Að stýra skóla í orði og á borði

05.02.2019 | Raddir

Að stýra skóla í orði og á borði

Á köldum og fallegum sunnudagsmorgni settist ég niður og las grein í nýútkomnu Tímariti um uppeldi og menntun um sýn skólastjóra á hlutverk og gildi í starfi sínu.[1] Í greininni er fjallað um starf skólastjóra út frá þeirri hugmynd að starfið byggi í grundvallaratriðum á siðferði þeirra einstaklinga sem starfinu gegna. Vísað er til rannsókna sem sýna að þótt leiðtogar styðjist við siðferðileg gildi í störfum sínum sé mjög algengt að þeir séu ekki meðvitaðir um hver þessi gildi séu. Algengt er að ósamræmi sé milli þess sem stjórnandi trúir að skipti mestu máli, og þess sem hann leggur í raun áherslu á í starfi skólans sem hann stýrir. Einnig er nefnt að því hafi ekki verið nægilega vel sinnt í starfsþróun skólastjóra að leiðbeina þeim í rýni á eigin gildi og hvernig þau gildi samræmast starfsháttum þeirra.

Í daglegu starfi skólastjóra er mikill erill m.a. vegna þess að hann gætir hagsmuna margra ólíkra aðila. Stjórnendur skóla gæta að hagsmunum nemenda, aðstandenda og nærsamfélags, starfsmanna auk þess sem þeim bera að tryggja að farið sé að lögum og tilmælum sveitarfélaga og ríkis. Í starfinu er skólastjóri stöðugt að flakka milli ólíkra sviða. Hann þarf annars vegar að stýra umfangsmiklum stefnumótunarverkefnum sem krefjast einbeitingar, samráðs og agaðrar úrvinnslu, og hins vegar þarf hann að bregðast við margvíslegum hversdagslegum uppákomum þar sem manneskjur þurfa svör og viðbrögð án tafar. Í þessum flókna vef verkefna er auðvelt að missa sjónar á stóru markmiðunum og grundvallartilgangi skólastarfsins. Það getur reynst erfitt að taka frá tíma til að velta fyrir sér spurningum eins og „Hvert er megin markmið skólans?“, „Hvað finnst mér vera mikilvægasta gildi skólastarfs?“, „Hvort legg ég meiri áherslu á frelsi einstaklinga eða jafnræði allra?“ eða „Er ég sátt við að sjá kennara ætlast til þess að allir nemendur í 25 manna bekk séu staddir í sömu eyðufyllingaræfingunni? Af hverju? Af hverju ekki?“

Börkur og Steinunn Helga leggja til að skólastjórum sé boðin handleiðsla og ráðgjöf „við að spyrja gagnrýninna spurninga um eigin sýn og gildi og aðstoð við að greina hvort samræmi sé á milli orða þeirra og athafna“[2]

Um leið og ég tek þátt í því verkefni í vor að ígrunda hugsjónir mínar og forgangsröðun í starfi þá velti ég fyrir mér hvort þetta sé nóg til að efla stjórnun í íslenskum grunnskólum og auka líkurnar á því að samræmi sé milli þess sem skólastjórinn ég trúir á og þess sem ég vinn að í daglegu starfi. Ég velti fyrir mér hvort nóg sé fyrir manneskjur að fá handleiðslu í ígrundun og gagnrýninni hugsun eftir að þær hafa lokið margra ára menntun og eru komnar í þá stöðu að vera orðnar stjórnendur í grunnskólum. Ég hef áhyggjur af því að á Íslandi sé alvarlegur skortur á gagnrýni á öllum stigum skólakerfisins. Þessi skortur veldur því að fólkið sem er menntað í þessu kerfi fær sjaldan tækifæri til að glíma við ákveðna gerð spurninga: heimspekilegar spurningar, tilvistarspurningar, flóknar spurningar. Fólkið fær sjaldan tækifæri til að spyrja „Hvað ef…?“. Það fær sjaldan tækifæri til að gagnrýna í raun og fær því hvorki leiðsögn né þjálfun í slíkum hugsunarhætti. Þetta er að mínu mati mjög alvarlegt vegna þess að gagnrýnin hugsun er ekki fyrirbæri sem hægt er að þjálfa upp með nokkurra vikna námskeiði. Gagnrýna hugsun þarf að skoða í heildarsamhengi manneskjunnar, viðhorf hennar til lífsins, þekkingarleitarinnar og samskipta við annað fólk. Ólafur Páll Jónsson hefur skrifað um það að í raun sé réttara að tala um „gagnrýnar manneskjur“ en „gagnrýna hugsun“ vegna þess hversu samofinn hugsunarhátturinn er öllum lífsstíl einstaklingsins[3]. Nanna Hlín Halldórsdóttir[4] hefur líka skrifað grein um að gagnrýnin hugsun sé ekki afmarkað safn verkfæra, heldur háð viðfangsefninu hverju sinni og felist aðallega í andstöðu, því að vera á móti, horfa út fyrir kassann, og skapa nýja möguleika.

Að mínu mati er skýringin á því að íslenskir skólastjórar sjái illa samhengið, milli þeirra gilda sem þeir trúa á og þeirrar forgangsröðunar sem þeir birta í reynd í starfi sínu, sú að þeir eru sjálfir menntaðir í skólakerfi sem býður sjaldan upp á tækifæri til að vera í mótstöðu, kennir litla heimspeki og fæst sjaldan við stórar hugmyndir. Handleiðsla til skólastjóra í gagnrýninni ígrundun á starf sitt kæmi sannarlega betur seint en aldrei. En þurfum við ekki líka að huga að framtíðinni í þessum efnum? Þurfum við ekki að takast á við rót vandans og fara af alvöru og miklu oftar að bjóða börnum, ungmennum og háskólanemum upp á óleysanlegar spurningar og hugarfarslega óþekkt? Ef við gerum það ekki mun könnun á borð við þá sem Steinunn Helga, Börkur og félagar hafa unnið að síðan 1991 sýna sömu niðurstöður um ókomna tíð.

Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri Garðaskóla, janúar 2019[1] Börkur Hansen og Steinunn Helga Lárusdóttir. (2018). Grunnskólastjórar á öndverðri 21. öld: hlutverk og gildi. Tímarit um uppeldi og menntun, 27:2, bls. 111-133.

[2] Sama, bls. 128.

[3] Ólafur Páll Jónsson. (2008). Gagnrýnar manneskjur. Hugur, 20. árg., bls. 98-112.

[4] Nanna Hlín Halldórsdóttir. (2015). „Gagnrýnin hugsun“ í gæsalöppum. Að gagnrýna, hlusta og rökræða en fastsetja ekki „gagnrýna hugsun“ í flokk. Hugur, 27. árg., bls. 123-141.


Brynhildur Sigurðardóttir

skólastjóri Garðaskóla