Þróun ferilmöppu um málörvun leikskólabarna

18.05.2017 | Málfríður

Þróun ferilmöppu um málörvun leikskólabarna

Í apríl 2015 gafst mér tækifæri til að taka þátt í spennandi verkefni á vegum ECML (European Center of Modern Languages, Evrópska nýmálasetursins). Evrópska nýmálasetrið er samvinnuverkefni 33 Evrópulanda og hefur það hlutverk að styðja við tungumálanám og -kennslu í aðildarlöndunum. Verkefnið beindist að því að þróa ferilmöppu eða portfolio fyrir leikskólakennara um málörvun barna. Þátttakendur voru frá rúmlega 20 Evrópulöndum og störfuðu þeir allir við að kenna nemum í leikskólakennarafræðum um máltöku og málörvun barna.

Verkefnið er liður í stefnu Evrópuríkja um að efla málþekkingu barna frá unga aldri og vinna að því að auka hana með margvíslegum aðferðum. Allir þátttakendur voru meðvitaðir um mikilvægi þess að stuðla að því að börn næðu betri tökum á einu tungumáli eða fleirum. Góð málþekking er nauðsynleg til að afla sér þekkingar og gera sig skiljanlegan í mæltu og rituðu máli.

Árangursrík skólaganga veltur á því að ná góðum tökum á tungumáli skólaumhverfisins. Fundirnir í tengslum við verkefnið voru reyndar tveir en fyrri fundurinn var í desember 2013. Þar voru lagðar línurnar um hvað ætti að vera í ferilmöppunni. Á síðari fundinum voru lögð fram drög að ferilmöppu sem voru síðan rædd. Drögin kölluðust „PEPELINO“.

Hvað er „PEPELINO“?
PEPELINO eru drög að ferilmöppu fyrir leikskólakennara til að aðstoða þá við að skoða eigið starf í tengslum við að örva málþroska barna í fjölmenningarlegu samfélagi. Einnig er málörvunin sett í menntunarlegt samhengi. Ferilmappan á að vera einföld í notkun og hafa hagnýtt gildi. Henni er ætlað að nýtast bæði í kennslu leikskólakennaranema og fyrir starfandi leikskólakennara. Leikskólakennarinn/-kennaraneminn á að ígrunda og skoða nákvæmlega hvernig hann notaði málið á vettvangi, íhuga hvort komið hafi verið nægilega mikið til móts við mállegar þarfir barnsins og hvernig beri að bregðast við viðleitni þess til samskipta. Í brennidepli eru spurningar um hvort leikskólabörnum séu sköpuð næg tækifæri til að tjá sig, hvort þau skilji tungumál leikskólans og hvernig bregðast eigi við ólíkum tungumálum og menningu á jákvæðan hátt.

Fagleg kunnátta kennarans á töluðu máli og fjölmenningu
Ferilmöppunni var skipt í eftirfarandi fjóra meginþætti; 1) Leikskólakennarinn og hvernig hann talar; 2) Umhverfið og málörvun; 3) Stuðningur við hvert barn; og 4) Samvinna við fjölskyldu barnsins. Hverjum þætti var fylgt eftir með inngangi og spurningum til leikskólakennarans og hann hvattur til sjálfskoðunar um starfið á vettvangi. Hér verður nánar gerð grein fyrir hverjum þætti fyrir sig.

Hvernig mál talar leikskólakennarinn við börnin?
Í þessum þætti er markmiðið að leikskólakennarinn skoði hvernig hann talar við börnin. Hann veltir fyrir sér orðanotkun og metur hvort börnin skilji orðin sem hann notar. Ennfremur ígrundar hann hvernig hann geti hagað málfari sínu þannig að börnin skilji við hvað er átt. Þarf hann til dæmis að breyta eða stytta setningarnar til að börnin skilji hvað átt er við? Huga þarf að því að kenna ný orð og hugtök og fylgjast með því hvernig börnin tileinka sér málið. Kennarinn þarf að vera meðvitaður um merkingu og form tungumálsins og samskipti almennt. Leikskólakennarinn þarf einnig að þekkja vel til máltöku barna og hvernig barnið lærir tungumálið smátt og smátt. Hann þarf að vera meðvitaður um hver sé æskileg málþekking barna við upphaf skólagöngu og stuðla að því að barnið nái settu marki. Í flestum leikskólum er að finna margbreytilegan hóp barna sem eiga rætur í fjölbreyttu málumhverfi. Mikilvægt er að vera opinn fyrir fjölbreytileikanum og jákvæður í garð annarra tungumála og menningarheima.

Umhverfið og málörvun
Markmiðið í þessum þætti er að skoða málumhverfi barnsins. Börn læra tungumál með samskiptum við umhverfið, þau hafa áhuga á að ná tengslum, eru forvitin, þrá að uppgötva og læra. Hvert tækifæri í daglegu lífi á að nota til samskipta og málörvunar og skapa þarf jákvæðar og margbreytilegar aðstæður til að málörvunin verði sem fjölbreyttust. Barnið þarf að hafa tækifæri til að tjá sig við fullorðinn einstakling eða önnur börn. Með samskiptum öðlast barnið öryggi í umhverfi leikskólans og með því að viðurkenna fyrsta mál barnsins skapast traust. Börn læra í gegnum leik og því þarf að huga að málörvandi leikjum innan leikskólans.

Stuðningur við hvert barn
Í þessum þætti er barnið í brennidepli og athugun leikskólakennarans á samskiptum barnsins, bæði við jafnaldra og fullorðna einstaklinga. Kennarinn á að skoða hegðun barnsins við margbreytilegar aðstæður. Sérhvert barn ætti að fá fjölmörg tækifæri til að tjá sig og viðurkenna þarf viðleitni þess til tjáskipta. Hvetja á barnið til að taka áhættu í fjölbreytilegum mállegum samskiptum. Ef kennarinn skilur ekki barnið er hægt, með margvíslegum hætti, til dæmis hreyfingum eða bendingum, að finna út hvað barnið á við. Enn fremur er gott að biðja barnið að endursegja sögur sem lesnar eru fyrir það í því skyni að skoða málþekkingu barnsins.

Samvinna við fjölskyldu barnsins
Hér er sjónum beint að heimili barnsins en það gegnir lykilhlutverki í máluppeldi. Miklu skiptir að ná góðu sambandi við foreldra og aðra uppalendur. Athuganir á málþekkingu barnsins er sameiginlegt verkefni heimilis og skóla. Foreldrar eiga að fá tækifæri til að kynna sér hvernig málörvun fer fram í leikskólanum og hvernig þeir geta stutt við málþekkingu barnsins heima fyrir, til dæmis með lestri sögubóka. Mikilvægt er einnig að barnið finni fyrir áhuga fjölskyldunnar á leikskólanum og því sem þar er gert til málörvunar. Ef tungumál leikskólans er annað en mál heimilisins ætti að hvetja foreldra til að styðja við tungumál heimilisins með fjölbreyttum hætti.

Að lokum
Þátttakendur í vinnufundinum voru almennt sáttir við þessa tilraun til að útbúa ferilmöppu um málörvun leikskólabarna. Þó bárust fjölmargar ábendingar um atriði sem mætti breyta og bæta. Þátttakendur kynntu fjölmargar hugmyndir um hvernig væri hægt að örva mál barnsins í leikskóla en jafnframt styðja við tungumálið sem barnið talar heima fyrir. Meðal annars var sagt frá spennandi verkefni þar sem verið var að safna þjóðsögum frá mismunandi löndum og þær lesnar á frummálinu.

Íslenskt samfélag hefur breyst mikið á undanförnum árum og í flestum leikskólum er að finna börn sem læra fleiri en eitt tungumál. Málörvun í leikskóla gegnir lykilhlutverki til að barnið nái tökum á íslensku og geti spjarað sig í íslensku samfélagi. Því miður hefur víða verið pottur brotinn í þessum efnum. Talið er að einungis um þriðjungur barna sem talar annað tungumál en íslensku heima fyrir nái nægilega góðum tökum á íslenskunni í leikskólanum til að hefja farsælt nám í grunnskóla. Ferilmappa þar sem leikskólakennarar skoða eigið málfar og málörvun barna er án efa góð viðbót fyrir leikskólakennara og leikskólakennaranema.

Dr. Jóhanna Thelma Einarsdóttir

dósent í talmeinafræði við Menntavísindavið HÍ
Viðfangsefni: Leikskólinn, Málörvun, Ferilmappa