Að sleppa tökunum og búa við kaos

21.06.2017 | Málfríður

Að sleppa tökunum og búa við kaos

Sunnudaginn 5. júní tóku 24 íslenskir dönskukennarar að streyma til Gentofte, norðan við Kaupmannahöfn, til að koma sér fyrir á Schæffergården. Þessi gamli hvíti herragarður bauð okkur velkomin í sínu fallega umhverfi undir söng svartþrastarins. Og maturinn sem við áttum eftir að njóta á meðan á dvölinni stóð – hvílík dýrð! Ímyndið ykkur nýstárlega samsetningu á bragðtegundum í anda Noma, listræna uppstillingu, ævintýralega litadýrð - upplifun fyrir augu og bragðlauka.

Í upphafi námskeiðsins kynntu þátttakendur sig stuttlega og í kjölfarið fylgdi kynning á sögu staðarins. Í framhaldinu var farið í hópa til að ræða um námsmat og kennsluaðferðir. Einu sinni enn, hugsuðu eflaust sumir. Varla höfðum við lokið við kvörtunina þegar inn í fyrirlestrarsalinn kútveltist ungur maður með sárabindi á handlegg, klæddur skyrtu merktri öryggisvörslu og í kjölfar hans kom annar maður í lögreglubúningi. Þarna var á ferðinni sviðsett upphaf að hlutverkaleik sem við spreyttum okkur á fram að hádegisverði. Skemmtilegt innlegg sem hristi hópinn saman og gaf okkur dæmi um hvernig má vinna með orðaforða en gaf um leið fyrirheit um þann anda sem einkenndi námskeiðið í heild.

Starfendarannsóknir
Við fengum Karen Lund í heimsókn en hún er prófessor við Århus Universitet í kennslu erlendra tungumála. Undir yfirskriftinni ,,Et serviceeftersyn af vores sprogpædagogiske praksis“ (starfendarannsóknir á þeirri kennslufræði sem við beitum í tungumálakennslunni) talaði hún af smitandi áhuga um nám og kennslu með sköpunarmátt tungumálsins að leiðarljósi. Nokkur dæmi sem kitluðu málstöðvar heilans: „Danska er orðin meira „skólaleg“ [...] „nema manni finnist í lagi að nemendur tali reiprennandi vitlaust mál“ [...] „byrjendamálið er mál til að lifa af, til að geta keyrt leigubíl eða selt pizzu“ og loks sagði hún þessa gullnu setningu: „við verðum að sleppa tökunum og þola þá ringulreið sem myndast í stofunni þegar nemendur eru virkir í náminu.
Ásdís Grétarsdóttir, námsráðgjafi við F.Á og Pernille Folkmann, lektor í dönsku við H.Í. voru með innleggið ,,Giv slip og leg med“ (slepptu þér og leiktu með). Hópurinn fór í þrenns konar leiki og Ásdís talaði um hversu hollt það er að nota leik sem hluta af kennslunni. Pernille ræddi um talmál. Þátttakendur skilgreindu hugtakið í minni hópum áður en allur hópurinn ræddi saman. Til dæmis var rætt um hvernig má nota smáorðið ,,nå“ á ótal vegu í mismunandi tilgangi í talmáli; undrun, gleði, óþolinmæði, hneykslan.

Flow er flott
Frans Ørsted Andersen hélt fyrirlestur undir heitinu ,,Leg i sprogundervisningen“. Áfram var leikurinn í brennidepli og allir tóku virkan þátt. Frans ræddi um samvinnunám (Cooperative Learning) að hætti Spencer Kagan og Jette Stenlev og einnig um kenninguna ,,FLOW“. Samkvæmt henni á að útbúa passlega ögrandi verkefni sem nemendur gleyma sér við að leysa. Markmiðið er einhvers konar núvitund í kennslustofunni þar sem nemendur eru lausir við stress og leiða. Reynslan segir að stelpur hafi tilhneigingu til að leggja of mikið á sig meðan strákum hættir til að láta sér leiðast. Því meira „flow“, því fleiri nemendur í virku námi.

Með nesti í pappírspokum
Miðvikudagsmorgunninn var heldur grár. Við fórum frá Schæffergården með strætó og nesti í brúnum pappírspokum til að heimsækja Nordisk film i Valby, elsta kvikmyndaver heims. Heimsóknin í Filmbyen var fróðleg og með eindæmum skemmtileg. Þekkt sjónvarpsefni eins og Matador og Olsen-banden var tekið upp í þessum litlu rauðmáluðu húsakynnum. Við sáum ,,Løvejagten“ frá árinu 1907, sem framleidd var af Ole Olsen, stofnanda Nordisk Film. Þetta er sú danska kvikmynd sem gefið hefur mestar tekjur frá upphafi kvikmyndasögunnar og var sprenghlægileg á nútíma mælikvarða.

Eftir hádegishlé var ferðinni heitið til ,,Amager Museum“. Þar bættist ýmis fróðleikur í sarpinn um þá íbúa Amager sem komu frá Hollandi á miðri 16. öld og höfðu mikil áhrif á menningu staðarins og Danmerkur allrar. Hér má t.d. nefna öskudagssiðinn að slá köttinn úr tunnunni. Þaðan lá leiðin til Dragør og fengum við leiðsögn um bæinn og sögu hans. Á veitingahúsinu Beghuset snæddum við svo hátíðarkvöldverð og fengum fyrsta flokks þjónustu og voru það því glaðir og reifir dönskukennarar sem snéru heim eftir langan og frábæran dag.

Núvitund og dýnamík
Sálfræðingurinn Ester Sorgenfrei Blom kom til okkar með námskeið og fyrirlestur sem kallaðist ,,At skabe et stressfrit klasselokale“ og fjallaði um núvitund og hvernig beita má þessari tækni til bætts skólastarfs. Hún leiddi þátttakendur í gegnum æfingar í að slaka á og beina athyglinni að eigin andardrætti og líkamsstöðu. Núvitund er þjálfun í að koma auga á það sem er hverju sinni og það var afar athyglisvert að finna orkuna í hópnum breytast á þessum fimmtudagsmorgni.

Eftir hádegi var Ida Løn með stutt praktíst innlegg sem bar heitið ,,Tale er sølv, TV er guld“. Þar var sagt frá því hvernig hægt er að nota sjónvarpsefni sem inntak til að efla munnlega færni og auka orðaforða. Svo virðist sem fleiri nemendur séu „í flæði“ (flow) þegar inntakið er í formi sjónvarpsefnis, t.d. í stað texta. Skrifleg og munnleg hæfni nemandans styrkist svo um munar og nemendur öðlast menningarlega, sögulega, almenna og sértæka þekkingu á Danmörku og Dönum.

Hópurinn fór að þessu loknu í Dyrehaven þar sem farið var í útsýnisferð á hestvagni, borðað nesti og að lokum farið í ratleik um svæðið.

Netnotkun
Simon Skov Fougt frá Professionshøjskolen Metropol talaði um kosti og galla við samræmd I-próf eða tölvupróf. Við sáum dæmi um I-próf sem hafa verið notuð sem samræmd próf í 9. bekk í dönskum grunnskólum (jafngildir 10. bekk hér) en sem reyndu um leið lítið á hæfni nemandans til að nota netið. Við könnuðum okkar eigin hæfni til að leita að upplýsingum á netinu og skoða heimasíður með það í huga að þar sé ekki allt sem sýnist. Eftir stóð meðvitund um mikilvægi þess að kenna nemendum gagnrýna notkun á netinu og um hversu flókið það er að innleiða nám, próf og kennslu byggða á netnotkun.

Og svartþrösturinn söng
Sólin skein á kóngsins Kaupmannahöfn á leið okkar niður Øster Voldgade í átt að Jónshúsi. Rithöfundurinn Kim Fupz Aakeson spjallaði um hvernig sögur verða til, hvað lestur er og hvernig lestur góðra bóka getur brúað bil milli fólks. Hann talaði af einstakri kímnigáfu svo að hláturinn bergmálaði milli veggja og út um opna glugga. Frábær skemmtun og góður innblástur í lok námskeiðsins.

Bestu þakkir til Reynis Þórs Eggertssonar og Sigurlaugar Rúnarsdóttur, skipuleggjenda námskeiðsins.

Ida Løn og Ingibjörg Ólöf Sigurðardóttir,
dönskukennarar við Fjölbrautaskóla Suðurlands

Greinin birtist í Málfríði, 2. tbl. 2016

Viðfangsefni: Framhaldsskólinn, Dönskukennsla, Skóladanska
Stillingar einingar vantar