Samstarfsnet um starfendarannsóknir fyrir tungumálakennara

05.03.2018 | Málfríður

Samstarfsnet um starfendarannsóknir fyrir tungumálakennara

Haustið 2016 fór ég á vinnustofu um starfendarannsóknir hjá Evrópska nýmálasetrinu í Graz í Austurríki (ECML). Áður hafði ég ekki velt starfendarannsóknum mikið fyrir mér og get fúslega viðurkennt að ég hafði miklað fyrirbærið fyrir mér – haldið að þær þyrftu alltaf að vera mjög viðamiklar og ná til margra þátta í eigin starfi. Raunin er auðvitað allt önnur, eins og ég komst að þar og hægt er að rannsaka mjög afmarkaða þætti vinnunnar til lengri eða skemmri tíma.“ (Reynir Þór Eggertsson í Málfríði 2. tbl. 32. árgangur, 2016)

Verkefnið, Action Research Communities for Language Teachers (Samstarfsnet um starfendarannsóknir í tungumálakennslu) er eitt af tíu verkefnum sem eru á dagskrá hjá Nýmálasetrinu í Graz (ECML) á tímabilinu 2016 – 2019. Allt starf nýmálasetursins hefur að markmiði að auka framþróun og gæði kennslu í erlendum tungumálum.

Hugmyndin að baki ARC verkefninu er að koma á evrópsku mannauðsneti sem eykur gæði og framþróun í námi og kennslu tungumála og hefur starfendarannsóknir og ígrundun að hreyfiafli.

Meginmarkmið verkefnisins eru:

– að þróa aðferðir við starfendarannsóknir sem stuðla að auknum gæðum náms og kennslu í tungumálum og hvetja til umræðu.

– sýna fram á hvernig rannsóknir geta bætt kennslu og kennsla bætt rannsóknir.

– gefa dæmi um hvernig starfendarannsóknir gagnast kennurum og nemendum í dagsins önn.

– útbúa Evrópskt snið/fyrirmynd að verkefnum til jafningjafræðslu í starfendarannsóknum í tungumálakennslu.

Verkefnisstjórnin er, auk undirritaðrar, skipuð sérfræðingum frá Austurríki, Bretlandi og Rúmeníu og samstarfsaðilum frá Ítalíu, Sviss, Austurríki og Kanada.

Hvers vegna?
Komið hefur fram hjá talsmönnum starfendarannsókna að þátttaka kennara í rannsóknum á kennslu séu nauðsynleg forsenda þess að rannsóknirnar skili tilætluðum árangri. „Í stuttu máli má segja að starfendarannsókn sé rannsókn sem starfsmaður gerir á eign starfi í því augnamiði að skilja það betur og þróa til betri vegar. Grunnhugmyndin er að læra í starfi: taka til athugunar reynslu sem maður verður fyrir og þá með þeim ásetningi að átta sig betur á því sem maður er að gera og hvaða afleiðingar gerðir manns hafa“ (Hafþór Guðjónsson, 2008).

ARC verkefninu er ætlað að styðja tungumálakennara í að verða aflvakar í eigin starfsþróun og rannsóknum á eigin kennslu. Starfendarannsóknir byggja á gagnaöflun á eigin vettvangi og ígrundun á eigin starfi. Þær veita tungumálakennaranum staðfestingu og/eða nýja sýn á eigin viðhorf, þekkingu, hæfni og starfshætti.

Hvernig?
Unnið er að því að mynda samstarfsnet með þátttakendum frá Evrópulöndum sem aðild eiga að ECML um samvinnuverkefni sem byggja á starfendarannsóknum.

Haustið 2016 var haldin tveggja daga vinnustofa í Graz með fulltrúum frá 31 landi. Þátttakendur komu úr grunnskólum, framhaldsskólum, háskólum, starfsþróunarstofnunum og ráðuneytum. Reynir Eggertsson var fulltrúi Íslands, en vinnustofuna sótti einnig Þórhildur Oddsdóttir, aðjúnkt við Mála og menningardeild í HÍ.

Meðal fjölbreyttra viðfangsefna á vinnustofunni voru stuttar kynningar á starfsaðstæðum þátttakenda, pallborðsumræður, vinna í litlum hópum og kynningar á framvindu, auk fjölmargra smáverkefna og ísbrjóta sem gáfu þátttakendum tækifæri til að kynnast og tengjast.

Markmið vinnustofunnar var að þátttakendur kynntust af eigin raun eðli og framkvæmd starfendarannsókna og settu fram rannsóknarspurningu sem snýr að eigin starfsháttum og/eða starfsumhverfi. Þá tók við tengslaverkefni sem gekk út á að finna aðra í hópnum sem hafa sett fram spurningar um skyld efni/áhugasvið og finna sameiginlegan flöt sem þeir telja sig geta unnið sameiginlega að, þótt landfræðileg vík sé á milli. Í kjölfarið settu þátttakendur fram drög að verkefni sem unnið var þvert á landamæri með hjálp ólíkra tæknimiðla – allt frá samstarfi í tölvupósti til netfunda í beinni. Íslenska verkefnið er gott dæmi um að mönnum svipar saman hvar sem þeir eru staddir og hvet ég menn til að lesa grein Reynis sem vitnað er til í upphafsorðum þessarar greinar.

Dæmi um rannsóknarefni sem urðu til í vinnustofunni:

– Tvíþætt tungumálanám (CLIL) í starfsmenntaskólum, séð með augum nemenda (Serbía, Makedónía).

– Helstu áskoranir sem CLIL kennarar standa frammi fyrir. (Tékkland, Pólland)

– Að samþætta/aðlaga gagnrýna hugsun námi og kennslu í aðferðum við orðaforðatileinkun. (Albania, Lettland)

– Aukin notkun markmálsins í þýskukennslu (Lichtenstein, Litháen)

– Stuðlar kennsla í aðferðum við val og nám á orðforða (vocabulary noticing strategies) að nemendasjálfstæði (learner autonomy)? (Tvær starfsþróunarstofnanir á Írlandi: EAL & MFL)

– Að nýta EPOSTL til ígrundunar við að auka vitund og hæfni kennaranema áður en þeir hefja vettvangsnám og á meðan á vettvangsnámi stendur (Bosnia og Heregóvína, Grikkland).

– Sammenningarleg verkefni í enskukennslu (Danmörk, Svartfjallaland, Austurríki)

– Hlutverk kennarans sem meðhöfundar í uppbyggingu þekkingar: Samræður um kennslufræði sem kennsluaðferð í þjálfun kennaranema (Sviss og Slóvenía).

– Notkun fréttamiðla á neti og Facebook í þvermenningarsamskiptum (Ísland, Króatía)

– Ólíkar gerðir nemendamiðaðra verkefna í kennslu á þýsku sem erlends tungumáls og áhrif þeirra. (Finnland, Frakkland).

Í hverjum hópi skilgreindu þátttakendur sameiginlega starfendarannsókn sem síðar var prófuð á vettvangi. Að því loknu sendu allir hópar inn skýrslu um reynslu sína af verkefninu.

Næsta skref er að 14 þátttakendum verður boðið til Graz í maí 2018 til að kynna niðurstöður og bera saman reynslu sína af vinnunni. Þar munu þeir greina frá vali sínu á verkefni, aðstæðum þegar og þar sem rannsóknin var gerð, áföngum, niðurstöðum, lærdómi og næstu skrefum fram á við.

Verkefni stýrihópsins er að útbúa leiðbeiningar og gögn fyrir samstarfsnet í starfendarannsóknum og verkefni sem nota má við þjálfun í að bæta kennslu með því að tengja góða starfshætti og rannsóknaraðferðir. Við vinnslu efnisins verður byggt á reynslu af vinnustofum, verkefnum, endurgjöf og reynslu þátttakenda.

Fram kemur að þátttakendur hafa við gagnaöflun nýtt sér ýmis fjölbreytt verkfæri starfendarannsókna, s.s. eins og upptökur, vettvangsathuganir, viðtöl, myndir, spurningakannanir og ígrundanir.

Vinnustofa á Íslandi dagana 7. og 8. júní 2018
Vinnustofur hafa verið haldnar vítt og breitt í löndum þátttakenda á undanförnum tveimur árum þar sem fyrirkomulag, efni og aðferðir hafa verið reyndar með tungumálakennurum.

Í samvinnu við STÍL Samtök tungumálakennara á Íslandi verður haldin ARC vinnustofa dagana 7. og 8. júní 2018 undir heitinu Intercultural learning in the languages´ classroom: back to the roots & into the future. Frá rótum til framtíðar: Sammenningarlegt nám í kennslustofunni. Fyrirlestrar og vinnustofustjórn mun fara fram á íslensku, ensku og þýsku.

Nú, þegar sorfið er að tungumálakennslu í skólum landsins er þetta kjörið tækifæri fyrir kennara sem fást við kennslu í ólíkum tungumálum að sameinist um eitt verkefni sem varðar aðstæður á eigin vettvangi. Svona verkefni má afmarka tíma sem getur verið eitt atriði, ein kennslustund, vinnudagur eða vika. Það má einnig nýta til að skoða tilvik yfir lengri tíma og athuga samhengi og mynstur sem hægt er að bregðast við.

Eins og Reynir bendir á í grein sinni, þá gefa starfendarannsóknir kennurum tækifæri til að skoða afmörkuð svið kennslu sinnar, bæði einir sér og/eða í félagi við aðra. Öll umræða verður faglegri og markvissari þar sem hún byggir á gagnaöflun og kennarar geta því sett hugmyndir sínar og reynslu fram af meira öryggi. Það felst ákveðin valdefling í því að hafa gert gangskör að því að rannsaka eitthvað í eigin kennslu og starfsaðstæðum og fá með því staðfestingu á því sem vel hefur gengið eða fengið ábendingu um að breytinga sé þörf – hverju eigi að breyta og jafnvel hvernig.

Starfendarannsóknir lúta eigin lögmálum sem hafa það að meginmarkmiði að skapa síkvik tengsl milli kenninga, rannsókna og framkvæmda.

Væntingar um afrakstur af ARC verkefninu

– Að þátttakendur tileinki sér aðferðir starfendarannsókna til að þróa og bæta kennslu í tungumálum.
– Að brúa bilið á milli kennsluvettvangs og fræðasamfélags.
– Að hafa jákvæð áhrif á tungumálakennslu og –nám, með stuðningi jafningja og samstarfsnets.


Starfendarannsóknir eiga við á hvaða skólastigi sem er. Hér er dæmi frá Barbro Lundberg, norskukennara í Tungumálaveri.

Velja viðfangsefni: Hver er reynsla nemenda í norsku í 7. og 8. bekk af viðfangsefnum náms og rafrænu námsumhverfi? Þessi litla rannsókn sýnir að starfendarannsókn þarf hvorki að vera löng eða flókin til að vera áhrifarík.

Velja tæki og/eða aðferð við framkvæmd: Opnar spurningar sem sendar voru út og svarað rafrænt.

– Hvordan synes du det går med norsken?
– Hva er du flinkest til i norsken?
– Hva synes du er vanskeligst i norsken?
– Jeg synes tekstene og oppgavene er _______ (sværhedsgrad)
– Hvis du fikk velge, hvilke tema ville du gjerne jobbet mer med?

Gögnin metin:
– Kennarinn fær skilaboð frá nemendum að þeir telja að þeir séu vel staddir og að þeir telji að sér gangi yfirleitt vel.

– Hún fær upplýsingar um efni/inntak náms sem nemendur langar til að vinna með, að efnið sem nú er á borð borið megi að skaðlausu vera þyngra svo tekið sé tillit til kenningar Vigotskys um svæði hins mögulega þroska (Zone of Proximal Development).

– Hún fær skilaboð frá nemendum um að bæta leiðbeiningar með verkefnum sem skila á rafrænt, hvernig á að vinna í rafrænu námsumhverfi og fylgja því eftir.

Deila með öðrum:
– Segja samstarfsfólki, foreldrum og nemendum frá niðurstöðum – bæta úr því sem bent var á að betur má fara.

Brynhildur Anna Ragnarsdóttir

deildastjóri í Tungumálveri og í sérfræðingateymi ARC hjá ECML.
Viðfangsefni: Tungumálakennsla, Tungumálanám