STÍL: Þurfum að standa vörð um kennslu tungumála nú sem aldrei fyrr

28.03.2018 | Málfríður

STÍL: Þurfum að standa vörð um kennslu tungumála nú sem aldrei fyrr

Samtök tungumálakennara, STÍL, hafa miklar áhyggjur af stöðu tungumálanáms og tungumálakennslu í skólum landsins. Dregið hefur úr tungumálakennslu og samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands hefur framhaldsskólanemendum sem læra mörg tungumál fækkað. Skerðing tungumálanáms virðist vera staðreynd meðfram styttingu framhaldsskólans. Á þessum tímum alþjóðavæðingar hafa aldrei fleiri erlendir ferðamenn sótt landið okkar heim og þörfin fyrir kunnáttu í erlendum tungumálum er því mikil. Erlend börn hafa aldrei verið fleiri í skólum landsins og því afar brýnt að kenna íslensku sem annað mál.

Starfsemi STÍL hefur verið fjölbreytt á síðasta starfsári. Við höfum, sem endranær, viljað minna á mikilvægi tungumálakunnáttu með því að skipuleggja fræðslufundi og fjölbreytt sumarnámskeið. STÍL stendur vörð um hagsmuni tungumálakennara en við þurfum að standa vörð um kennslu tungumála nú sem aldrei fyrr. Niðurfelling mennta- og menningarmálaráðuneytisins á styrkjum til faggreinafélaganna árið 2016 dró mjög úr virkni í þátttöku félaganna og hefur nánast útilokað þátttöku félagsfólks á landsbyggðinni til stjórnarsetu. Fjárhagsstaða samtakanna hefur versnað til muna og ástandið alls ekki gott.

Erlent samstarf, sumarnámskeið og Evrópski tungumáladagurinn

Í byrjun árs 2017 var samþykkt að gera útgáfu Málfríðar rafræna undir Skólavörðunni, útgáfumálin hafa reynst samtökunum dýr og því var þetta kærkomin breyting. Það var samþykkt til eins árs en miðað við hversu vel hefur tekist til, er ekkert því til fyrirstöðu að halda því áfram.

Fyrsta fræðsluerindið var haldið í janúar. Það var Ásta Henriksen, enskukennari í Versló, með erindið: „Sköpun í tungumálanámi“, sem hún flutti einnig fyrir hönd STÍL á ráðstefnu í Tallinn í Eistalandi í júní 2016.

Formaður STÍL; Petrína Rós Karlsdóttir og Brynja Stefánsdóttir, formaður félags dönskukennara (FDK) sóttu NORDAND ráðstefnu um fjöltyngi og Norræn annarsmálsfræði, í Vasa 7. til 9. júní.

Sumarnámskeið STÍL 2017 var haldið hjá Endurmenntunarstofnun HÍ dagana 9. og 10. ágúst og var umfjöllunarefnið "Developing theme-based lessons in foreign language teaching and improving students’ oral language“, eða þemutengd kennsla í tungumálanámi með áherslu á þjálfun munnlegrar færni nemenda. Leiðbeinandi var Carol Numrich, háskólakennari frá Colombia University. Námskeiðið var ágætlega sótt af bæði grunnskóla- og framhaldsskólakennurum. Þórunn Sleight, enskukennari, annaðist umsjón námskeiðsins.

STÍL tók að venju þátt í Evrópska Tungumáladeginum 26. september með Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, að þessu sinni var það undir titlinum: „Mál er manns aðal“, sem var tungumálakennurum til heiðurs og heppnaðist mjög vel.

Þann 9. nóvember, skipulagði STÍL í samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, fyrirlestur í Veröld með Marilyn Lambert-Drache, prófessor við York háskólann í Toronto. Titillinn á erindi Marilyn var „Tungumálakennsla og alþjóðavæðing: áskoranir og tækifæri“. STÍL var einnig í samvinnu við Félag frönskukennara, Alliance Francaise og kanadíska sendiráðið um fyrirlestur sem Marilyn flutti í Alliance Française 10. nóvember um Stöðu og þróun frönskunnar í Kanada.

Sumarnámskeið STÍL 2018 verður haldið í samvinnu við ECML (European Centre for Modern Languages) dagana 7. og 8. júní 2018 undir heitinu „Frá rótum til framtíðar: Sammenningarlegt nám í kennslustofunni“. Námskeiðið verður á íslensku, ensku og þýsku. Það er Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, deildarstjóri í Tungumálaveri Laugalækjaskóla, sem hefur umsjón með námskeiðinu. Sjá nánar grein í Málfríði frá 15.03.2018.

Á sama tíma, 7. og 8. júní, verður haldin ráðstefna NBR, Eystrasalts- og Norðurlanda deild FIPLV: „Teaching and Learning Languages in the 21st Century: Linguistic, Educational and Cultural Aspects“ og munu nokkrir þátttakendur fara frá Íslandi.

Aðalfundur samtakana verður svo þann 5. apríl kl 17:00 í Menntaskólanum við Sund og viljum við hvetja sem flesta að mæta. Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum bjóðum við upp á léttar kaffiveitingar og spjall.

Petrína Rós Karlsdóttir

formaður STÍL
Viðfangsefni: Tungumálakennsla, Tungumálanám