Að byggja brýr: þýskan tengir saman

09.11.2017 | Málfríður

Að byggja brýr: þýskan tengir saman

Dagana 30. júlí til 4. ágúst síðastliðinn var alþjóðleg ráðstefna þýskukennara haldin í 16. sinn (XVI. Internationale Tagung der Deutschlehrerinnen und Deutschlehrer – ITD) í Fribourg í Sviss. Yfirskrift ráðstefnunnar var Brücken gestalten sem merkir: Byggja brýr. Undirtitill var: Mit Deutsch verbinden sem mætti útleggja sem: Þýskan tengir saman.

Í ár eru 50 ár síðan ráðstefnan var fyrst haldin en alþjóðasamtök þýskukennara (Der Internationale Deutschlehrerinnen- und Deutschlehrerverband – IDV) standa fyrir ráðstefnunni auk landsins þar sem ráðstefnan er haldin hverju sinni sem er nú fjórða hvert ár. Ráðstefnan gengur oftast á milli hinna þýskumælandi landa og/eða svæða í Evrópu. Um 1.700 þýskukennar hvarvetna að úr veröldinni sóttu ráðstefnuna í ár, mun færri en undanfarin ár (mest yfir 3.000 manns) sem helgast af því að ekki var aðstaða til að taka á móti nema takmörkuðum fjölda á ráðstefnustaðnum. Þetta orsakaði nokkra óánægju í þýskukennarasamfélaginu, en í alþjóðasamtökunum eru þýskukennarafélög frá um 90 löndum með um 250.000 félaga. Í upphafi var áætlað að takmarka fjöldann við 1.200 þátttakendur.

Auk undirritaðarar sóttu þrír félagsmenn Félags þýskukennara (FÞ) ráðstefnuna, þær Solveig Þórðardóttir formaður, Veska Jónsdóttir og Sara Níelsdóttir. Þetta var góður hópur og þakka ég ferðafélögunum hér með fyrir góðar stundir. Þetta var þriðja ráðstefna IDV sem ég sæki og er eindregið hægt að mæla með við þýskukennara að sækja slíkar ráðstefnur.

Íslensku þátttakendurnir á góðri stundu:
F.v. undirrituð, Veska, Solveig og Sara.


Ráðstefnustaðurinn Fribourg er höfuðstaður í kantónunni Fribourg/Freiburg í Sviss. Borgin stendur á gömlum merg því hún var stofnuð árið 1157. Meðal merkra bygginga þar eru gotnesk dómkirkja frá 13. öld og ráðhús frá 16. öld. Einnig má þar sjá mörg miðaldahús í gotneskum stíl. Umhverfi borgarinnar er íðilfagurt og borgin lítil og notaleg en hún stendur við ána Saane. Svæðið er tvítyngt, bæði töluð franska og þýska.

Aðalráðstefnusetrið var í Pérolles háskólanum í Fribourg. Auk þess var hluti ráðstefnunnar í Miséricorde háskólanum. Almennt voru fyrirlestrasalirnir góðir en ráðstefnan var á tveimur stöðum og um 30 mín. gangur á milli sem gerði erfiðara fyrir um að skjótast á milli viðburða. Ráðstefnan stóð í viku og dagskráin var afar fjölbreytt, svo sem fyrirlestrar fyrir alla (Plenarvorträge), pallborðsumræður (Podien), kynningar (foren), fagmálstofur (Fachprogramme), veggspjöld (Poster), kynningar forlaga á kennsluefni (Verlagspresentationen) og kynningar fagfélaga (Verbandsfenster). Mörg hundruð dagskráratriði voru á ráðstefnunni og oft mörg samtímis svo það gat verið snúið að velja. Dagskrárheftið (Tagungsprogramm) var um 180 síður, nauðsynleg handbók til að fá yfirlit um dagskrána.

Jafnan er einn dagur helgaður því að kynnast landinu af eigin raun (erlebte Landeskunde). Að þessu sinni var ferðadagurinn þriðjudagurinn 1. ágúst sem er þjóðhátíðardagur Sviss. Margar áhugaverðar skoðunarferðir voru í boði, bæði styttri og lengri. Ég valdi dagsferð á Die Schyniche Platte.

Þeir sem töluðu á setningarathöfninni lögðu áherslu á mikilvægi tungumálanáms. Sviss er þekkt fyrir fjöltyngi sitt (þýska, franska, ítalska og retórómanska) og strax í leikskóla í Fribourg er farið að búa börnin undir að læra það tungumál sem þau hafa ekki sem móðurmál (franska/þýska). Fulltrúi Lichtenstein lagði áherslu á mikilvægi þess að innflytjendur læri tungumál landsins. Þar eru tveir af hverjum þremur á vinnumarkaði útlendingar. Þar hefur verið þróað námskeið í þýsku sem á að gera fólki (líka ólæsu fólki) kleift að tala eftir 60 kennslustundir. Fyrirlesarinn sagði marga hafa sýnt aðferðafræðinni áhuga og hafa komið til að kynna sér hana.

Á pallborði sem ég var viðstödd var rætt um muninn á DaF (Deutsch als Fremdsprache) og DAZ (Deutsch als Zweitsprache) og þar voru uppi skiptar skoðanir. Annars vegar að enginn grundvallarmunur væri á þessu tvennu, það er á kennslufræði þýsku sem erlends tungumáls (DaF) og þýsku sem annars tungumáls (DAZ) (eins og til dæmis í Sviss) og hins vegar að munur væri þar á. Þessir tveir pólar voru nokkuð í umræðunni á ráðstefnunni.

Ég tók þátt í vinnuhóp þar sem fjallað var um Lehrerprofile, Lehreraus- und Weiterbildung (eiginleikar kennara, menntun og endurmenntun þeirra). Þar var fjallað um yfir hvaða færni þýskukennarar þyrftu að búa. Þar kom meðal annars eftirfarandi fram: Kommunikative Kompetenz (samskiptahæfni), Kulturelle Kompetenz (menningarhæfni), Didaktisch-methodische Kompetenz (kennslufræðileg og aðferðafræðileg hæfni), zentrale Bestandteile (aðalmálið), sind Refexionsfähigkeit (sjálfsskoðunarfærni) og Selbstkompetenz (sjálfsöryggi). Sjá einnig verkefnið EPG = European Profiling Grid og Eaquals.

Í faghluta ráðstefnunnar valdi ég Landeskunde. Áberandi var að flestir fyrirlestrarnir voru fræðilegir þar sem háskólaprófessorar, doktors- og meistaranemar voru með kynningar á því sem þeir voru að rannsaka frekar en kennarar væru að segja frá reynslu sinni af þýskukennslu eða segja frá sínum verkefnum. Sameiginlegt var hjá flestum fyrirlesurum að leggja áherslu á mikilvægi „interkulturelle Landeskunde“ þar sem menning heimalandsins og lands erlenda tungumálsins (Zielsprache) væru borin saman. Fram kom í kennslubókagreiningu að það er ekki lögð áhersla á þann þátt í mörgum kennslubókum. Bókin sem einna best kom út er Erinnerungsorte. Deutsche Geschichte im DaF Unterricht. Materialien und Kopiervorlage. Fyrir nemendur í framhaldsskólum er bókin líklega í þyngra lagi, flokkuð sem B1/C1. Í nokkrum fyrirlestrum kom fram gagnrýni á að of mikið væri af staðreyndaupptalningum í Landeskunde-bókum og að ekki væri fjallað um öll DACHL löndin (þýskumælandi löndin). Verkefni sem nemendur voru látnir gera þar sem bornar voru saman nafnhefðir í Þýskalandi og heimalandinu, sem var Rússland í þessu tilviki var kynnt, ásamt verkefni sem hét Das Wattenmeer – Landeskunde aktiv erleben. Þar lagði kennarinn áherslu á að nemendur hreyfðu sig. Sem dæmi má nefna að nemendum var skipt upp í lið og skilgreiningar orðapara lesnar. Nemendur áttu að slá á rétta orðið með flugnaspaða og vann það lið sem fékk flest stig.

Í fyrirlestri dr. Erwin Tschirner frá Leipzig kom ýmislegt áhugavert fram. Hann sagði að fyrir svona 30 árum hefði verið álitið að nemendur þyrftu það þekkja um 60% orðaforðans til að skilja texta en rannsóknir sýndu að þeir þyrftu helst að skilja 95% orðaforðans sem þýddi eitt nýtt orð í annarri hverri línu. 90% væru eitt orð í línu og væri það lágmark, annars væru textarnir allt of þungir. Fram kom að maður þarf að upplifa orð 16 sinnum til að hafa það á valdi sínu. Að baki þessum upplýsingum liggja rannsóknir sem hann vísaði til.

Í menningardagskránni (Rahmenprogramm), var boðið upp á upplestra og kvikmyndasýningar. Ég fór á athyglisverðan upplestur hjá Önnu Kim, sem er af suður- kóreönskum uppruna en ólst upp í Austurríki. Hún las upp úr nýrri bók sinni Die große Heimkehr. Einnig las hún úr bók sem heitir Invasion des Privaten þar sem sögusviðið er Nuuk á Grænlandi. Einnig sá ég kvikmyndina Heidi frá 2015 sem fékk mjög góða dóma. Þar er sögð saga Johönnu Spyri (1827-1901) um Heiðu og Pétur. Mér sýndist hún geta hentað ágætlega til kennslu og gefa jafnframt innsýn í menningu og landslag.

Formaður FÞ, Solveig Þórðardóttir, stóð fyrir hefðbundinni kynningu á landi og þjóð (Verbandsfenster) á föstudeginum sem góður rómur var gerður að enda stóð hún vaktina með heiðri og sóma.

Fram kom að á undan ráðstefnunni var haldið svokallað DACHL Seminar. Það er þriggja vikna námskeið sem haldið er í öllum þýskumælandi löndunum (tiltekinn hluti í hverju) og þátttakendur koma síðan á ráðstefnuna og segja frá. Aðildarfélögin geta tilnefnt þátttakanda á slíkt námskeið. Gaman væri ef FÞ gæti sent fulltrúa á námskeiðið sem haldið verður fyrir næstu ráðstefnu en hún verður haldin í Vínarborg dagana 2.-6. ágúst 2021, Það verður án efa spennandi ráðstefna sem íslenskir þýskukennarar flykkjast vonandi á. Mjög góður rómur hefur verið gerður að ráðstefnunum í Austurríki og eflaust verða engar fjöldatakmarkanir þar. Sækja má til dæmis um styrki til Kennarasambands Íslands og Erasmus+ styrki í samvinnu við skóla viðkomandi kennara.

Á meðan á ráðstefnunni stendur eru haldnir tveir fulltrúaráðsfundir alþjóðasamtakanna (Vertreterversammlung) sem er aðalfundur þeirra. Þar er kosin stjórn og framkvæmdir ræddar. Að þessu sinni var formaður FÞ, Solveig Þórðardóttir, fulltrúi félagsins. Í ár var seinni fulltrúaráðsfundurinn haldinn á ferðadeginum svo fulltrúarnir áttu þess ekki kost að fara í fræðsluferðirnar. Nánari upplýsingar um alþjóðasamtökin er að finna á vef þeirra og um ráðstefnuna á vef hennar.– Hér má sjá myndband frá ráðstefnunni.

Þess má geta að undirrituð sótti um styrk sem Deutsche Auslandsgeschellschaft í Lübeck auglýsti á póstlista FÞ og fékk 500 Evru styrk til að mæta kostnaði við ráðstefnuna. Kann ég félaginu bestu þakkir fyrir. Deutsche Auslandsgeschellschaft hefur oftsinnis haldið endurmenntunarnámskeið fyrir íslenska þýskukennara og styrkt þá á ýmsa lund.


Höfundur framan við aðalráðstefnusetrið


Þórdís T. Þórarinsdóttir

forstöðumaður bókasafns og þýskukennari við MS
Viðfangsefni: Þýska, Þýskukennarar