Af gervitunglum og tungumálanámi

13.06.2017 | Málfríður

Af gervitunglum og tungumálanámi

Gerður Guðmundsdóttir er enskukennari við Menntaskólann við Hamrahlíð. Hún sat í fyrstu ritnefnd Málfríðar frá 1985 – 1988 og sat í stjórn STÍL um tíma. Málfríður leitaði til Gerðar og bað hana um að rifja fyrstu ár tímaritsins.

Þú sast í fyrstu ritnefnd Málfríðar; getur þú rifjað upp fyrir okkur hvernig það kom til að STÍL ákvað að hefja

útgáfu tímarits?

Ég held að frá byrjun hafi legið fyrir að samtökin þyrftu að eiga málgagn. Stofnfundur STÍL var í októ- ber 1985 og 1. tölublað Málfríðar kemur út í desember sama ár. Ég veit ekki hversu langur aðdragandinn var að stofnun STÍL, en á vordögum 1985 hafði endanlega verið ákveðið að gefa út blað og vinnan við 1. tölublað fór af stað.

Fagfélög kennara í erlendum tungumálum stofnuðu STÍL sem urðu regnhlífasamtök fyrir félögin. Áður en STÍL var stofnað formlega hafði verið samvinna með kennurum í erlendum tungumálum og ýmsir höfðu sótt námskeið erlendis.
Með stofnun STÍL og útgáfu tímarits var hægt að sameina krafta og svara kalli tímans. Breytingar á samfélagsháttum, breytingar á skólakerfi og tækniframfarir kölluðu á breytingar í kennslu erlendra tungumála.


Í sameiginlegu ávarpi formanna fagfélaga kennara í erlendum tungumálum segir t.d.: „Bent hefur verið á að tungumálakennarar eigi margt sameiginlegt þó þeir kenni ólík tungumál, og mætti þar nefna kennslufræðina... Von okkar er að tímaritið geti miðlað fróðleik og upplýsingum og jafnframt verið vettvangur skoð- anaskipta fyrir þá er að samtökunum standa.“ (1. tbl. 1. árg. desember 1985)

Hver voru helstu markmið Málfríðar á þessum byrjunarárum?
Markmiðin voru þau að vera vettvangur til að miðla faglegri þekkingu og skapa meiri og betri tengsl milli tungumálakennara. Vonast var til að útgáfustarfsemin mætti leiða til markvissari samvinnu tungumálakennara en áður hafði verið, að auðveldara yrði að miðla upplýsingum um nýjar aðferðir sem hentuðu til kennslu í öllum erlendum tungumálum og að miðla fréttum frá fagfélögum. Jafnframt var vonast til þess að kennarar myndu skrifa í blaðið.
Fyrsta ritnefndin fór af stað af miklum krafti og það var mjög skemmtilegt að vinna með henni. Hún var kannski einum of nýjungagjörn að mati sumra, samanber bréf sem Málfríði barst frá kennara eftir að fjallað hafði verið um notkun myndbanda í kennslu í 1. tbl. (des. 1985); jafnframt var skýrt frá því að í næsta blaði yrði fjallað um tölvunotkun í kennslu erlendra tungumála. Þetta fór fyrir brjóstið á einhverjum sem sendi Málfríði þetta skemmtilega bréf:

Til Málfríðar. Ég get ekki orða bundist. Hér sit ég með fyrsta tölublaðið af Málfríði. Í því er fjallað um myndbönd og jafnframt gefið í skyn að í næsta blaði verði fjallað um tölvur. Verður þriðja blaðið kannski helgað gervitunglum? Vitið þið ekkert um hinn venjulega kennara? Haldið þið að myndbönd og tölvur leysi allan vanda í tungumálakennslu?
Er ekki miklu nær að taka á vandamálum sem hrjá venjulegan kennara með stóran og óstýrilátan bekk í skóla sem er illa búinn tækjum?
Ein jarðbundin.

Svar Málfríðar var á þá leið að ef til vill gæti notkun tækninnar hjálpað kennurum við að ráða við óstýrilátan bekk.
Fljótlega ákvað ritnefndin að efna til hringborðsumræðna um tungumálakennslu og fá fram mismunandi sjónarmið. Í 3. tölublaði Málfríðar (nóv. 1986) eru umræðurnar birtar á blaðsíðum 11 – 26; að vísu eru myndir og auglýsingar þar líka en mikið pláss var notað enda voru þátttakendur sjö. Þeir voru:

 1. Eygló Eyjólfsdóttir, konrektor og þýskukennari við Menntaskólann við Hamrahlíð,
  Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólastjóri og dönskukennari við Stýrimannaskólann í Reykjavík,
  Guðrún Halldórsdóttir, dönskukennari og skólastjóri Námsflokka Reykjavíkur,
  Hafdís Ingvarsdóttir, dönskukennari við Verzlunarskóla Íslands og formaður STÍL,
  Jacqueline Friðriksdóttir, námsstjóri í ensku, Sigurlaug Bjarnadóttir, frönskukennari við Menntaskólann við Hamrahlíð,
  Þorsteinn Vilhjálmsson, dósent í eðlisfræði við Háskóla Íslands og formaður kennslumálanefndar HÍ.

Eins og nærri má geta voru sjónarmiðin mörg og umræðan hressileg. Óneitanlega er fróðlegt er að lesa þetta núna, rúmum 30 árum seinna.

Lokaorðin í hringborðsumræðunum voru: „Umræðan hefur farið svolítið út og suður enda verið rætt um tilgang með tungumálakennslu, kennsluað- ferðir og jafnvel kennsluefni í sömu andrá. Hvert eitt þessara atriða hefði verið nægilegt umræðuefni.“

Finnst þér tímaritið hafa tekið miklum breytingum frá fyrsta tölublaði (bæði hvað varðar efnistök og útlit)?

Mér finnst tímaritið í raun og veru ekki hafa tekið miklum breytingum hvað varðar útlit. Fyrstu tölublöð- in voru prentuð í svart/hvítu og seinna var farið yfir í að prenta í lit. Örugglega hefur kostnaður ráðið þessu. Forsíða 1. tölublaðs gaf vísbendingar um það sem koma skyldi. Þar er mynd af hnetti og máltækið Mennt er máttur er skrifað fyrir ofan hnöttinn á íslensku. Þar fyrir ofan er máltækið á átta tungumálum öðrum.

Ég held að sú stefna sem mörkuð var í upphafi varð- andi efnistök hafi reynst farsæl. Hún getur átt við á öllum tímum og rúmað breytingar sem verða á samfélagi, skóla, kennsluefni og aðferðum.

Rétt er þó að hafa í huga að þegar Málfríður hóf göngu sína var meiri einsleitni en nú er, og meira fyrir því haft að útvega upplýsingar. Þær fengust með bréfaskriftum eða í gegnum sendiráð erlendra ríkja. Internet og tölvupóstur varð ekki almenningseign fyrr en síðar. Þess vegna var Málfríður ekki aðeins vettvangur fyrir faglega umfjöllun heldur líka fyrir auglýsingar og tilkynningar af ýmsu tagi sem fagfélögin þurftu að koma á framfæri; einnig var líka mikið um frásagnir af ferð- um á ráðstefnur og námskeið.

Frá upphafi hefur blaðið verið með þemabundna umfjöllun um fagleg efni. Þemu undanfarinna ára eru að sjálfsögðu annars eðlis en þau voru í fyrstu. Í fyrstu var fjallað um notkun myndbanda, tölvunotkun, hvernig þjálfa mætti munnlega færni og þar fram eftir götunum. Seinna koma til samskiptaverkefni, heimsóknir með nemendahópa til útlanda, keppnir af ýmsu tagi sem nemendur geta tekið þátt í, þróunarvinna og rannsóknir.

Nú verður Málfríður framvegis gefin út sem veftímarit í samvinnu við Skólavörðuna. Telurðu það skref í rétta átt?

Ég tel að það sé skref í rétta átt að gefa tímaritið út sem veftímarit. Pappírsútgáfu fylgir mikill kostnaður og mikil vinna. Reyndar vildi ég gjarnan sjá Málfríði áfram gefna út eina og sér en ég geri ráð fyrir að samvinna við Skólavörðuna sé af hagkvæmnisástæðum.

Hvað myndir þú álíta mikilvægast að hafa í huga við útgáfu tímaritsins í dag?

Ég tel að Málfríður geti sem best haldið áfram á þeirri braut sem upphaflega var mörkuð og hún hefur fetað, þ.e. að vera vettvangur faglegrar umræðu á hverjum tíma. Það er ótal margt á hverjum tíma sem heppilegt er að taka til umfjöllunar.

Það sem snýr að nútímanum er t.d. breytingar sem orðið hafa á skólakerfinu á undanförnum árum, rannsóknir á sviði erlendra tungumála og kennslu þeirra, ekki síst íslenskar rannsóknir og þörf okkar fyrir kunn- áttu í erlendum tungumálum. Tæknin er að breytast og breyta miklu. Hvað mun ný tækni þýða í reynd í framtíðinni fyrir kennslu í erlendum tungumálum? Ég tel að viðtöl við sérfræðinga séu góð leið til að kynna lesendum Málfríðar niðurstöður og fá svör við spurningum eins og hvers vegna við ættum að breyta einhverju og hvernig ætti að framkvæma breytingar, ekki síður en að birta greinar.

Ef til vill væri rétt að halda Málfríði eingöngu fyrir það sem ætla má að gagnist öllum kennurum í erlendum tungumálum og nota tölvupósta og vefsíður til að miðla því sem á eingöngu erindi til kennara í ákveðnu fagfélagi.
Eins og Frú Vigdís Finnbogadóttir hefur svo margoft bent á eru tungumál lykill að heiminum – heimi sem er að ganga í gegnum miklar breytingar. Við þurfum að þora að takast á við þessar breytingar, eða með orðum Noam Chomskys: „The world is a very puzzling place. If you’re not willing to be puzzled, you just become a replica of someone else’s mind.“
Er ekki gott að kunna erlend tungumál til að forðast þetta?

MYND: Fyrsta stjórn STÍL: Efri röð f.v.: Bertha Sigurðardóttir, Hannes Stefánsson, Hrefna Arnalds og Auður Torfadóttir. Neðri röð f.v.; Elíasbet Siemsen, Hafdís Ingvarsdóttir formaður, og Sigríður Magnúsdóttir. Á myndina vantar Herdísi Vigfúsdóttur.

Viðfangsefni: Málfríður, Tungumálanám, STÍL