla. Leikskólakerfið hentar illa í dreifbýli þar sem vegalengdir eru miklar því það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að ætlast til að foreldrar flytji börn sín um langan veg til og frá leikskóla. Skólakerfi sem gerir ráð fyrir að foreldrar aki börnum sínum tugi km í leikskóla getur tæplega talist góð þjónusta við íbúa dreifbýlisins. Til að jafna aðstöðu leikskólabarna til skólagöngu þarf ný menntastefna að gera ráð fyrir skólaakstri með leikskólabörn í dreifbýli með sama hætti og grunnskólabörn.

Ný menntastefna til ársins 2030 þarf fyrst og fremst að taka stöðu með börnum þessa lands. Það krefst barnvæns samfélags þar sem hagur ungra barna og fjölskyldna þeirra er hafður að leiðarljósi. Barnvænt samfélag krefst verulega lengra fæðingarorlofs en nú er og barnvænt samfélag krefst líka styttri vinnuviku. Barnvænt samfélag getur einnig þurft að huga að öðrum leiðum en leikskólum til umönnunar yngstu barnanna.

Barnvænt samfélag gerir kröfu um breyttan hugsunarhátt, lágstemmdari, með minni áherslu á veraldleg gæði en meiri á mannleg gildi og innihald. Í nýrri menntastefnu þarf að ríkja skilningur á að hvert barn á rétt á nærveru og umönnun foreldra sinna fyrstu æviárin og þar þarf líka að ríkja skilningur á því að það er réttur foreldra að búa í samfélagi sem gerir þeim kleift að rækja uppeldisskyldur sínar gagnvart börnum sínum. Í nýrri menntastefnu þarf að ríkja skilningur á því að góð tilfinningaleg tengsl barns og foreldris eru grunnur þess sem á eftir kemur.

Stórutjarnaskóli er samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli

Ólafur Arngrímsson

skólastjóri Stórutjarnaskóla
Viðfangsefni: Leikskóli, Grunnskóli, Menntastefna