Nýtt námsmat – jákvæð breyting

16.05.2017 | Málfríður

Nýtt námsmat – jákvæð breyting

Þegar ég byrjaði að kenna aftur í grunnskóla haustið 2013 var aðalnámskrá grunnskóla nýútkomin og var hún mikið lesin í mínum skóla og þá sérstaklega af skólastjórnendum. Námskráin innihélt miklar breytingar á námsmati skólanna sem kölluðu á ný vinnubrögð og nýja hugsun. Flestir fundanna næstu tvo veturna fóru í umræður um hana og hvernig hægt væri að nýta þá vinnu sem við höfðum unnið og hvað þyrfti að hugsa alveg upp á nýtt.

Eftir mikla yfirlegu fóru ýmsar hugmyndir að koma og við fórum að sjá ýmsa kosti við þetta nýja námsmat, en fram að því voru margir sem litu á þetta sem tilgangslausa vinnu.

Úr Excelskjali í leiðsagnarmat
Þegar starfsfólkið í minni deild hóf að skipuleggja námsmat fyrir 10. bekk sáum við strax kostina við að hafa leiðsagnarmat, en það er í raun forsenda þessa nýja námsmats. Breytingin var m.a. sú að námsmatið í október, desember og mars gilti ekki lengur sem hluti af lokaeinkunn, nema ekki væri farið aftur í þá efnisþætti. Nemendur fengu í staðinn munnlega endurgjöf þar sem farið var yfir hvað mætti betur fara og hvað þyrfti til að ná betri hæfni í efninu. Við fundum strax hvað andrúmsloftið varð miklu betra og afslappaðra þegar nemendur vissu að próf giltu ekki lengur X% af lokamati og það var heldur ekki merkjanlegt að nemendur leggðu eitthvað minna á sig.

Með þessu vorum við farin að líta á veturinn sem ferli sem byrjaði strax með símati og nemendur fengu leiðsögn um hvað mætti gera betur og hvar pottur væri brotinn. Vonuðumst við svo eftir því að nemendur æfðu það sem betur mætti fara og bættu færni sína sem leiddi til meiri hæfni. Skiptir þá ekki lengur máli hvernig færnin er í byrjun vetrar svo lengi sem nemandi bætir færnina og lokahæfnin skipti svo öllu máli.

Margir kennarar höfðu áhyggjur af þessu og hugsuðu að nemendur legðu sig þá síður fram í þeim verkefnum og prófum sem sett voru fyrir um veturinn en sú varð ekki raunin. Allir nemendur sem vilja ná árangri sjá að það þarf að æfa færnina allan veturinn annars næst hann ekki. Námsmatið segir því ekki lengur hvað þú manst, heldur hvað þú getur.

Prófagerð og einkunnagjöf
Kostirnir við nýja matskerfið frá hlið kennarans eru margvíslegir. Fyrir það fyrsta þarf nú ekki að hugsa um stig eða vægi spurningar heldur þarf að meta hvort svarið eða úrlausnin séu C hæfni, B hæfni eða A hæfni. Verkefnin/textarnir þurfa því að vera misþung/ir og spurningar misauðveldar. Í öðru lagi þurfum við að tengja hæfniviðmiðin við prófin í byrjun þannig að bæði við og nemendur vitum hvað verkefnið reynir á og í þriðja lagi er matið auðveldara þar sem við höfum gefið út matskvarða fyrir matið m.t.t. matsviðmiðanna og því er matið auðveldara.

En við höfum líka rekið okkur á ýmislegt sem við getum ekki lengur notað í okkar námsmati, t.d. krossaspurningar. Hér í skólanum erum við með mjög marga sem eru góðir í að „tippa“ á réttan kross. Þegar maður hefur samið spurningu sem á að reyna vel á A hæfni þá er ekki hægt að bjóða nemendum að geta giskað á rétt svar. Því höfum við ekki boðið upp á slíkt. Annað er að nemendur eru stundum ekki alveg eins og maður reiknar með. Nemandi getur flaskað á C spurningu en svarað svo öllum B spurningunum. Þetta olli okkur þó nokkrum heilabrotum og leystum við þetta með sjóngreiningu sem var kynnt fyrir okkur á einum fundi í vetur. Hún virkar þannig að þegar við horfum á fjölda réttra C, B og A svara þá getum við metið hvað hann eigi að fá. Nemandi sem svarar þrem af fjórum C spurningum og öllum B spurningum og engri A spurningu fær B.

Hér höfum við líka brugðið á það ráð að kalla nemenda til okkar og spyrja þá aftur og athuga hvort hann skilji ekki alveg örugglega viðkomandi spurningu. Við höfum ekki lent í mörgum svona atvikum en það eru alltaf eitt og eitt.

Ekki svo erfitt fyrir tungumálakennara
Þessi nýja hugsun er kannski ekki svo frábrugðin þeirri hugsun sem við tungumálakennarar höfum haft. Við höfum alltaf verið með áhersluna á hæfni frekar en þekkingu. Við erum alltaf að þjálfa nemendur í að tala, hlusta, rita og lesa. Við erum sífellt að vinna í öllum hæfniflokkunum og erum sífellt allan veturinn að æfa þau í öllum matsviðmiðum.

Eins höfum við í dönskudeildinni í mínum skóla alltaf haft matskvarða, sem tengjast matsviðmiðum sem hafa auðveldað okkur einkunnagjafir og því var auðvelt að breyta því yfir í A, B, C og D. Nemendur hafa því alltaf getað séð eftir hverju er farið.

Að lokum
Því meira sem ég hugsa um nýja námsmatið og þær breytingar sem það hefur hrint af stað, því ánægðari er ég. Mér finnst þetta réttlátara, afslappaðra og raunhæfara en gamla námsmatið. Nú lít ég á veturinn sem ferli þar sem það er ekkert mál að vera illa staddur í byrjun svo lengi sem þú lærir af mistökunum og tekur framförum. Nemendur hafa allan veturinn til að æfa sig í öllum færniþáttum og þeir uppgötva langflestir fljótt að með engri þjálfun yfir veturinn næst enginn árangur og það er ekki hægt að vinna einungis vel rétt fyrir námsmat. Nemendur sem gátu áður lært og undirbúið sig rétt fyrir próf munu ekki geta það og að því leyti er þetta réttmætara mat.

Erna Ingibjörg Pálsdóttir námsmatsfræðingur lýsti þessu vel þegar hún hélt smá fyrirlestur um nýja námsmatið í vetur. Þegar maður hefur flugnám kann maður ekkert í byrjun og því væri ósanngjarnt að láta hæfnipróf sem tekið er eftir tvo mánuði gilda eitthvað af lokamati. Í fyrstu þarftu að fá leiðsögn/hjálp (C) og svo með æfingu og eftir marga flugtíma og leiðsögn ertu farinn að fljúga sjálfur einn og óstuddur (B), sumir eru kannski farnir að leika sér með dýfur og skrúfur í loftinu sem kennarinn var ekki einu sinni að ætlast til (A).

Einfalt er því fyrir kennara að hugsa um bókstafina sem leiðsögn um það hvar nemandinn er staddur í náminu og því hvaða áfangar í framhaldsskóla gætu hentað honum.

Greinin birtist fyrst í Málfríði – tímariti Samtaka tungumálakennara, 1. tbl. 32. árgangi 2016.

Katrín Jónsdóttir

dönskukennari í Réttarholtsskóla
Viðfangsefni: Tungumálakennsla, Námsmat, Grunnskólinn