​Það er leikur að læra

03.05.2016 | Raddir

​Það er leikur að læra

Leikskólakennarar leggja flestir mikið upp úr málörvun í vinnu sinni. Þeir nýta umhverfið á skapandi hátt, velja bækur af kostgæfni og finna verkefni og leiki sem hæfa þroska barnanna. Þeir vita að á leikskólaaldri er grunnur lagður að öllum þroskaþáttum.

Nýlega kom út bók sem heitir SOL – spjallað og leikið, eftir dönsku tal- og heyrnarfræðingana Helle Iben Bylander og Inge Benn Thomsen. Bókin inniheldur 127 leiki til að styrkja málþroska barna. Hún byggir á sömu þáttum og TRAS-skráningarlistinn skoðar, en margir leikskólakennarar þekkja vel þann skráningarlista sem ætlaður er til að fylgjast með málþroska barna. Í bókinni eru stuttir fræðilegir kaflar um málþroska og einnig er talað um tengsl málþroska og náms og mikilvægi þess að styrkja orðaforða barna til að auka færni þeirra í námi.

Hólmfríður Árnadóttir talmeinafræðingur, Hrafnhildur Karlsdóttir kennsluráðgjafi og Margrét Tryggvadóttir sérkennari hafa nú þýtt þessa bók.

SOL-bókin

Bókin er einkum ætluð leikskólakennurum og þeim sem starfa í leikskólum. Í henni eru hugmyndir og tillögur að leikjum til að styrkja og efla ákveðna þætti málþroska frá tveggja ára aldri. Leikirnir henta öllum börnum, þeim sem hafa íslensku að móðurmáli, eru tvítyngd eða fjöltyngd, eru fljót/sein til máls eða hafa röskun í máli. Leikina má svo nota mun lengur þegar unnið er með börn sem á einhvern hátt fylgja ekki jafnöldrum. Leikskólaumhverfið er vettvangur leikjanna.

Bókin skiptist í nokkra hluta og undirkafla. Hver hluti hefst á stuttum fræðilegum kafla, þeim sömu og á TRAS-skráingarlistanum, og byggjast á sama litakerfi. Kennari sem ætlar að þjálfa málskilning og málvitund getur t.d. flett upp rauða kaflanum sem hefur sama lit og spurningar sem skoða sömu þætti á skráningarlistanum. Á eftir hverjum kafla koma svo hugmyndir að leikjum sem styrkja ákveðna þætti málþroskans. Gert er ráð fyrir þátttöku kennarans í leiknum. Sumir leikirnir byggja á gömlum grunni og allir eru þeir settir upp á aðgengilegan hátt. Leikir sem þjálfa orða- og setningamyndun eru 45 talsins; þeir sem þjálfa hljóðgreiningu og heyrnarminni eru 31 talsins og þeir sem þjálfa málskilning eru ellefu. Leikir sem þjálfa frásögn eru átta talsins; þeir sem þjálfa tjáskipti, samleik og einbeitingu við hlustun eru fimm; þeir sem þjálfa heyrnræna úrvinnslu eru einnig fimm og leikir sem þjálfa vinnu með bókstafi eru 12 talsins.

Tengsl málþroska og lestrar- og námserfiðleika

Fyrstu ár barnsins eru viðurkennd sem mikilvægt þroskaskeið. Dvölin í leikskóla er mikilvægur tími og í leikskólum er unnið samkvæmt metnaðarfullum leikskólalögum. Auknar rannsóknir á námi barna sýna hve þýðingarmikil vitsmunaleg örvun er og hve nauðsynlegt er að efla félags- og tilfinningaþroska barna gegnum leik og starf.

Við lifum í heimi sem gerir kröfur um menntun barna. Kennarar eru öðrum fremur meðvitaðir um að málþroski er undirstaða góðrar námsframvindu. Sterk tengsl eru milli málþroska barna, einkum slakrar hljóðkerfisvitundar, og læsis, sem og á milli fátæklegs orðaforða og erfiðleika í lesskilningi. Sýnt hefur verið fram á mikinn mun á námsgetu barna sem sótt hafa leikskóla og þeirra sem ekki hafa fengið tækifæri til þess. Fjölmargar rannsóknir á lestarfærni barna sýna að snemmtæk íhlutun getur dregið verulega úr líkum á námsvanda. Rannsóknir segja okkur enn fremur að með ákveðnum leikjum og verkefnum megi styrkja þá færniþætti sem hafa mest áhrif á lestur og nám.

Börnum sem ekki eru með íslensku að móðurmáli hefur fjölgað í leikskólum. Þau þurfa því að tileinka sér tvö eða fleiri tungumál á sama tíma, sem leggur kennurum auknar skyldur á herðar í vinnu með íslensku. Nemendur á Íslandi með íslensku sem annað mál standa illa að vígi í orðaforða. Rannsóknir benda til að of lítill gaumur hafi verið gefinn að íslenskukunnáttu barna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli, en orðaforði er einn af undirstöðuþáttum þess að barn nái fótfestu í námi.

Leikurinn er aðferð barna til þess að læra. Þess vegna ætti að vera kærkomið fyrir leikskólakennara að fá í hendur bók sem gerir þeim kleift að velja leiki og styrkja þannig þá þætti málþroskans sem þeir vilja leggja áherslu á, hvort sem þeir eru að vinna með fjölmennan eða fámennan barnahóp eða einstaklingsþjálfun.

Sýnishorn af leikjum

Gettu hvað ég er að hugsa um

Markmið: Að auka orðaforða og orðaminni.

Aldur: 4 ½ - 5 ára

Fjöldi: 2-6 börn + fullorðinn.

Æskilegur staður: Að eigin ósk.

Efni: Ekkert

Leiðbeiningar: Mælt er með að þú notir orð og frásögn sem hentar getu hvers barns fyrir sig. Útskýrið að þau eigi að geta upp á því til skiptis hvað þú sért að hugsa um. Segðu þeim að þú munir segja ýmislegt um það sem þú ert að hugsa og svo megi þau geta. Með þessu móti verður barnið að hlusta vel og ímynda sér hvað þú ert að hugsa. Þú getur hjálpað til með að segja t.d. að það sem þú sért að hugsa um sé t.d. í garði eða eitthvað sem er í herberginu.

Dæmi: Það sem ég er að hugsa um er grænt, það er í görðum og á fótboltavöllum, maður getur slegið það með sláttuvél (gras).

Þetta er í sveitinni, það býr fólk þarna, það eru hesthús, kýr, svín og önnur dýr (bóndabær).

Það sem ég er að hugsa um er úr plasti og gúmmí, litlum börnum finnst gott að hafa þetta í munninum þegar þau fara að sofa (snuð).

Kennslufræðilegar athuganir: Geta öll börnin svarað eða þurfa einhver þeirra smá hjálp? Ef svarið er já, fylgist þá með því hvort barnið missi einbeitinguna af því að verkefnið sé of erfitt. Þekkir barnið aðeins sum orðanna?

Málfarslegar athuganir: Skilja öll börnin útskýringarnar?

Skilningur: E.t.v. væri gott að útskýra sum orð og hugtök nánar áður en byrjað er.

Fleiri möguleikar:

Skráið hjá ykkur aðrar útfærslur sem ykkur detta í hug.


Tínum blóm

Markmið: Að auka hlustunarfærni og athygli.

Aldur: ca 3 ára

Fjöldi: 6-10 börn + fullorðinn.

Æskilegur staður: Á gólfi þar sem er nóg pláss til að hreyfa sig.

Efni: Tromma, mörg blóm (t.d. klippt út úr kartoni eða plastblóm) og ílát, til dæmis karfa, fata eða annað sem börnin geta sett blómin í. Börnin geta líka haldið á blómunum án þess að hafa ílát.

Leiðbeiningar: Útskýrið stuttlega: ,,Allir eiga að tína blóm, en þið megið bara tína blómin þegar þið heyrið í trommunni“ (annars tekur kennarinn blómin og lætur á sinn stað). ,,Svona heyrist í henni“. ,,Þegar við erum búin að tína öll blómin þá skulum við telja þau“ (Ath. eldri börn vilja gjarnan hafa þetta keppni í hver tínir flest blóm). Sýnið áður en þið byrjið. Hrósið alltaf.

Erfiðari leikur: Breytið reglunum þannig að hvert barn tíni ákveðinn lit. Ath. að sum þriggja ára börn þekkja ekki litina. Sýnið leikinn áður en byrjað er.

Að leik loknum er hægt að tala um lit blómanna og e.t.v. nöfn. Það fer eftir gæðum myndanna.

Kennslufræðilegar athuganir: Geta öll börnin bæði hlustað og tínt blóm?

Málfarslegar athuganir: Skilja börnin útskýringarnar?

Skilningur: Hafið í huga að sum þriggja ára börn skilja ekki orðið /tína/. Sýnið og útskýrið ef þarf.

Fleiri möguleikar: Hægt er að nota annað en blóm í mismunandi litum og stærðum. Sjáið ljósrit aftast í bókinni.

Skráið hjá ykkur aðrar útfærslur sem ykkur detta í hug.

Hólmfríður Árnadóttir

talmeinafræðingur