Tungumálanám í framhaldsskólum

21.06.2017 | Málfríður

Tungumálanám í framhaldsskólum

Hver er sýn Menntamálastofnunar á tungumálanám í grunnskólum og framhaldsskólum í hinum nýja stafræna heimi? Málfríður fékk Gylfa Jón Gylfason, sviðstjóra matssviðs Menntamálastofnunar, og Óskar Hauk Níelsson, sérfræðing á matssviði Menntamálastofnunar, til þess að ræða málið. Viðtalið var tekið í Menntamálastofnun 28. febrúar 2017.

Málfríður: Hver er sýn Menntamálastofnunar á tungumálanám almennt í grunn- og framhaldsskólum í hinum nýja stafræna heimi?

Óskar Haukur: Við teljum afar mikilvægt að nemendur tileinki sér vel erlend tungumál, einfaldlega vegna þess að tungumálin eru gluggi út í heiminn. Það þarf þess vegna að standa vel að tungumálakennslunni.

Gylfi Jón: Það kemur skýrt fram í námskránni að erlend tungumál og þá sérstaklega enska og danska eða annað Norðurlandamál séu grunnatriði fyrir áframhaldandi menntun og þá sérstaklega þegar komið er á háskólastig. Samkvæmt námskránni telst þetta vera lykill að framtíðinni.

Málfríður: Sama námskrá er í gildi fyrir ensku og dönsku í grunnskólum en ekki virðist samræmi í fjölda kennslustunda. Hver hefur það hlutverk að fylgja eftir að nemendum sé gert kleift að ná markmiðum námsins áður en grunnskólagöngu þeirra lýkur?

Gylfi Jón: Hver skólastjórn fyrir sig ákvarðar tímafjölda ensku- og dönskunámsins. Menntamálaráðuneytið hefur eftirlitsskylduna á sinni hendi.

Málfríður: Hvernig fer eftirlitið fram?

Gylfi Jón: Ég þekki ekki hvernig það er framkvæmt af hálfu ráðuneytisins. Eftirfylgnin er ekki hjá okkur. Ráðuneytið sér hins vegar einnig um úttekt á öllum grunnskólum en það tekur 32 ár að fara hringinn í þeirri vinnu. Úttektin er úrtakskönnun en almenna reglan er að farið sé eftir viðmiðum námskrárinnar.

Málfríður: Er Menntamálastofnunin ekki aðallega að sinna grunnskólunum?

Gylfi Jón: Jú, og innritun í framhaldsskólana, samþykkt á námsbrautum og þvíumlíkt.

Málfríður: Hafa einhverjar breytingar verið gerðar á námskránni sem gefin var út árið 2015 hvað varðar kröfur um tungumál til stúdentsprófs?

Gylfi Jón: Þessu get ég ekki svarað.

Málfríður: Í kafla 10.5 í námskránni frá árinu 2015 kemur m.a. fram að bóknámsbraut til stúdentsprófs skuli gera lágmarkskröfu um nám í norrænu tungumáli að hæfniþrepi 3 og lágmarkskröfu um þriðja tungumál að hæfniþrepi 2. Við athugun sem gerð var á málinu kemur í ljós að langflestir skólar eru bara með einn áfanga í dönsku á 2. þrepi sem skyldu en eru um leið að bjóða upp á annan áfanga á 2. þrepi. Þetta getur varla staðist kröfuna um að nám í norrænu tungumáli skuli ná að hæfniþrepi 3 að lágmarki.

Gylfi Jón: Þeir sem best geta svarað fyrir þetta eru aðrir hér í stofnunni (Málfríður mun leita eftir upplýsingum frá þeim). Oft hafa komið upp túlkunaratriði varðandi brautarlýsingarnar en þá vaknar spurningin um hvor skuli skera úr, við eða ráðuneytið. Þetta er mjög flókið.

Málfríður: Ef við snúum okkur að íslenskunni sem öðru máli, þ.e. hvernig það nám hefur þróast í skólakerfinu sem sjálfstætt fag. Hefur stefna verið mörkuð um hvernig skuli að því staðið?

Gylfi Jón: Við erum einmitt að fá starfsmann til okkar í fyrramálið sem getur svarað þessu með stæl en það er hún Hulda Karen Daníelsdóttir.

Málfríður: Hvað með stöðu íslensks táknmáls, hefur það fengið formlega stöðu?

Gylfi Jón: Þetta mál er ekki á okkar borði. Ég veit hins vegar að það kom upp dómsmál þar sem foreldrar fóru fram á að fá námsefni á hverju tungumáli en ég veit ekki hver útkoman á því var. Best væri að spyrja sviðsstjóra á miðlunarsviði út í þetta, enda kemur hann að námsefnisgerðinni. Það lítur kannski ekki vel út að við skulum vísa á aðra um svör en í þessu húsi starfa um 60 manns sem er ævintýralegt fámenni með tilliti til verkefna stofnunarinnar og miðað við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.

Óskar Haukur: Menntamálastofnun er tæplega eins og hálfs árs. Verkefni okkar eru þau sem áður voru unnin af Námsmatsstofnun en það eru verkefni sem snúa að samræmdum prófum og alþjóðlegum rannsóknum sem eru PISA og Talis. Þetta eru gríðarstór verkefni sem ráðuneytið tekur formlega þátt í fyrir Íslands hönd. Við þetta bætist ytra matið sem kemur svo líka inn í námsmatið. Þá er að nefna læsisverkefnið og fleiri stjórnsýsluverkefni eins og námskráin, fagráð um eineltismál og óteljandi önnur verkefni sem fylgdu með frá ráðuneytinu.
Menntamálastofnun tók einnig við öllum verkefnum Námsgagnastofnunar sem var útgáfa allra námsgagna á Íslandi fyrir grunnskóla. Enn eru verkefni að bætast við en í lögum um Menntamálastofnun kemur fram að hún taki við því sem ráðuneytið felur henni. Eitt af verkefnum okkar er t.d. að færa samræmdu prófin yfir á rafrænt form en það er mjög umfangsmikið.

Gylfi Jón: Við gerum okkur vonir um að starfsemi okkar komi til með að hafa mjög víðtæk áhrif á hvernig börn og ungmenni tileinka sér nám. Sem dæmi má nefna útgefið próf sem mælir lesfimi. Í því er þrískipt viðmið fyrir hvern árgang. Hugmyndin með þessu er að hafa þau áhrif á lesfimina að staðall verði til fyrir alla árganga en einnig fyrir þá sem lesa hraðar og svo enn hraðar. Með því erum við að ýta staðlinum upp til meiri lestrargetu og það er áhugavert að á þessu fyrsta ári hafa 80% grunnskólanemenda verið metnir með þessu mælitæki en fyrstu niðurstöður úr matinu eru væntanlegar í maí. Það sem er svo heillandi við þetta er að það mælir í raun stöðu skólakerfisins og íslenskra ungmenna á hverju ári hvað snertir lesfimina.

Málfríður: Við höfum áhyggjur af stöðu tungumálanáms almennt. Með styttingu framhaldsskólanámsins virðast margir skólar ekki uppfylla kröfur aðalnámskrár en það leiðir til þess að nemendur geta ekki hafið háskólanám í erlendum tungumálum. Þetta myndi leiða til þess að erfitt verði að finna tungumálakennara eftir 10-15 ár. Þeir einu sem þá geta kennt verða þeir sem eiga viðkomandi tungumál að móðurmáli. Sem dæmi má nefna að erfitt verður að finna spænskukennara en spænskan fer stækkandi í framhaldsskólum. Háskólarnir eru bundnir af alþjóðlegum stöðlum hvað varðar inntökuskilyrði sem verður til þess að nemendur leita annað.

Við rýndum þetta sérstaklega varðandi dönskuna. Margir nemendur sem hyggja á háskólanám í lögfræði, guðfræði, íslensku, kvikmyndafræði eða bókmenntafræði, svo eitthvað sé nefnt, þurfa að bæta við sig tveimur áföngum til viðbótar við það sem skylt er til stúdentsprófs þar sem inntökuskilyrði í þessar námsgreinar eru dönskukunnátta á 3. þrepi. Við gerum alvarlegar athugasemdir við að framhaldsskólinn skuli ekki hafa alla dönskuáfangana sem skyldu í ljósi aðalnámskrár.

Gylfi Jón: Þetta er auðvitað mál sem ástæða er til að skoða með þeim sem til þekkja hér í húsinu.

Viðfangsefni: Menntamálastofnun, Tungumálanám