„Hálfhallærislegt að tala ensku“

22.06.2017 | Málfríður

„Hálfhallærislegt að tala ensku“

Eigindleg rannsókn á mati nokkurra íslenskra lækna sem starfa á sænsku sjúkrahúsi, á færni sinni í sænsku og þeim grunni sem dönskunám í skóla lagði undir hana.

Í kaflanum um Norðurlandamál í Aðalnámskrá grunnskóla segir að góð kunnátta í einu norrænu tungumáli sé „lykill að hvaða svæði sem er á Norðurlöndunum og greiðir fyrir öllum samskiptum.“ Aðalnámskráin er mjög í anda þeirrar málstefnu sem Norðurlöndin standa saman að og var samþykkt árið 2006. Samkvæmt norrænu málstefnunni er eftirfarandi meðal tungumálaréttinda Norðurlandabúa:


að læra að skilja og þekkja eitt skandinavískt tungumál og öðlast skilning á öðrum skandinavískum tungumálum, með það að markmiði að geta tekið þátt í málsamfélagi Norðurlanda.

Í lokaverkefni námskeiðsins Norræn tjáskipti og málstefna sem er kennt á MA-stigi í Norðurlandafræðum við Háskóla Íslands ákvað ég að leita svara við því hvort raunin sé sú að skóladanskan sé þessi lykill að norrænu málsamfélagi sem að er stefnt bæði í norrænu málstefnunni og aðalnámskrá grunnskóla.

Til þess að nálgast svar við spurningunni ákvað ég að gera litla eigindlega rannsókn. Hún fólst í því að taka viðtöl við fimm unga lækna sem allir eru í sérnámi við háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð. Í þessari grein mun ég skýra frá niðurstöðum viðtalanna og beina sjónum að kjarnanum, þ.e hvernig læknunum gengur að tala sænsku, hvort og þá hvernig skóladanskan nýttist þegar þeir voru að tileinka sér sænskuna og hvort og þá hvernig þeir notuðu ensku.

Versnandi skilningur á Norðurlandamálum
Ég hafði fyrirfram gert mér í hugarlund að ungur íslenskur læknir sem hefði engan bakgrunn í sænsku myndi grípa til ensku þegar hann kæmi til starfa á sænsku sjúkrahúsi þar sem segja má að enska sér orðin nokkurs konar lingua franca í samskiptum fólks af mismunandi þjóðernum.

Ýmislegt bendir einnig til þess að staða dönskunnar sé ekki sérlega sterk í íslensku samfélagi. Á árunum 1984, 1999, 2004 og 2006 var gerð rannsókn sem sýnir fram á að skilningi ungra Íslendinga á norrænum málum hrakar milli áranna 1984 og 2006. Rannsóknin var unnin á vegum Ulla Börestam sem sendi Dana, Svía og Norðmann út af örkinni í Reykjavík og bað þá að spyrja ungt fólk til vegar í átt að Norræna húsinu. Tveir þriðju hlutar aðspurðra skildu spurninguna árið 1984 á móti 40% árið 2006. Þriðjungur aðspurðra skipti yfir í ensku til að svara spurningunni 1984 en 80% gerðu það 2006.

Rannsóknin
Rannsóknarhópurinn taldi fimm lækna á aldrinum 31 til 39 ára, þrjár konur og tvo karla. Öll störfuðu þau á háskólasjúkrahúsinu í Lundi þangað sem þau höfðu komið til að stunda sérnám. Þau höfðu búið og starfað í Svíþjóð frá tveimur mánuðum upp í átta ár. Hér á eftir fara helstu niðurstöður viðtalanna með dæmum úr svörum viðmælenda og samanburði við aðrar rannsóknir eftir því sem við á.

Auðveldara að læra sænsku en búist var við
Viðmælendur mínir höfðu gert sér afar mismunandi hugmyndir fyrirfram um hvernig þeim myndi ganga að læra sænsku, allt frá miklum kvíða til þess að vera afar vissir um að vel myndi ganga. Hins vegar voru allir sammála um að það hefði komið þeim á óvart hversu vel þeim hefði gengið að læra sænsku, talsvert betur en þau höfðu búist við.
„Þetta var mjög erfitt, ég ætla ekkert að gera lítið úr því ... ég var náttúrlega undirbúinn undir að þetta yrði mjög erfitt .... en þetta gekk hraðar en ég hafði einhvern veginn þorað að vona,“ sagði einn og annar sagði: „Þetta voru kannski þrjár vikur sem þetta var virkilega strembið en síðan hefur þetta verið auðveldara heldur en ég bjóst við eftir það.“
Tveir viðmælendurnir sem áður höfðu átt heima í Danmörku höfðu alls ekki kviðið fyrir tungumálahliðinni í starfinu. „[É]g var einhvern veginn aldrei kvíðinn fyrir því, af því að ég var svo mikill Dani. Ég hugsaði bara að þetta yrði ekki vandamál,“ sagði annar þeirra til dæmis.

Þessi tvö sem höfðu unnið í Danmörku höfðu talað dönsku fyrstu vikurnar í starfi í Svíþjóð en hin þrjú höfðu byrjað að tala blandmál, sænsku sem byggð var á dönsku og íslensku. Enginn viðmælenda minna hafði notað ensku í upphafi og verður fjallað nánar um það síðar.

Í megindlegri rannsókn Auðar Hauksdóttur frá 1999 og 2002 eru námsmenn í Danmörku spurðir um viðhorf sín til þess hvernig þeim gengur að tala dönsku. Svarendur Auðar telja að fyrstu mánuðirnir hafi verið mjög erfiðir en eftir 3-6 mánuði hafi þeim verið farið að ganga betur bæði að skilja og tala dönsku. Aðeins rúmlega helmingur viðmælenda Auðar telur að þeim gangi vel með dönskuna.

Viðmælendur mínir eru sem sagt mun kokhraustari yfir sænskukunnáttu sinni en nemarnir í rannsókn Auðar. Hér verður þó að taka til greina að þótt læknarnir mínir hafi vissulega farið til Svíþjóðar í sérnám í læknisfræði þá fer það nám fram inni á spítala og læknar í sérnámi eru starfandi læknar á sjúkrahúsi frá fyrsta degi. Þeim er því nauðugur einn kostur að kunna málið til að geta átt samskipti við sjúklinga og samstarfsfólk. Nemendur í námi sem fer fram inni í hefðbundinni menntastofnun eiga þess á hinn bóginn frekar kost að halda sig til hlés meðan þeir treysta sér ekki til að tala. Þeim er því ekki kastað í djúpu laugina með sama hætti og mínu fólki.

Sænska á dönskum grunni
Viðmælendurnir voru allir sammála um að skóladanskan hefði komið að notum við að tileinka sér sænsku en það var nokkuð mismunandi hversu mikið þau töldu sig hafa byggt á dönskunni.

Tvö töldu að kunnátta í tveimur norrænum tungumálum gerði tileinkun á því þriðja aðgengilega: „Þegar maður fattaði hvernig maður ætti að breyta því sem maður kunni sem var þá bæði danska og íslenska, fyrst og fremst auðvitað íslenska en líka danska, þá einhvern veginn var maður allt í einu bara farinn að tala sænsku,“ sagði annar þeirra.
Aðrir tveir nefndu að kannski snérist þetta fyrst og fremst um að vera opinn fyrir því að tileinka sér nýtt tungumál. Annar þeirra nefndi til dæmis að sumarnámskeið í tungumálum, ekki síst námskeið sem hann hafði tekið án þess að kunna orð í málinu fyrir, hefði haft mest að segja. Það væri sú reynsla að hafa þurft að tileinka sér tungumál áður sem máli skipti. Ein nefndi að það að hafa flutt frá öðru landi þar sem hún var nýbúin að tileinka sér nýtt tungumál hafi hjálpað henni: „Ég vil meina að ég hafi verið búin að aktivera þessar heilastöðvar.“

Áhugavert er að bera svörin saman við sambærilega spurningu í rannsókn Þórdísar Gísladóttur frá 1999. Rannsókn Þórdísar var megindleg og hún sendi spurningalista til hóps Íslendinga sem voru búsettir í Svíþjóð. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var að tæpur helmingur taldi að bakgrunnur þeirra í dönsku hefði verið til lítils eða einskis gagns við tileinkun þeirra á sænsku.

Enska
Ég spurði viðmælendur mína hvort þeir hefðu stuðst við ensku í upphafi ferils síns í Svíþjóð. Það kom á daginn að svo hafði ekki verið, eða nánast ekki.

Einn sagði: „[O]g ég setti mig bara í þann gír hérna, ég hugsaði bara, ég ætla ekki að tala ensku, það er ekki í boði, en það er mjög auðvelt, það tala allir ensku þannig að það er mjög auðvelt að fara inn í það að tala bara ensku. Manni finnst það hálfhallærislegt að tala ensku“ og annar sagði: „en maður var þarna stundum að reyna að grípa í ensk orð til þess að bjarga sér og fólk skildi það alveg og var stundum að spyrja „viltu að við tölum ensku í staðinn?“ Og þá sagði ég alltaf nei og hélt áfram að bögglast í sænskunni.“ Og sami viðmælandi sagði: „Ég einhvern veginn rak mig fljótlega á að það var ekki endilega svo gott [að tala ensku], það var frekar að maður gæti fengið stuðning einmitt í einhverjum dönskum orðum sem maður kunni eða þá bara hreinlega íslenska orðinu.“

Einn nefndi að hann ætti stöku sinnum í erfiðleikum með að þýða fagorð á sænsku og í þeim tilvikum notaði hann ensk orð. Hann undirstrikaði þó vandlega að aðeins væri um stök orð að ræða, ekki heilar setningar, og aðspurður sagði hann að hann hefði líkast til átt í erfiðleikum með að þýða sömu orð á íslensku og hefði þá líklega einnig gripið til þess að nota stök ensk orð í íslensku samhengi.

Í rannsókn Þórdísar Gísladóttur var spurt um það hvaða tungumál fólk hefði notað fyrst þegar það kom til Svíþjóðar. 12% sagðist hafa talað dönsku og 30% skandínavísku, þ.e. rúmlega 40% notuðu mál sem leiða má líkur að að byggt sé á skóladönskunni. 25% segjast hafa notað ensku og 25% annað tungumál sem ekki er skilgreint.

Auður Hauksdóttir spyr einnig sína þátttakendur um notkun á dönsku og ensku máli og í ljós kemur að lang flestir nota dönsku í samskiptum sínum við Dani, kennara sína og samnemendur.

Mér finnst athyglisvert hversu fráhverfir viðmælendur mínir eru ensku, bæði í samanburði við hinar rannsóknirnar, ekki síst rannsókn Þórdísar, og einnig í ljósi umræðu um að enska sé afar mikið notuð innan akademíunnar.

Hins vegar má segja að allar rannsóknirnar þrjár, þ.e. sú sem hér er til umfjöllunar og rannsóknir Auðar og Þórdísar sýni fram á að verulegur hluti þeirra sem þurfa á því að halda að bjarga sér á norrænu máli geri það þótt vissulega skeri læknarnir sig úr á þann hátt að enginn þeirra styðst við ensku í upphafi.

Lokaorð
Niðurstaða mín eftir viðtölin við ungu íslensku læknana í Lundi er að skóladanskan varð þeim lykill að því að tileinka sér sænsku, og þar með aðgangsmiði þeirra að norrænu málsamfélagi eins og kveðið er á um í samnorrænu málstefnunni og í aðalnámskrá grunnskóla.

Samtölin sannfærðu mig um að ungir Íslendingar sem eru í þeirri stöðu að þurfa og vilja nota norrænt tungumál eiga góðan grunn í skóladönskunni, að minnsta kosti þeir sem hafa verið jákvæðir eða þokkalega jákvæðir gagnvart því að læra dönsku eins og átti við um viðmælendur mína.

Þess vegna ná ungu íslensku læknarnir að tileinka sér sænsku á undraskömmum tíma og nýta til þess allt sem þau eiga í farteski sínu; móðurmálið, skóladönskuna og reynslu sína af að tileinka sér annað erlent tungumál.

Ég er einnig sannfærð um að ef ekki hefði komið til dönskunám í grunn- og framhaldsskóla þá hefðu þessir viðmælendur mínir ekki átt þess kost að hafna enskunni með þeim hætti sem þeir gerðu.

Þessi grein er byggð á lokaritgerð í námskeiðinu Norræn tjáskipti og málstefna vorið 2016. Leiðbeinandi var Pernille Folkmann lektor í dönsku við HÍ. Henni er þökkuð góð leiðsögn og hvatning.

Heimildir

  1. Aðalnámskrá grunnskóla. Greinasvið. 2013. Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
  2. Auður Hauksdóttir. 2005. Hvorfor undervises der dansk i Island. Ordenes slotte. Om sprog og litteratur i Norden. Red. Auður Hauksdóttir, Jørn Lund og Erik Skyum-Nielsen. Side 157-170. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
  3. Auður Hauksdóttir. 2012. Dansk som fremmedsprog i en akademisk kontekst. Om Islændinges behov for danskkundskaber under videreuddannelse i Danmark. Københavnerstudier i tosprogethed, bind 68. Københavns Universitet, Humanistisk fakultet.
  4. Börestam, Ulla. 2015. Excuse me, but can you tell me where the Nordic House is located? Linguistic strategies in inter-Nordic communication in Iceland illustrated through participant observation. Linguistics 53 (2). Side 219-254.
  5. Deklaration om nordisk språkpolitik 2006. 2007. Nordiska Ministerrådet.
  6. Þórdís Gísladóttir. 2003. Språkvanor ogh språkattityder hos isländska invandrare i Sverige. SoLiD, nr. 15. Uppsala Universitet. Institutionen för nordiska språk.

Grein Steinunnar Stefánsdóttur birtist í Málfríði, 2. tbl. 2016.

Steinunn Stefánsdóttir

skrifar
Viðfangsefni: Dönskukennsla, Danska, Skóladanska