Aðalnámskrá framhaldsskóla og danska

10.07.2017 | Málfríður

Aðalnámskrá framhaldsskóla og danska

Ný námskrá í framhaldsskólunum í kjölfar nýrra laga frá 2008 hefur verið innleidd á síðustu misserum. Tungumálakennarar hafa orðið varir við áhrif hennar og þá kannski sér í lagi áhrif styttingar á námstíma til stúdentsprófs á námsframboð í tungumálum. Dönskukennarar eru ekki undanskildir og á vordögum 2016 ákvað þáverandi stjórn Félags dönskukennara að kanna hvernig staðið væri við eftirfarandi ákvæði Aðalnámskrár (Aðalnámskrá 2015, bls. 54):

Skólameisturum framhaldsskólanna var sent erindi þar sem þeir voru beðnir um að svara eftirfarandi spurningum:

 1. Hversu mörgum framhaldsskólaeiningum þarf nemandi að ljúka á 2. þrepi á stúdentsbrautum í þínum skóla?
  Eru allir 2. þreps áfangar skylda á stúdentsbrautum?
  Hvað skiptast þessar f-einingar á marga áfanga?
  Hvað er boðið upp á marga mismunandi dönskuáfanga á 1. þrepi?
  Hvað er hver þeirra margar f-einingar?
  Ef fleiri en einn 1. þreps áfangi er í boði, hvernig er nemendum skipt í þessa áfanga?
  Hversu margar f-einingar eru í boði á 3. þrepi í þínum skóla?
  Hversu margir áfangar eru það?

Einungis níu skólar svöruðu erindinu, fjórir stórir af höfuðborgarsvæðinu og fimm misstórir skólar vítt og breitt af landsbyggðinni. Ef litið er til fyrstu þriggja spurninganna sem fjalla um áfanga- og einingafjölda á 2. þrepi kom í ljós að í fimm þessara skóla var einungis einn 5 f-eininga áfangi skylda á stúdentsbrautum, þrátt fyrir að í öllum nema einum væri boðið upp á annan 5 f-eininga áfanga á því þrepi. Í einum skóla var krafist 7 f-eininga en í þremur 10 f-eininga.

Þessar upplýsingar staðfestu grun okkar um að ekki væri alls staðar farið eftir því ákvæði aðalnámskrár að danska (eða önnur Norðurlandamál) ættu að vera „að hæfniþrepi þrjú“, heldur virðist hópur skólameistara túlka þetta orðalag sem svo að sá fyrri af tveimur annars þreps áföngum sem í boði eru við skólana sé nóg. Þessari túlkun erum við í stjórn FDK algjörlega ósammála. Í orðalaginu „að hæfniþrepi þrjú“ hlýtur að felast að nemandi geti á grundvelli staðinna 2. þreps áfanga hafið nám á 3. þrepi – ef hann þarf að bæta við sig áfanga á 2. þrepi er hann sannarlega ekki kominn að því þriðja. Hér er við hæfi að minna á að aðalnámskrá er ígildi reglugerðar og hana ber að umgangast sem slíka.

Það kom okkur á óvart hversu mismunandi framboðið er af 1. þreps áföngum í þessum níu skólum. Í fjórum er ekki boðið upp á neinn áfanga á 1. þrepi, í tveimur er einn slíkur áfangi og í öðrum tveimur tveir og í einum er boðið upp á þrjá áfanga á 1. þrepi. Þetta sýnir líklega best hversu ólíkan námsbakgrunn nemendur hinna ýmsu skóla hafa og vonum við að alls staðar sé tekið raunhæft tillit til þessa mismunar þegar áfangafjöldi á 1. þrepi er ákveðinn.

Einungis fjórir þessara níu skóla buðu upp á dönskuáfanga á 3. þrepi, í flestum tilfellum þá einn 5 f-eininga áfanga. Einn skóli skar sig þó úr með því að bjóða upp á fjóra 5 f-eininga valáfanga.

Ómögulegt er að fullyrða út frá þessum níu skólum um námsframboð í öllum hinum, en ef rétt reynist að minna en helmingur íslenskra framhaldsskóla bjóði upp á dönskuáfanga á 3. þrepi þurfa stjórnendur þeirra að endurskoða stöðuna í ljósi námskrafna á háskólastigi í eftirfarandi greinum:
Við Háskóla Íslands:

 • lögfræði (aðgangsviðmið deilda á félagsvísindasviði 2017-2018)
  guðfræði og trúarbragðafræði
  almenn bókmenntafræði
  almenn málvísindi
  íslenska
  kvikmyndafræði
  táknmálsfræði og táknmálstúlkun
  fornleifafræði
  heimspeki
  sagnfræði (aðgangsviðmið deilda á hugvísindasviði 2017-2018)
  kennaranám, valfag í tungumáli (10 f-ein. á 3. þrepi)
  uppeldis- og menntunarfræði (aðgangsviðmið deilda á menntavísindasviði 2017-2018)

Við Háskólann á Akureyri:

 • lögfræði (aðgangsviðmið fyrir hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri 2014)

Í öllum þessum greinum er sagt æskilegt að nemendur búi yfir 3. þreps kunnáttu í dönsku eða Norðurlandamáli. Að auki er krafist 10 f-eininga á 2. þrepi í fjölda annarra þar sem lesa þarf fræðitexta á þessum málum. Þá má nefna að bæði Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst gera kröfu um fulla 2. þreps hæfni hjá væntanlegum laganemum (aðgangsviðmið námsbrauta 2017 og aðgangsviðmið fyrir BS í viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst 2017).

Þegar aðgangsviðmið í háskólanám eru ákveðin er horft til raunverulegra þarfa á hverju fræðasviði fyrir sig – þau eru ekki bara ákveðin út í bláinn. Íslensk tunga, menning og saga eru samofnar norrænni menningu og sögu, og mikill hluti íslenskra laga á rætur í dönskum lögum og því nauðsynlegt að laganemar geti nýtt sér ýmiss konar texta á dönsku. Skert dönskukennsla í framhaldsskólum hefur bein áhrif á fagmennsku framtíðarinnar í þessum fræðum, fræðiþekking tapast þegar heimildir verða óskiljanlegar og líkur á að taka þurfi upp dönskukennslu innan þeirra háskóladeilda þar sem ofantaldar greinar eru kenndar. Það þýðir auðvitað að háskólanemum gefst minni tími til að sinna námi á því fræðasviði sem þeir hafa valið sér. Það á því ekki að vera á valdsviði einstakra skólameistara í íslenskum framhaldsskólum að túlka aðalnámskrá framhaldsskóla eftir eigin geðþótta og nauðsynlegt að menntamálayfirvöld gangi úr skugga um að ákvæðum hennar sé fylgt.

Heimildaskrá:
Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011. Almennur hluti. 2015. 2. útgáfa frá 2012 með breytingum 2015. Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Aðgangsviðmið deilda á félagsvísindasviði. 2017-2018. Háskóli Íslands. Ugla – innri vefur. Sótt 1. maí 2017 af https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=skoli...
Aðgangsviðmið deilda á hugvísindasviði. 2017-2018. Háskóli Íslands. Ugla - innri vefur. Sótt 1. maí 2017 af https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=skoli&chapter=content&id=35101&kennsluar=2017.
Aðgangsviðmið deilda á menntavísindasviði. 2017-2018. Háskóli Íslands. Ugla - innri vefur. Sótt 1. maí 2017 af https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=skoli...
Aðgangsviðmið fyrir BS í viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst. 2017. Háskólinn á Bifröst. Sótt 1. maí 2017 af http://www.bifrost.is/namid/lagadeild/adgangsvidmid/.
Aðgangsviðmið fyrir hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. 2014. Háskólinn á Akureyri. Sótt 1. maí 2017 af http://www.unak.is/static/files/Heimasida/Skyrslur_og_skjol/Adgangsvidmid/adgangsvidmid_hof.pdf.
Aðgangsviðmið námsbrauta. 2017. Háskólinn í Reykjavík. Sótt 1. maí 2017 af https://www.ru.is/adgangsvidmid/.

Grein Reynis Þórs og Margrétar birtist í Málfríði, 2. tbl. 2017

Reynir Þór Eggertsson

dönskukennari við MK

Margrét Karlsdóttir

fyrrverandi formaður Félags dönskukennara
Viðfangsefni: Dönskukennsla, Danska, Aðalnámskrá framhaldsskóla, Kennsla í tungumálum