Síðasta tölublað Málfríðar í núverandi mynd

06.06.2017 | Málfríður

Síðasta tölublað Málfríðar í núverandi mynd

Málfríður, tímarit STÍL, er komið út í rafrænu formi. Um er að ræða síðara tölublað ársins 2016 en tafir urðu á útgáfu ritsins. STÍL er Samtök tungumálakennara á Íslandi.

Þetta tölublað Málfríðar, sem er aðgengilegt í pdf-formi er það síðasta sem kemur út með þessum hætti en STÍL er komið í samstarf við Skólavörðuna, vef Kennarasambands Íslands, þar sem eldri greinar úr Málfríði verða birtar sem og greinar framtíðarinnar. Málfríður er sérmerkt á vef Skólavörðunnar og stefnt er að birtingu að minnsta kosti tíu greina á ári hverju.

Ritstjórn Málfríðar hvetur félaga í STÍL til að senda inn greinar og eða hugmyndir að efni til að fjalla um. Ritstjórnin vonar að þessar breytingar á útgáfunni verði til þess að greinar og pistlar tungumálakennara muni ná til breiðari lesendahóps – og að efnið veki hugmyndir, kveiki umræðu og nái athygli fyrr en ella.

Valdar greinar úr þessu síðasta tölublaði Málfríðar verða birtar á vef Skólavörðunnar á næstu vikum – þær verða sérmerktar Málfríði og vakin verður athygli á innihaldi þeirra á samfélagsmiðlum sem Kennarasambandið hefur yfir að ráða.

Margt áhugavert er að finna í þessu tölublaði Málfríðar og að þessu sinni má segja að norræn slagsíða sé á greinaskrifunum.

Í blaðinu er að finna þetta efni meðal annars:

  • Viðtal við Gerði Guðmundsdóttur sem sat í fyrstu ritnefnd Málfríðar, 1985-1988.
  • Steinunn Stefánsdóttir, þýðandi og MA-nemi í þýðingafræði, fjallar um niðurstöður eigindlegrar rannsóknar á upplifun íslenskra læknanema í Svíþjóð af skóladönskunni sem grunni fyrir sænskukunnáttu.
  • Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, Tungumálaveri, og Þórhildur Oddsdóttir, Mála- og menningardeild við Háskóla Íslands, fjalla um niðurstöðu rannsóknar á afstöðu nemenda í 10. bekk á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi til Norðurlandamála.
  • Reynir Þór Eggertsson, ásamt félögum í stjórnum Félags dönskukennara 2016 og 2017, fjallar um námsframboð í dönsku á námsbrautum til stúdentsprófs í íslenskum framhaldsskólum.
  • Ida Løn og Ingibjörg Ólöf Sigurðardóttir, dönskukennarar við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, skrifa dagbók um sumarnámskeiðið á Schæffergaarden 2016.
  • Reynir Þór Eggertsson segir frá þátttöku í vinnustofu um starfendarannsóknir sem hann sótti í Graz í Austurríki í nóvember 2016.
  • Samuel Lefevere, frá Félagi enskukennara, námskeið fyrir enskukennara sem haldið verður nú í sumar 2017.

Lesið Málfríði hér

Viðfangsefni: Tungumálakennsla, Málfríður, Tungumálanám