​Lærdómurinn frá Finnlandi: Treystum kennurum

25.08.2017 | Raddir

​Lærdómurinn frá Finnlandi: Treystum kennurum

Finnska menntakerfinu er sjaldnast sleppt þegar fréttir eru sagðar af menntamálum, hvort sem um ræðir framúrskarandi niðurstöður PISA-rannsókna, versnandi útkomu sömu rannsókna; eða hvort hefðbundnar námsgreinar eru felldar burt eða þeim haldið inni; eða þegar spurt er: hvað gerir finnska kennara svona sérstaka?

Ég starfaði sem kennari á Englandi í tvö ár áður en ég flutti til Finnlands fyrir átta árum. Breskir starfsfélagar studdu við bakið á mér og skólastjórinn fól mér stjórnunarstörf á mínu öðru starfsári. Mig langaði því ekki til að yfirgefa skólann en heimþrá finnskrar konu minnar var svo sterk að við ákváðum að taka upp egg og hreiður.

Menntastefna finnskra yfirvalda er rómuð og finnska líkanið hefur verið flutt út um allan heim. Í mörgu af því sem hefur verið skrifað um finnska kerfið hefur sjónum einkum verið beint að stefnunni sjálfri, en það sníður málefninu þröngan stakk. Siðfræði skólakerfisins og þjóðfélagsins, þar sem stefnan er mótuð, er jafn mikilvæg.

Neikvæðar raddir gætu fullyrt að tilgangslaust sé að bera saman menntastefnur Finnlands og Bretlands (meðal annarra landa) vegna þess hve löndin eru lýðfræðilega ólík. Finnska þjóðin er afar einsleit; aðeins 5% íbúanna eru fædd utan Finnlands og tala hvorki finnsku né sænsku. Það léttir álagi á skólana og auðveldar vinnu við að brúa bil tungumáls og menningar sem aðrar þjóðir glíma við, en segir þó aðeins hálfa söguna. Hagræn einsleitni þjóðarinnar og jafnræði samfélagsins, sem endurspeglast í skólunum, á sinn þátt í velgengni finnska menntakerfisins. Það er ekki einungis bundið við menntakerfið.

Meðal þjóða Evrópusambandsins er minnstur launamunur í Finnlandi en mestur munur í Bretlandi. Fátækt meðal barna er tvöfalt meiri í Bretlandi en í Finnlandi. Ef löggjafarvaldið í Bretlandi vill bæta menntakerfið fyrir alla ætti að byrja á að leiðrétta þetta ójafnvægi frekar en að koma á laggirnar nýjum einkaskólum. Framfarir í menntamálum Finnlands eru að stórum hluta raktar til þess að heildstæð og alhliða skólastefna var innleidd og margir einkaskólar lagðir niður samhliða.

Slíkar breytingar til að „jafna leikinn“ eru óhugsandi í Bretlandi. Nýafstaðnar kosningar vekja vonir um jafnara samfélag en jafnvel Verkamannaflokkurinn myndi hika við að þjóðvæða skóla eins og Eton og Harrow í nafni sanngjarns kerfis. Jafnræðið er þó ekki það eina sem stuðlar að góðri menntun í Finnlandi.

Val á einstaklingum sem sækja um kennaramenntun er háð afar ströngum skilyrðum og nemendur í uppeldisfræðum fá þjálfun á heimsmælikvarða, eins og vera ber. En þó mikil samkeppni ríki um stöður í menntakerfinu vega aðbúnaður kennara og andinn í skólunum einnig þungt svo bæði kennarar og nemendur geti blómstrað. Allt byggir þetta á trausti.

Kennurum í Finnlandi er falin mikil ábyrgð og þeir búa við nánast ótakmarkaðan sveigjanleika varðandi hvað þeir kenna og hvernig. Frammistaða er ekki háð eftirliti eða einkunnum. Þess í stað koma árleg samtöl skólastjórnenda við hvern kennara sem fær endurgjöf á eigið mat á styrkleikum og veikleikum. Ekki er heldur krafist að kennarar útbúi nákvæmar kennsluáætlanir. Sú hugmynd að kennara beri að framvísa sönnunum um hvað hann hefur gert er fáránleg. Hver kennari metur vinnuna út frá því hvort hún gagnist honum sjálfum og nemandanum, en ekki fyrir neinn annan.

Á meðan flest sex ára börn í Bretlandi þreyta samræmd próf hafa finnskir jafnaldrar þeirra ekki hafið formlega skólagöngu. Þegar nemendurnir koma í skóla er eingöngu treyst á dómgreind kennarans til að meta stöðu þeirra. Enginn, hvorki innan skóla né utan, krefst þess að kennarar vinni samkvæmt utanaðkomandi stöðlum og stundaskrám. Og enginn notar gögn til að setja upp samanburðartöflur eða beita skólana þrýstingi.

Þessu er öfugt farið í breskum skólum sem hafa á að skipa tölfræðingum, þar sem kennurum er uppálagt hvernig litan penna á að nota við leiðréttingar og námsbækur eru metnar með reglulegu millibili svo allt kennsluefni passi nú örugglega inn í rammann. Sérkennarar, þeir sem oft þurfa hvað mestan stuðning, verða að semja áætlanir fyrir hverja kennslustund, jafnvel fyrir heilu mánuðina. Öllum þeim tíma, fé og fyrirhöfn mætti verja betur á annan hátt.

Kennarar koma til starfa fullir af eldmóði og áhuga. Þeir sækja í þetta starf af réttum ástæðum. Við verðum að treysta þeim og halda neistanum lifandi. Til þess að svo megi verða verðum við að útvega þeim þau verkfæri og þann tíma sem þeir þarfnast til að jafna sig eftir erfiðan vinnudag. Ef kennurum er ekki íþyngt með verkefnum sem gagnast hvorki þeim né nemendum geta þeir sinnt starfi sínu betur.

Það sem finnska þjóðfélagið gerir – mögulega betur en nokkurs staðar annars staðar – er að annast, treysta og meta hvert annað að verðleikum. Ef gestir, löggjafinn og álitsgjafar vilja læra eitthvað eitt af finnska menntakerfinu – þá ætti það að vera þetta.

Höfundur: John Hart er umsjónarkennari rafræns náms við Evrópuskólann í Helsinki.

Þýðing: Hanna Lára Gunnarsdóttir fyrir Félag grunnskólakennara

Greinin birtist á vef Guardian 9. ágúst 2017.

Viðfangsefni: Finnska menntakerfið, Samræmd próf