​Allir með – tölum saman um skólamenningu á Íslandi

09.04.2019 | Raddir

​Allir með – tölum saman um skólamenningu á Íslandi

Skólaveturinn 2017-2018 stóð SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, í samstarfi við Móðurmál – samtök um tvítyngi, W.O.M.E.N., samtök kvenna af erlendum uppruna og einstaka móðurmálsskóla, fyrir málþingunum Allir með – tölum saman um skólamenningu á Íslandi.

Verkefnið hlaut Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla 2018 og hlaut einnig tilnefningu til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins 2018.

Haldin voru tíu málþing á tíu tungumálum þar sem fjallað var um hvað það er sem einkennir íslenska skólamenningu; ábyrgð og áhrif foreldra á skólastarf og hvernig þeir geta stutt við nám og skóla barna sinna; mikilvægi tungumálakennslu; og frístundastarf. Málþingin voru flest haldin þar sem móðurmálskennslan fer fram um helgar og á sama tíma. Börnin gátu því verið í móðurmálsskólanum og foreldrarnir tekið þátt í málþingunum.

Fyrsta málþingið fór fram á spænsku laugardaginn 4. nóvember 2017 og síðasta málþingið var 21. apríl 2018 á arabísku. Hin málþingin voru á pólsku, litháísku, filippseysku, víetnömsku, rússnesku, tælensku, portúgölsku og ensku. Allar upplýsingar um málþingin og upptökur frá þeim er að finna á heimasíðu SAMFOK, http://samfok.is/allir-med.

Til þess að fá sem mest út úr málþingunum var ákveðið að heyra frá þátttakendum og voru fjórar spurningar um skólaumhverfi á Íslandi lagðar fram í seinni hluta hvers málþings.

  • Hvað gengur vel?
  • Hvað má bæta?
  • Áttu góð ráð?
  • Hverju mundirðu vilja breyta ef þú ættir töfrasprota og peningar skiptu engu máli?

Það var aðeins misjafnt hvernig þetta var unnið á hverju málþingi. Í flestum tilfellum voru þátttakendur fengnir til að mynda hópa og spjalla saman um spurningarnar og skrifa svör við þeim á miða. Öllum svörunum var svo safnað saman eftir hvern fund. Svörin voru skrifuð á tungumáli þátttakendanna og síðan þýdd yfir á íslensku með aðstoð sjálfboðaliða meðal annars frá móðurmálshópunum. Í þremur hópum þróuðust málþingin á annan hátt þar sem foreldrar höfðu meiri áhuga og þörf til að spyrja spurninga og fá svör frá þeim sem flutt höfðu erindi.

Þegar málþingunum lauk voru svörin svo flokkuð saman og þemagreind. Fyrst voru öll svör við hverja spurningu fyrir sig sett saman og þau prentuð út í mismunandi litum. Síðan var þeim raðað eftir þemum. Í ljós komu sex meginþemu sem síðan skiptust í 16 minni þemu:

Tungumál
Íslenska
Móðurmál

Skólinn
Kennarar
Menntakerfið
Frístund
Heimanám
Nám og námsefni

Samstarf og upplýsingar
Foreldrastarf og samvinna
Upplýsingar og upplýsingamiðlun
Samskipti

Börnin
Líðan
Einelti

Þjónusta
Kerfið
Félagslegt, aðstoð, stuðningur og mat

Menning
Fjölmenning
Uppeldi og gildi


Hér á eftir verður gert grein fyrir hverju þema fyrir sig. Skörun getur verið töluverð á milli þema.

Tungumál

Tungumál var það þema sem kom oftast upp og lá foreldrum augljóslega mest á hjarta. Þetta þema skiptist upp í tvö undirþemu, íslensku og móðurmál.

Íslenska

Lang stærsta þemað er íslenska. Það vantar mikið upp á íslenskukennslu fyrir tvítyngd börn. Það kemur í ljós að mörg börn kunna íslenskuna upp að ákveðnu marki en þau vantar dýpri skilning og orðaforða til að skilja fögin sem þau eru að læra.

„Leggja áherslu á hugtök í faggreinum,“ skrifaði eitt foreldri. Barn sem ekki hefur nægilegan orðaforða getur til dæmis lækkað heilmikið í einkunn í stærðfræði ef það skilur ekki orðadæmi þó það kunni aðferðina fullkomlega. Eitt foreldri segir að íslenska sem annað mál sé kennd á ensku sem valdi því að börnin læri ensku í stað íslensku.

Það var líka komið inn á framburðinn hjá nokkrum hópum. Það þarf að hjálpa krökkum að bera orðin fram rétt, það geta foreldrar af erlendum uppruna ekki gert og því verður skólakerfið að koma þar inn. Eitt foreldri sagði „Önnur börn gera grín ef krakkarnir eru ekki með réttan framburð. Þá verða þau feimin og vilja jafnvel ekki mæta í skólann“.

Foreldrar kalla eftir að skólarnir taki ábyrgð á því að kenna tvítyngdum börnum íslensku, þau fái aukatíma eftir skóla frekar en að missa af íslenskutímum með sínum jafnöldrum og bekkjarfélögum.

Bæta þarf stuðning við tví- og fjöltyngd börn í leik- og grunnskólum. Mikilvægt er að hafa í huga að börnin þurfa ekki alltaf sérkennslu, stundum þurfa þau bara betri útskýringar á verkefnum. Það þarf að tryggja að tvítyngdir nemendur skilji verkefnin og til hvers er ætlast af þeim. Tvítyngd börn eru ekki hópur heldur einstaklingar sem eru í skólanum á mismunandi forsendum og þarf því í hvert skipti að skoða námsþarfi þeirra.

Foreldrar kalla eftir því að bæta íslenskukennslu og dýpka orðaforða barnanna, en einnig aukna aðstoð við verkefni. Þá vantar líka betri tækifæri til að læra íslensku sjálf því þau vilja geta hjálpað börnunum sínum og þau langar til að skilja hvað börnin eru að gera í skólanum. Börnin eiga að fá aukatíma eftir skóla og jafnvel í frístundinni og ekki á að taka þau út úr tíma frá sínum bekkjarfélögum. Leggja þarf áherslu á framburð, orðaforða og málfræði.

Foreldrarnir höfðu mikinn áhuga á mati barnanna sinna t.d. tungumálafærni þeirra. Að þeirra sögn þarf greining að taka tillit til tvítyngdra barna þar sem próf fyrir eintyngd börn gefa ekki rétta mynd af tvítyngdum börnum.

Móðurmál

Næsta þema sem liggur foreldrum á hjarta er móðurmál. Foreldrum finnst mikilvægt að kenna börnum móðurmálið og þeir tengja það við velgengni í íslenskunámi. Foreldrar vilja bæta móðurmálskennslu og meta hana til verðleika, t.d. að hún sé metin til einkunna og viðurkennd eins og önnur erlend tungumál. Það þarf að tryggja að sé móðurmálskennsla sé metin í menntakerfinu, hún sé bætt og kennaramenntun tryggð. Hugsanlega gæti móðurmálið komið í stað þriðja tungumáls í framhaldsskóla, metið til einkunnar eða prófs, tekið stöðupróf eða alþjóðlegt próf eins og TOEFL. Hluti af gæðatryggingu móðurmálskennslu ætti að vera menntun kennaranna. Endurmennta þarf móðurmálskennarana og foreldrar velta fyrir sér hvort þeir séu allir með menntun til að kenna tungumál en á Íslandi er ekki hægt að mennta sig í háskóla sem móðurmálskennara.

Skólinn

Kennarar

Foreldrar kalla eftir meiri aðstoð og aukakennslu inn í bekki. Það vantar aðstoðarkennara til að börnin skilji hvað fer fram í tímum og bara fleiri kennara almennt. Þau vilja aukatíma inn í skólunum fyrir tvítyngd börn, minni bekki og bætta túlkaþjónustu. Það vantar fræðslu fyrir kennara um fjölmenningu og allt sem tengist henni, eins og íslensku sem annað mál, tvítyngi og menningarmun. Talað var um að auka þyrfti endurmenntun kennara. Einnig kom fram á mörgum fundum að hækka þyrfti laun kennara. Fræða þarf leikskólakennara um tvítyngi og hvernig staða tvítyngdra barna er ólík stöðu annarra barna.

Menntakerfið

Það er almennt ánægja með menntakerfið á Íslandi. Skólinn er opinn fyrir nýjungum, vinnutími barnanna er passlega langur og foreldrar eru einnig ánægðir með að fatlaðir og ófatlaðir nemendur séu saman.

Það þarf að skilgreina betur mat á frammistöðu barna. Foreldra þurfa að skilja hvað vantar upp á kunnáttu og getu barna. Foreldrum finnst ekki gott þegar barn fær góða umsögn og barnið sagt duglegt og standa sig vel í tíma en síðan kemur í ljós að barnið er t.d. varla læst eða skrifandi á íslensku. Kennarar verða að vera heiðarlegir við foreldra um þessa hluti, þeir verða að vita raunverulega stöðu barnsins. Einkunnir þurfa að vera meira lýsandi heldur en bara sæmilegur – góður o.s.frv. Í sambandi við einkunnir skortir líka á samræmi milli einkunna varðandi inntöku í menntaskóla.

Frístund

Hjá mörgum hópum kom fram að nýta mætti betur frístundaheimilin til að hjálpa börnum með heimalærdóm og þá sérstaklega heimalesturinn. Þar gætu börnin fengið að lesa fyrir starfsfólk og fengið leiðbeiningar í sambandi við framburð sem þau fá ekki heima hjá sér. Það væri gott ef börnin væru t.d. látin lesa upphátt þar þar sem hægt er að leiðrétta þau. Það er mikilvægt að hafa í huga að upplestur getur verið erfiður fyrir tvítyngd börn. „Börn sem eiga erfitt með að lesa upphátt en auðvelt með að lesa í hljóði geta misst áhuga á lestri vegna mikillar pressu við að ná ákveðnum atkvæðum í lesfimisprófum.”

Það vanti þó fleira starfsfólk og fleira fagfólk inn í frístundina. Foreldrar vilja fleiri krefjandi verkefni inn í frístundina og meiri möguleika eins og kór, skák og fleira. Einnig vantar eitthvað að gera fyrir börn 9-12 ára eftir skóla. Krakkar eru of mikið í tölvu og sjónvarpinu. Þau þurfa meiri verkefni og einhvern hóp til að tilheyra eftir skóla. Bent var á að fyrir suma hópa eru frístundaheimilin of dýr. Sumarfrístundir eru líka dýrar og var kallað eftir því að frístundaheimilin væru með heilsársopnun.

Heimanám

Heimavinna var sterkt þema og margar hugmyndir komu frá foreldrum. Foreldrar kalla eftir meiri aðstoð við heimanám, þetta er mjög mikilvægt fyrir þau. Heimanámsaðstoð gæti farið fram á frístundaheimilum eða í skólanum eftir skólatíma. Það er gott ef foreldrar geta stutt við heimanám barnanna en sumir foreldrar eiga erfitt með að aðstoða börnin sín með íslenskt námsefni ef þau tala ekki íslensku.

Foreldrar kalla eftir meiri heimavinnu. Það er tækifæri fyrir börn til að læra að læra. Þó þarf heimavinna styðja við námið í skólanum og ekki um efni sem var ekki búið að fara yfir. Heimanám á að vera eitthvað til að vera stolt af, gera það að einhverju sem skiptir mál, hefur gildi. Það þarf til dæmis að útskýra fyrir erlendum foreldrum hvers vegna það er mikilvægt að lesa upphátt.

Það er mikilvægt að kenna börnum að bera ábyrgð á eigin heimanámi, en heimanám er þeirra ábyrgð frekar en foreldranna. Einnig væri áhugavert að fara nýjar leiðir í heimanámi og prófa t.d. hópavinnu.

Nám og námsefni

Foreldrum finnst að börnin séu að fá góða menntun í skólanum, það er jákvætt að börnin læri ekki bara af því að hlusta heldur með að taka þátt. Námsgreinar sem tengjast leikjum ganga vel, börnin læra í gegnum leik. Verkefnin eru góð, skólaferðir og vettvangsferðir einnig. Frjáls lærdómur og félagslegt andrúmsloft séu í skólum. Foreldrum finnst jákvætt að það sé viðurkennt að börnin læra á mismunandi hraða og lögð er áhersla á sjálfsmynd barna og eflingu hennar.

Það þarf þó að kenna börnum að vera sjálfsgagnrýn og gera meiri kröfur til sín. Foreldrar virðast leggja áherslu á kjarnagreinar eins og stærðfræði og finnst að auka mætti erfiðleikastigið og gera stærðfræðina meira krefjandi. Börnin ættu að geta valið að fara í aukatíma í stærðfræði, t.d. í staðinn fyrir dans eða leiklist. Þau börn sem klára verkefnin sín fyrr eiga að fá ný verkefni. Það kom einnig upp hugmynd að nýta eldri nemendur til að kenna þeim yngri, t.d. 1 klst á viku íslensku og/eða stærðfræði.

Bæta þarf námsefni og kenna á skemmtilegan hátt. Skólagögn mættu vera aðgengileg fyrir börn og foreldra eftir skóla (skriffæri, myndir, bækur, hljóðbækur). Börnin ættu að mega taka allt námsefni með sér heim og ætti jafnvel að vera aðgengilegt á netslóð. Ef peningar skiptu ekki máli, ætti allt námsefni að vera ókeypis, sem og frístundir, t.d. tónlist og aðrar listir, íþróttirnar osf., og auka mætti vettvangsferðir.

Maturinn í skólum er góður, en það þarf að fræða börn um mat og næringu.

Samstarf og upplýsingar

Foreldrastarf og samvinna

Foreldrum þykir vænt um að hittast og gera eitthvað saman til að kynnast. Foreldrarnir sem tóku þátt í umræðum voru meðvituð um mikilvægi þess að hittast eftir skóla í sambandi við málefni tengd skólanum. Það þarf hins vegar að hvetja alla erlenda foreldra til að taka meiri þátt í skólagöngu barnanna sinna og skólastarfinu alveg frá leikskóla og uppúr. Það vantar líka meira samstarf við íslenska foreldra sem eru mjög lokaðir. Allir foreldrar mættu leggja sig fram við að kynnast betur.

Foreldrum gekk almennt vel að fá kennara til að vinna með foreldrum til að sameina börn. Þau lögðu samt til að gera þurfi meira fyrir yngstu börnin þannig að þau séu saman. Það mætu vera fleiri viðburðir skipulagðir eftir skóla.

Foreldrafélögin eru mikilvæg í foreldrastarfi og þau gætu hjálpað að bæta sambandið milli foreldra og skóla. Gott væri að hafa foreldrafundi fyrir málhópana sem mætti sameina skóla innan hverfi. Það þarf að fá duglegt fólk í foreldrafélögin. Foreldrafélögin koma líka að foreldrarölti en það er góð forvörn til að fylgjast með krökkum. Allir foreldrar þurfa að vera vakandi yfir því hvað börnin eru að gera.

Það er mjög gott að hjálpa foreldrum að undirbúa sig fyrir foreldrafundi, t.d. með því að senda heim punkta sem verða til umræðu. Kennarinn undirbýr punkta á viðeigandi tungumáli, en í viðtalinu þarf að vera túlkur. Foreldraviðtöl erlendra foreldra þurfa svo að vera lengri, 20-30 mínútur.

Foreldrar þurfa til dæmis ráð og skýringar á góðum leiðum til að bregðast við hegðunarvandamálum barna sinna og annarra og læra réttar aðgerðir sem gott er fara eftir. Stundum er stór menningarmunur á uppeldisháttum og foreldrar þurfa að fá upplýsingar um lög og reglur á Íslandi.

Ráð frá erlendum foreldrum til erlendra foreldra eru þessi: “Vertu forvitin/nn, ekki vera feimin/nn, vertu tilbúin/nn að hitta nýtt fólk.”

Upplýsingar og upplýsingamiðlun

Foreldrar eru almennt jákvæðir þegar kemur að upplýsingum og upplýsingamiðlun. Samskipti ganga oft vel og eru foreldrar ánægðir með tölvupósta og Mentor. Upplýsingagjöf á netinu hefur batnað. Það þarf þó að passa að hafa upplýsingar og tölvupósta á ensku og tryggja að mikilvægar upplýsingar komist til erlendra foreldra. Foreldrar vilja vera upplýstir um stöðu barnsins og vita hvar barnið þeirra er statt miðað við jafnaldra. Upplýsingaflæði mætti vera betra milli skóla, sveitarfélaga og á milli landa og þarf að passa að persónuvernd sé fylgt í meðhöndlun þessara gagna.

Foreldrar telja að það vanti betri upplýsingar um skólakerfið og frístundina og einnig um námið almennt til nemenda. Þetta má gera til dæmis með því að halda fleiri málþing og fundi og hafa upptökur aðgengilegar á netinu og nýta móðurmálshópana til að deila upplýsingum.

Samskipti

Að sögn foreldra eru samskipti við kennara góð og það er gott samstarf milli kennara og heimila. Það gengur vel að vinna að heilbrigðum samskiptum milli barna. Því miður hafa sumir kennarar neikvætt viðhorf til erlendra foreldra og í þeim tilfellum þarf að gera samskiptin vinalegri og kenna kennurum þolinmæli og virðingu. Viðhorf til sumra þjóðerna er neikvætt. Kennarar þurfa að tala meira við foreldrana, nota t.d. meiri ensku. Þeir þurfa að virkja foreldra betur og gefa þeim tíma og tækifæri til að koma í skólann. Það gæti verið flókið að vita hvernig er best að ná til ákveðinna hópa og hver getur haft milligöngu. Ef að koma upp vandamál á milli barna , eiga þau til að smitast yfir á heimilin. Það þarf að aðstoða fjölskyldur til að vinna úr því, t.d. með því að hafa verkefni vinafjölskyldur í skólum. Frábært verkefni sem gæti gagnast mörgum börnum eru mentorar sem fylgja þeim fram í háskólanám.

Börnin

Líðan

Börnunum líður vel, sjálfsmynd þeirra er góð og þau eru örugg í skólanum sem veitir þeim frelsi. Þau vilja mæta og þau eru ekki hrædd við að mæta í skólann. Þau eru ekki stressuð og það eru ekki of miklar kröfur eins og í sumum löndum. Það er gott andrúmsloft í skólunum, viðhorf til barna er vinalegt og þeim er sýnd virðing og á þau hlustað. Nemendur eru kurteisir og samskipti milli nemenda og kennara eru góð. Kennarar eru hjálpsamir og vilja finna lausn á vandamálum sem upp koma. Skólinn fylgist vel með þeim sem líður ekki vel. Þó má stuðla betur að því að skapa tækifæri fyrir öll börn svo allir geta elskað íslenska menningu.

Einelti

Það voru skiptar skoðanir á einelti. Bæði kom fram að það væri ekkert einelti og líka að ekki væri tekið rétt á einelti, það þyrfti að leggja meiri vinnu í að koma í veg fyrir einelti gagnvart börnum af erlendum uppruna og að það vantaði eineltisforvarnir. Það kom fram óánægja með að gerendur væri ekki látnir bera ábyrgð, til dæmis á eignaspjöllum og að þolandi og gerandi væru látnir biðja hvorn annan afsökunar enda geti þolandi aldrei borið ábyrgð á einelti sem hann lendir í.

Þjónusta

Kerfið

Foreldrum finnst margt gott í gangi og segja að það séu mörg góð félög og samtök sem hægt er að leita til. Það er jákvætt að fleiri og fleiri foreldrar þekkja réttindi sín og þá þjónustu sem er í boði. Það sé fjölbreytni hjá alls konar stofnunum sem styðja við börn og foreldra og það er ánægja með frístundastyrkinn og að hann hafi verið hækkaður. En það þarf að bæta tengingu á milli sveitarfélaga og tungumálahópana. Auka þarf samstarf talmeinafræðinga svo talmeinafræðingar af erlendum uppruna geti aðstoðað börnin. Tryggja þarf að menntun fólks af erlendum uppruna sé viðurkennd.

Einnig þarf að auka samstarf allra sem vinna í málum fjölmenningar hjá Reykjavíkurborg. Auka þarf þátttöku kennara að námskeiðum sem snúa að fjölmenningu og tvítyngi. Það mæta bara þeir sem hafa áhuga en það á ekki að vera val. Ráða ætti fleiri brúarsmiði.

Það er erfitt fyrir suma hópana hversu marga daga á ári skólinn er lokaður. Það vantar fleiri leikskólapláss.

Huga þarf að húsnæði sem nýta mætti sem einhverskonar menningarmiðstöð fyrir þessa hópa. Þar sem þau geta hist og haldið upp á ýmsa hluti, komið saman og lært, slakað á, spilað tónlist og fleira. Menningarmiðstöð með bókasafnið og skóla, eitthvað eins og Hitt húsið. Móðurmálsskólarnir þurfa að hafa aðstöðu til að kenna og stuðning.

Félagsleg aðstoð, stuðningur og mat

Það vantar meiri stuðning við foreldra með lágar tekjur. Einstæðar mæður þurfa meiri stuðning en þær geta stundum ekki borgað fyrir mat og frístund. Sumar fjölskyldur geta ekki leyft börnum að taka þátt í tómstundum þar sem þær eru dýrar, alveg eins og föt og matur. Hins vegar verða börnin útundan ef þau ná ekki að taka þátt í frístund og tómstundum vegna fátæktar.

Börn sem eru ekki með kennitölu geta ekki verið skráð í Mentor kerfið. Það er hins vegar mikilvægt fyrir þátttöku í skólastarfinu og þarf að finna lausn, t.d. að gefa þeim bráðabirgðarnúmer til að flýta fyrir skráningu í kerfin. Annars geta börnin t.d. ekki nýtt sér frístundakortið sem er mjög slæmt þar sem þau búa oft við erfiðar aðstæður.

Í öðru lagi þarf meira samstarf um börn sem eiga við vandamál að stríða. Því miður er of löng bið eftir greiningu en einnig voru foreldrarnir meðvitaðir um að það vanti fleiri sérfræðinga í inn í skólana og í greiningar, betri aðgang að sérfræðingum, t.d. talmeinafræðingum, námsráðgjöfum og sálfræðingum. Hjálp vantar inn í skólana fyrir einhverf og fötluð börn.

Menning

Fjölmenning

Hér var töluverð jákvæðni á ferð. Foreldrum finnst samfélagið vera á réttri leið með að viðurkenna og virða fjölbreytileikann. Hér er tvítyngi viðurkennt og tvítyngd börn eru stolt af því að vera tvítyngd. Það mætti þó vera meira til af efni um aðra menningu svo að Íslendingar séu meðvitaðir um aðra hátíðisdaga. Það er of mikið gert úr jólahaldi kristinna og mætti kynna meira hátíðarhald annarra trúarbragða.

Viðhorf til menntunar getur verið ólíkt innan ólíkra menninga. Mikilvægt fyrir börn er að hafa stuðning innan fjölskyldunnar til að fara í framhaldsskóla og háskóla, en einnig að hafa fyrirmyndir í nærsamfélaginu sínu.

Uppeldi og gildi

Börn voru sögð sjálfstæð og sjálfum sér næg og talið að í sumum skólum væri góður agi. Þó fannst einhverjum foreldrum vanta upp á uppeldið og að hvetja þyrfti börn til að vera hógværari, tillitssamari og kurteisari. Íslensk börn byggju við of mikið frelsi sem bitnar á kurteisinni. Það vantaði aga í kennslustundirnar, kennarar þyrftu að ávinna sér virðingu og foreldrar og kennarar þyrftu að vera strangari. Það vanti að kenna börnum að vera góð hvort við annað og nota ekki orð sem særa aðra. Skólahópurinn á að vera eitt lið sem vinnur saman. Íslenska hugarfarið „þetta reddast“ er ekki gott.

Lokaorð

Í verkefninu Allir með – tölum saman um skólamenningu á Íslandi heyrast raddir foreldra fjöltyngdra barna sem sækja flest móðurmálskennslu á vegum Móðurmáls - samtaka um tvítyngi. Foreldrar fengu tækifæri að sækja málþing á sínum tungumálum þar sem þau fræddust um mikilvæg málefni tengd börnum, uppeldi og skólagöngu, en fengu einnig tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Það er skýrt að foreldrar af erlendum uppruna hafa sterkar skoðanir á íslensku skólakerfi og miklar væntingar gagnvart námi barna sinna. Mikilvægasta viðfangsefnið í hugum þeirra er íslenskukunnátta barnanna og námsmöguleikar þeirra á Íslandi. Þau vilja aukinn stuðning og aukna upplýsingagjöf um stöðu barnanna. Móðurmálskennsla, foreldrasamstarf, upplýsinga-gjöf og menningarnæmni kennara voru önnur helstu þemu. Foreldrar skynja að skilvirk samskipti, virðing og traust eru lykilatriði, meðal annars á milli erlendra og íslenskra foreldra, foreldra og kennara, foreldra, stofnanna og sveitarfélaga.

Okkur sem stóðum fyrir málþingunum þykir það mikill heiður að hafa skipulagt málþing fyrir erlenda foreldra á þeirra tungumálum og gefið röddum þeirra farveg. Við erum mjög þakklát fyrir góðvilja, tíma, aðstoð og traust foreldra í móðurmálshópunum. Það er kominn tími til að hlusta á foreldra af erlendum uppruna og vera meðvituð um þeirra þarfir og væntingar. Ennfremur finnst okkur að það sé kominn tími til framkvæmda, frekar en samtals.

Sigríður Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK, samfok@samfok.is

Renata Emilsson Pesková, formaður Móðurmáls, modurmal@modurmal.com