Samskiptamiðlar og tungumálanám

19.06.2017 | Málfríður

Samskiptamiðlar og tungumálanám

Dagana 10. og 11. nóvember síðastliðinn fór undirritaður á vinnustofu um starfendarannsóknir hjá Evrópska nýmálasetrinu í Graz í Austurríki. Þar voru auk mín frá Íslandi Brynhildur Ragnarsdóttir, einn skipuleggjenda vinnustofunnar og Þórhildur Oddsdóttir.

Áður en ég fór til Graz hafði ég ekki velt starfendarannsóknum mikið fyrir mér og get fúslega viðurkennt að ég hafði miklað fyrirbærið fyrir mér – haldið að þær þyrftu alltaf að vera mjög viðamiklar og ná til margra þátta í eigin starfi. Raunin er auðvitað allt önnur, eins og ég komst að þar og hægt er að rannsaka mjög afmarkaða þætti vinnunnar til lengri eða skemmri tíma.

Markmið vinnustofunnar var að allir þátttakendurnir færu í alþjóðlegt samstarf um stutt verkefni sem hægt væri að vinna að á um það bil þremur mánuð- um þannig að einhverjar niðurstöður lægju fyrir nú í mars. Þetta setti mig í ákveðinn vanda út af skipulagi kennslunnar hjá okkur í Menntaskólanum í Kópavogi. Einungis rúmar þrjár vikur voru eftir af kennslu annarinnar og mjög ólíklegt að ég fengi sama nemendahóp í dönsku á vorönn – nema auðvitað ef einhverjir féllu í áfanganum. Í öðru lagi var minn námshópur einn nokkurra í áfanganum og því ótækt að taka upp eitthvað glænýtt efni í mínum einvörðungu á síðustu kennsluvikunum. Í þriðja lagi var svo allsendis óvíst að ég myndi kenna dönsku á vorönninni.

Eftir nokkra íhugun (lesist „almenna frústrasjón“) ákváðum við Þórhildur að rannsaka verkefni sem við dönskukennarar í MK höfum verið að þróa undanfarin misseri og snúa að því að virkja samfélagsmiðla sem hluta af námsumhverfi nemenda.

„Fréttaveita“ verður til
Fyrir um það bil fimm árum síðan hættum við í MK nánast að nota sérútbúið hlustunarefni í dönskukennslunni og höfum í staðinn notað okkur ýmist efni sem aðgengilegt er á netinu, t.d. á YouTube, en þó aðallega á vef danska ríkisútvarpsins, www.dr.dk. Við höfum kallað þetta „hlustunarskýrslur“ (lytterapport) þar sem áherslan hefur verið lögð á að nemendur setji á blað það sem þeir heyra, stundum út frá beinum, þröngum spurningum og stundum út frá opnari spurningum eða verkefnum.

Fyrir tveimur árum byrjuðum við svo að þróa svokallaða „fréttaveitu“ (nyhedsforum) þar sem nemendur fá lista yfir fjölda danskra veffréttamiðla, bæði um almenn og sértæk málefni og eiga, yfirleitt vikulega að finna eina eða fleiri fréttir út frá ákveðnum fyrirmælum og deila inni í Facebook-hóp áfangans (eða námshóps í áfanga). Öllum fréttum á að fylgja stöðufærsla sem inniheldur stuttan útdrátt úr fréttinni (stundum á dönsku og stundum á íslensku) og ástæðu þess að nemandinn valdi fréttina. Það er þessi fréttaveita sem ég ákvað að skoða í þessari stuttu starfendarannsókn. Samhliða hlustunarskýrslunum og fréttaveitunni höfum við í MK undanfarin ár líka reynt að bæta málfræðinotkun og virkja orðaforða nemenda með vikulegum þýðingarstílum sem tengjast því námsefni sem við höfum verið að vinna með hverju sinni. Vegna starfshaga sinna hjá HÍ ákváðum við Þórhildur svo að hún kæmi inn í þetta verkefni með því að skoða sérstaklega hvaða áhrif þátttakan í fréttaveitunni hefði á stílaskrif nemenda minna.

Magda Maver, enskukennari við verkmenntaskóla í Split í Króatíu, bættist svo í hópinn og hefur hennar rannsóknarverkefni snúið að notkun samskiptamiðils sem vettvangs ritunar og munnlegra skila. Samstarf okkar Mögdu hefur svo leitt til þess að við höfum sótt um styrk í Erasmus+ áætlunina og vonumst við til þess að gera samfélagsmiðla að föstum þætti í námsumhverfi nemenda okkar; hjá henni í ensku og hjá mér í MK í nýjum þriðja þreps áfanga um Evrópu, menningu, samskipti og samstarf, sem kenndur er á alþjóðabraut skólans.

Maður á mann og rafrænt samband
En til hvers að nota samskiptamiðla í kennslu? Heimurinn hefur breyst mikið og hratt með tilkomu netsins, ekki síst snjallsímavæðingu undanfarinna ára. Tungumál eru samskiptatæki og nauðsynlegt er að tungumálanám fari fram í raunverulegu samskiptaumhverfi nemenda; bæði maður á mann og rafrænt. Samskiptamiðlar gefa færi á hraðara og hnitmiðaðra samstarfi við nemendur erlendis, deilingu ýmiss konar texta-, mynda- og hljóðefnis, frumsamins og afritaðs og umræðum um það á móðurmáli og markmáli eftir því sem við á. Á sama hátt nær kennari hraðar sambandi við þá nemendur sem eru virkir á miðlinum, hvort sem er með áminningum um heimanám eða tilfallandi efni/upplýsingum sem annars þyrftu að bíða kennslustundar og væru þá jafnvel úrelt. Samskiptamiðlar búa yfir hraða sem krefst annars konar matsaðferða en verkefni sem skilað er á hefðbundnari hátt. Þátttakan verður mikilvægari en orðalag, innihald mikilvægara en framsetning.

Frumniðurstöður athugunar minnar á fréttaveitunni sýna bæði jákvæða og neikvæða þætti sem vert er að
huga að.

Í fyrsta lagi virðist vera kynjamunur á þátttöku í þessum hluta námsins. Strákarnir eru flestir mjög fljótir að finna áhugaverðar fréttir og skil sumra stráka á þessum verkefnum eru mun betri en skil þeirra á öðrum verkefnum áfangans. Til þess að umfjöllunarefni fréttanna sem hver nemandi skilar verði ekki of einhæf þarf líklega að stýra þeim meira en við höfum gert en þó má stýringin ekki draga úr áhuganum. Það þarf því væntanlega að fara varlega í slíkar breytingar. Einhverra hluta vegna eru verkefnaskil stelpna í fréttaveituna almennt lakari en stráka og talsvert lakari en önnur skil sömu stelpna á öðrum verkefnum áfangans. Það tekur þær lengri tíma að skila fréttum og þær skila þá iðulega fréttum um fjölbreyttari málefni en strákarnir. Nokkrar ástæður geta verið fyrir þessum kynjamuni. Auðvelt er að finna nýjustu fréttir um fótbolta og aðrar íþróttir sem strákum er frekar beint í en stelpum. Þá má líka velta fyrir sér hvort fullkomnunarárátta, óöryggi og/eða kvíði valdi því að stelpur eigi erfiðara með að gera verkefni sín eins opinber og þau eru inni í Facebook-hópnum.

Í öðru lagi hefur reynst miserfitt að virkja þau í samskipti inni í Facebook-hópunum, hvort sem það felst í því að þau skrifi athugasemdir við fréttir/stöðufærslur hvers annars. Nauðsynlegt er að finna betri leiðir til þess að hvetja þau til þessara samskipta og líklegt að það þurfi að gerast í gegnum fastan hluta námsmats.

Tókst að flestu leyti vel
Að síðustu er óhjákvæmilegt að minnast á samskiptamiðilinn sjálfan sem við höfum notað, Facebook. Þar vilja ekki allir nemendur vera og nauðsynlegt er að virða það. Aftur á móti eru námsvefir eins og Inna og Moodle að mínu mati illa til þess fallnir að vera sams konar vettvangur og Facebook getur verið. Til þess þurfa þeir að verða eitthvað sem nemendur sækja í utan skólatíma. Í dag tel ég Facebook þann stað á netinu sem best er til þess fallinn að verða hluti af raunverulegu námsumhverfi nemenda en viðbúið er að það breytist snarlega og fyrirvaralítið einhvern tíma í náinni framtíð.

Nú á vorönn 2017 höfum við í MK verið að samþætta grunnhugmyndirnar um hlustunarskýrsluna og fréttaveituna, þar sem við höfum meðal annars unnið með norsku þættina Skam í áfanganum DANS2BA05. Þar fengu nemendur að velja hvort þeir horfðu á seríu 1, 2 eða 3, en eftir hvern þátt áttu þau að deila einhverju inn í Facebook-hópinn okkar, annað hvort um efni þáttarins sjálfs eða eigin þekkingu á umfjöllunarefni hans. Það er mat okkar að verkefnið hafi að flestu leyti tekist vel og við erum ekki af baki dottin með áframhaldandi framþróun á notkun samskiptamiðla í kennslu.

Greinin birtist fyrst í Málfríði, tímariti STÍL, 2. tbl. 2016.

MYND: Nemendur í MK / Anton Brink (úr safni Skólavörðunnar)

Reynir Þór Eggertsson

dönskukennari við MK
Viðfangsefni: Dönskukennsla, Framhaldsskólar