Evrópski tungumáladagurinn: Mál er manns aðal

11.12.2017 | Málfríður

Evrópski tungumáladagurinn: Mál er manns aðal

STÍL og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum héldu upp á Evrópska tungumáladaginn í samvinnu við Mennta- og menningamálráðuneytið þann 26. september s.l. í Veröld – húsi Vigdísar. Að þessu sinni var boðað til málþings þar sem bæði gamalreyndir og yngri kennarar fjölluðu um stöðu tungumálakennslu í dag. Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, opnaði málþingið og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO ávarpaði samkomuna. Hafdís Ingvarsdóttir prófessor var fundarstjóri.

Málþingið var mjög vel sótt og tókst mjög vel til eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Málfríður ákvað því að spyrja nokkra tungumálakennara af yngri kynslóðinni sem tóku til máls á þinginu um þau tækifæri og þær áskoranir sem felast í starfi tungumálakennarans í dag:

„Þegar það kemur að dönskukennslu í dag og tungumálakennslu almennt, er nútímatæknin það fyrsta sem kemur upp í huga minn“, segir Pelle Damby Carøe, dönskukennari í Fjölbrautaskóla Suðurlands.

„Tæki líkt og símar og tölvur eru notuð meira og meira sem kennslugögn og hjálpartæki í kennslunni. Það er mjög jákvætt að hafa þennan möguleika sem veitir mér og nemendum tækifæri til þess að vinna með fjölbreyttara efni. Þar má nefna danska sjónvarpsþætti á netinu sem uppfærast stöðugt, ýmsar greinar á dönsku, orðabækur, málfræði, fréttablöð, google translate og samskiptamiðlarnir Facebook, Twitter og Instagram“.

Pelle setur spurningamerki „við getu og kunnáttu nemandans til að nýta sér nútímatæknina rétt. Það er ótrúlega mikilvægt að nemandinn geti notað tæknina rétt í kennslu og lærdómi. Ef nemandinn veit ekki hvernig á að nota ákveðna orðabók á netinu, reglur í sambandi við ákveðinn orðaflokk, google translate og fleira, er auðvelt að villast án þess að gera sér endilega grein fyrir því. Því er mikilvægt að ég sem dönskukennari ásamt öðrum tungumálakennurum hafi færni og hæfni til að hjálpa og leiðbeina nemendum að nýta sér nútímatæknina í kennslu og námi.

„Það má því segja að nútímatæknin sé stærsta áskorun tungumálakennara og nemenda, en jafnframt stærsta tækifærið ef hún er notuð á réttan hátt“.


Ekki alltaf hægt að „multitaska“
Solveig Þórðardóttir, þýskukennari í Menntaskólanum við Sund segist, líkt og Pelle, sjá bæði áskoranir og tækifæri þegar kemur að notkun snjalltækja í kennslu. „Það felst tækifæri í því að minnka pappírsnotkun og þar sem nemendur eru góðir að nota snjallsíma og ýmsa tækni er oft jákvætt fyrir þau að fá að nota snjalltæki í kennslu. Það getur líka aukið áhuga. Einnig er oft gaman að brjóta upp kennslu með ýmsum forritum í símum eða tölvum og má þar nefna Kahoot, Quizziz og fleira. Það hef ég t.d. notað sem gulrót til að verðlauna góða virkni.“

En þetta er ekki alltaf auðvelt. „Þrátt fyrir að ég sjái ýmis tækifæri í snjalltækjum og tækni sé ég líka miklar áskoranir í því að fá nemendur til að einbeita sér að kennslu og líta upp úr símunum. Farsímar eru mikil truflun í tímum og oft eru nemendur áhugalausir eða óvirkir, hlusta ekki og eru uppteknir af símunum. Mér fannst einmitt gott það sem Pelle í dönskunni nefndi í sínu erindi að þau geta ekki alltaf „multitaskað“. Ef þau eru að nota síma eiga þau oft erfiðara með að einbeita sér að verkefni tímans á blaði t.d. Þess vegna tel ég það neikvætt ef leyft er að vinna alltaf með síma í tímum.“


Verkefnamiðað nám virkar vel
Hildur Jónsdóttir, spænskukennari við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ, tekur í sama streng og Pelle og Solveig. „Tækniþróunin kallar eftir breyttum kennsluháttum. Ef flestir nemendur eru með tölvur, snjallsíma eða spjaldtölvur virkar hefðbundin töflukennsla ekki.“

Hildur segir að „verkefnamiðað nám virki vel til að fá nemendur til að taka meiri þátt í kennslustundum. Í verkefnamiðuðu námi þróa nemendur færni sína á sínum hraða í gegnum verkefni og fá leiðsögn hjá kennara. Ábyrgðin er hjá þeim, svo ef þeir leyfa snjallsímum eða öðru stöðugt að trufla sig ná þeir ekki árangri. Aðrar kennsluaðferðir sem ég tel henta vel í þessu umhverfi eru umræður og eins í mínu tilfelli sem tungumálakennari, munnlegar æfingar í litlum hópum. Þegar nálægðin er svona mikil og kennslan fer að miklu leyti fram í formi samræðna milli kennara og nemanda valda snjalltækin síður truflun.“

Hildur telur að hver kennari þurfi að læra hvernig best sé að vinna með snjalltækin inni í kennslustofunni. „Við erum öll sammála um að tæknin sé frábær viðbót við fjölbreytnina en auðvitað er umhverfið breytt. Það er líka mikilvægt að nemendur læri hvenær er gott og nytsamlegt að nota þau og hvenær ekki. Þannig geta þeir undirbúið sig fyrir framtíðina.“


Áskorun fólgin í nýrri tækni
„Þegar íslenskir nemendur koma í framhaldsskóla hafa þau verið að læra ensku í átta til tíu ár. Allt þeirra umhverfi er á ensku: þau nota síma, tölvur, spjaldtölvur og Internetið – allt á ensku“, segir Agnes Valdimarsdóttir, enskukennari við Fjölbrautaskólann við Ármúla. „Það er því ekki skrýtið að helstu áskoranir enskukennarans skuli vera notkun snjalltækja í kennslu meðfram því að endurstilla enskukunnáttu nemanda þannig að hún byggi á orðaforða og málfræði sem er ekki notuð á samfélagsmiðlum.“

Agnes segir að enskukennsla í dag snúist ekki einungis um að „kenna þeim að skrifa, lesa, hlusta og tala ensku – það snýst um að kenna þeim málfræðireglur sem gilda í öllum tungumálum. Á meðan nemendum fer aftur í íslensku, sínu eigin móðurmáli, er ekki hægt að ætlast til þess að þau nái fullkomnum tökum á markmálinu, sama hvaða tungumál það er. Ég tala nú ekki um þegar nemendur eru að læra íslensku sem kannski sitt annað, þriðja, jafnvel fjórða tungumál og einhverskonar bland af tveimur til þremur tungumálum er talað heimavið. Það er ekki nema von að þessir nemendur eigi erfitt með að læra nýtt mál þegar þau eru að byggja tungumálakunnáttu sína á veikum grunni.“

„Ég held við getum öll verið sammála um það að kennsla, hvar sem er í heiminum, hvort sem hún snúist um tungumál eða annað, eigi undir högg að sækja vegna tækniþróunar, – ekki af því að nemendur drekkja sér í tækninni, heldur frekar vegna þess að margir kennarar eru ekki nógu snöggir í að taka þessa áskorun og breyta henni í tækifæri.“

Greinin tilheyrir Málfríði, tímariti Samtaka tungumálakennara á Íslandi – STÍL.

Viðfangsefni: Tungumálakennsla, Tungumálanám