Samevrópskur tungumálarammi fyrir táknmál

07.12.2017 | Málfríður

Samevrópskur tungumálarammi fyrir táknmál

Júlía G. Hreinsdóttir, táknmálskennari og fagstjóri íslensks táknmáls á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, hefur verið í forsvari fyrir Ísland í hópi sérfræðinga sem unnu að því að móta samevrópskan tungumálaramma fyrir táknmál. Júlía hefur áratuga langa reynslu af kennslu íslensks táknmáls sem annarsmáls, námsmati og námsefnisgerð. Málfríður tók Júlíu tali.

Getur þú sagt okkur í stuttu máli út á hvað þetta verkefni gengur?

Það er til samevrópskur viðmiðunarrammi, annars vegar fyrir raddmál og hins vegar fyrir táknmál, en þar skilur ólíkur miðlunarháttur á milli. Raddmál eru tjáð með rödd og numin með heyrn en táknmál eru tjáð með höndum og numin með sjón. Táknmál hafa ekki ritmál eins og mörg raddmál og ekki er til eitt alþjóðlegt táknmál ekki frekar en alþjóðlegt raddmál (þó er til alþjóða táknun, sem notuð er í alþjóðlegum samskiptum). Áður en samevrópski viðmiðunarrammi táknmála kom til voru markmið táknmálskennslu í Evrópu mismunandi í hverju landi fyrir sig. Evrópska nýmálasetrið(ECML) ákvað að setja af stað PRO-Sign verkefnið til að koma á fót evrópskum viðmiðum í færni á táknmáli sem hægt væri að nota á faglegum grundvelli, og þá sérstaklega í sambandi við kennslu táknmáls í táknmálsfræði og táknmálstúlkun. Í mars 2012 var haldinn fundur fyrir tengslanet PRO-Sign í Graz í Austurríki, þar sem saman komu 16 döff og heyrandi sérfræðingar úr allri Evrópu, þ.m.t. einn frá Íslandi til þess að vinna að verkefninu og var afraksturinn gefinn út m.a. á íslensku undir nafninu: Táknmál og hinn samevrópski viðmiðunarrammi tungumála

Talið er að hér á landi séu um þrjúhundruð manns döff og líti á íslenskt táknmál (ÍTM) sem sitt móðurmál. Málsamfélag ÍTM er þó fjölmennara þegar fjölskyldur og vinir döff eru taldir með, auk þeirra sem vinna á einhvern hátt með ÍTM, s.s. táknmálstúlkar og kennarar döff barna. Samevrópski viðmiðunarramminn er notaður til viðmiðunar við kennslu táknmáls sem annars máls og mat á því, og því er ætlað að auka gæði táknmálskennslunnar, gera sameiginlegan grunn fyrir alla Evrópu á útfærslu námsefnis, prófa, námsmats og kennslubóka svo eitthvað sé nefnt. Ramminn er alhliða útlistun á því hvað málnemar þurfa að læra til að geta notað mál til samskipta og hvaða þekkingu og færni þeir þurfa að þróa til að geta notað málið á áhrifaríkan hátt. Lýsingin nær einnig yfir hvernig mál eru í menningarlegu samhengi. Ramminn skilgreinir mismunandi færnistig sem gerir kennurum kleift að meta nemendur á hverju námsþrepi og til lengri tíma.

Hvernig nýtist þetta táknmálskennslu á Íslandi?

Kennsla ÍTM sem annarsmáls fer fram í Háskóla Íslands, í táknmálsfræði- og táknmálstúlkun, en einnig eru haldin táknmálsnámskeið hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og í nokkrum framhaldsskólum.

Viðmiðunarramminn er afar gagnlegur fyrir táknmálskennslu hér á landi. Að geta fylgt eftir ákveðnum staðli gerir námið skýrara bæði hvað varðar markmið og getu nemenda. Það hjálpar einnig til að hafa ákveðin viðmið við gerð námsskrár og námsefnis. Handbókin er afar gagnleg og mikilvæg kennurum og þátttakendum, innihald hennar er skýrt og skilmerkilegt og auðveldar alla vinnu kennarans. Þetta leiðir til þess að kennarar hafa betri stuðning við kennsluna og við gerð námskrár því þar má finna leiðbeiningar um námsefnisgerð, námsmat, lesefni o.s.frv. Kennslan og námsefni ætti því að verða markvissari og henta betur hverju stigi. Það að vinna með staðlaðan ramma hjálpar kennurum og nemendum að meta hvar viðkomandi er staddur hverju sinni og hvaða markmiðum hann þarf að ná með því að fylgja ákveðnum viðmiðum.

Þessi viðmiðunarrammi hefur einnig hjálpað okkur hér á Íslandi við að sjá hvað við höfum og hvað okkur vantar. Við eigum mikið námsefni fyrir byrjendur en sjáum að það efni sem þarf fyrir lengra komna er annað hvort af skornum skammti, eða þarf að endurnýja að miklu leyti. Við þurfum að útbúa fjölbreyttara myndbandsefni á íslensku táknmáli, t.d. bókmenntir, fræðilega táknmálstexta, sjónvarpsþætti og kvikmyndir, kennslumyndbönd, málfræðilega flókna texta o.m.fl. Þessi vinna veitir okkur líka tækifæri til að bera okkur saman við önnur Evrópulönd og sjá hvar við stöndum gagnvart þeim með tilliti til kennslu táknmáls. Það eflir okkur að sjá að við stöndum þeim ekki langt að baki.

Út frá vinnu við PRO-Sign árin 2012-2015 vaknaði sú þörf að stofna evrópskt táknmálskennarafélag (ENSLT) og það var gert árið 2015. ENSLT hefur það markmið að þjálfa táknmálskennara í að nota táknmálsrammann og búa til og miðla námsefni. Ramminn hefur hjálpað okkur að búa til stöðumat fyrir einstaklinga; ekki einungis nemendur, heldur alla þá sem vilja vita hvar þeir standa m.t.t. færni í ÍTM. Að hafa samevrópska viðmiðunarrammann fyrir táknmál styrkir stöðu táknmála og gerir samanburð við önnur tungumál mögulegan.

Þú tókst þátt í því að þýða þessi markið yfir á íslensku. Hvaða þýðingu hefur það fyrir íslenskt táknmál?

Þýðing samevrópska viðmiðunarrammans fyrir táknmál var unnin af starfsmönnum Samskiptamiðstöðvar í samstarfi við tvo höfunda viðmiðunarrammans, þau Lorraine Leeson og Christian Rathmann, og Evrópsku tungumálamiðstöðina (ECML) fyrir milligöngu Eyjólfs Más Sigurðssonar, forstöðumanns Tungumálamiðstöðvar HÍ.

Þýðing viðmiðunarrammans á íslensku skiptir máli fyrir námskrárgerð, kennsluáætlanir, námsmarkmið, viðmiðunareyðublöð og aðrar afurðir sem verða til út frá rammanum þegar kennsla ÍTM er miðuð við hann. Þ.e. öll orðræða verður stöðluð út frá orðræðunni sem fram kemur í þýðingunni á viðmiðunarrammanum sjálfum.

Viðfangsefni: Táknmál, Döff, Táknmálskennarar