​Tölvustutt tungumálanám á framhaldsskólastigi – tæknin sem stuðningstæki

15.03.2017 | Málfríður

​Tölvustutt tungumálanám á framhaldsskólastigi – tæknin sem stuðningstæki

Grein þessi er byggð á rannsókn greinarhöfundar á vorönn 2014. Þegar rannsóknin var framkvæmd voru tölvur og tækni þegar orðin hluti af daglegu lífi flestra. Síðan þá hefur almenn tækninotkun auk krafna nútímasamfélagsins til tæknikunnáttu aukist stöðugt.

Í Aðalnámsskrá framhaldsskóla frá árinu 2011 kemur fram að hlutverk framhaldsskóla sé meðal annars að búa nemendur undir frekara nám og þátttöku í atvinnulífinu (Aðalnámskrá framhaldsskóla, 2011, bls. 7). Mætti því gera ráð fyrir að tæknin væri orðin stór hluti af nútímaskólastarfi. Spurningin um hversu mikið tæknin væri nýtt í kennslu vakti áhuga greinarhöfundar og ákvað hún því að kanna stöðu tækninotkunar í framhaldsskólum landsins. Þessar upplýsingar voru svo nýttar í M.Ed.-ritgerð hennar frá Háskóla Íslands. Grein þessi er stutt samantekt á niðurstöðum rannsóknarinnar.

Rannsókn
Rannsóknin var eigindleg og byggði á hálfopnum viðtölum sem tekin voru á vorönn 2014.

Við rannsóknarvinnu voru eftirfarandi spurningar settar fram:

1. Hver eru viðhorf enskukennara gagnvart notkun tölvutækni í kennslu og hvernig nýta þeir hana?

2. Hvernig meta viðmælendur aðstöðu sína á vinnustaðnum til tölvu- og tækninotkunar?

Úrtak
Sjö enskukennarar með kennsluréttindi, starfandi við jafnmarga framhaldsskóla, tóku þátt í rannsókninni. Viðmælendur voru af báðum kynjum, tveir karlmenn og fimm konur á aldrinum 28 – 44 ára. Kennslureynsla viðmælenda var frá einu og upp í 16 ár.

Notkun og viðhorf viðmælenda á tækni í kennslu
Þegar tekin voru saman svör viðmælenda varð ljóst að þeir höfðu ólíkar skoðanir á notkun tækni í námi en voru almennt jákvæðir gagnvart tækninni sjálfri og eigin persónulegu notkun. Viðmælendur töldu tölvur henta vel í kennslu þegar hægt væri að nýta þær til yfirferðar verkefna og villugreininga, ásamt því að tæknin þótti auka skilvirkni í undirbúningi kennslu jafnt sem og í kennslunni sjálfri. Upplýsingatæknin var ennfremur talin auðvelda kennurum að finna gögn til kennslu og gera þeim kleift að hafa efnið fjölbreyttara.

Notkun viðmælenda á tölvutækni í kennslu var mismikil en allir virtust beita henni að einhverju leyti.

Netið var þá helst nýtt til undirbúnings, upplýsingaleitar, notkunar netorðabóka og til að finna efni ætlað til að æfa hlustun á markmálinu. Sumir nýttu netið á fjölbreyttan hátt í sinni kennslu en notkun annarra var einhæfari.

Einn viðmælenda var þess fullviss að tæknin væri komin til að vera og við [kennarar] þyrftum að fara að hugsa fram á við. „Vertu með þeim, kenndu þeim á tæknina, nýttu þetta til þess að þau séu tilbúin í 21. öldina. Við vitum ekkert hvernig framtíðin verður, hvernig þeirra störf verða. Kenna þeim bara að nýta þetta og til að afla sér upplýsinga. Af hverju að vera með páfagaukalærdóm þegar þau hafa aðgang að netinu til að afla sér upplýsinga.“.

Öllum viðmælendum þótti henta vel að nota tækni í enskukennslu hvað varðaði framboð efnis á netinu.

„Við höfum svo mikið efni til á tölvutæku formi, forrit, vídeó, texta, netið o.s.frv. þar að auki er mikill aðgangur að upplýsingaefni, prófum og ýmsum gögnum svo ég held að enskukennarar séu alveg sérstaklega vel settir til að nýta sér tækni.“

Hinsvegar var skoðanamunur á hversu mikið ætti að nýta tölvur og tækni í kennslunni sjálfri. Sumir reyndu að stjórna tölvu- og símanotkun nemenda sinna meðan aðrir gáfu nemendum lausari taum. Þeir viðmælendur voru jákvæðari gagnvart notkun tölvutækni í tungumálanámi, virtust hafa þá skoðun sameiginlega að nemendur bæru ábyrgð á eigin námi og að þeir þyrftu að læra að vinna með tæknina.

Einn viðmælenda sagði það klárlega vera freistingu fyrir nemendur að nota tölvur og tæki í tíma í eitthvað ótengt námi en það væri ekki nýtt vandamál að nemendur fylgdust ekki með í kennslustundum.

„[...]alveg eins og þau voru annars staðar sofandi eða í símanum það er alltaf eitthvað. Þegar ég var í skóla vorum við alltaf að krota á blöð, maður finnur alltaf eitthvað [...] og þó þau séu með tölvurnar þá draga þau líka upp símana en ég held að þetta sé bara eins og með hvað annað, við þurfum bara að læra að hætta í þessum freistingum, alveg sama hvað við erum gömul.

Þeir viðmælendur sem höfðu efasemdir um notkun tölvutækni í náminu virtust að einhverju leyti telja að nemendum væri ekki fullkomlega treystandi fyrir eigin námi og það þyrfti að hafa vit fyrir þeim hvað varðar tölvu- og símanotkun.

Hvernig meta viðmælendur aðstöðu sína á vinnustaðnum til tölvu- og tækninotkunar?
Aðstaða á vinnustað og samstarfsfélagar virtust hafa afgerandi áhrif á hvort viðmælendur nýttu sér tölvutækni í sinni kennslu. Ekki var þó hægt að alhæfa um hvort afstaða viðmælenda væru önnur ef þeir störfuðu við aðra skóla eða með öðrum hópi samstarfsfélaga en leiða má líkur að því. Einn viðmælandi sagði að hann myndi eflaust nýta tækni meira í kennslu ef hann hefði fleiri fyrirmyndir meðal samkennara í þeim efnum. Annar viðmælandi sagðist einnig vilja nýta tækni meira í sinni kennslu en taldi sig ekki geta það sökum skorts á tækjum við skólann. Því má telja líklegt að þeir viðmælendur sem nýta tæknina lítið myndu frekar nýta hana hefðu þeir betri fyrirmyndir varðandi tölvunotkun í kennslu og gott tölvuaðgengi við skólann. Einnig virtust vera tengsl milli vinnustaðar og viðhorfa viðmælenda vegna þess að þeim mun tæknitengdari sem skólinn var því jákvæðari var kennarinn gagnvart tölvunotkun almennt.

Tæknikennsla í kennaranámi
Aðeins einn viðmælanda taldi sig hafa fengið góðan undirbúning í námi fyrir notkun upplýsingatækni í kennslu, en lengst er síðan sá kennari lauk námi. Aðrir viðmælendur töluðu um að hafa ekki fengið næga tæknikennslu í námi sínu, sem gæti verið ein ástæða fyrir neikvæðari viðhorfum þeirra. Þeir kennarar sem höfðu jákvæðari viðhorf störfuðu við tæknivædda skóla og hefur starfsumhverfið ef til vill leitt til betri tæknikunnáttu þeirra og um leið aukið jákvætt viðhorf gagnvart tækninotkun nemenda.

Kostir og gallar við notkun tölvutækni í tungumálanámi
Viðmælendur töldu helstu kosti tölvutækni vera þá að tæknin dýpkaði tungumálanám, gæfi kost á fjölbreyttari verkefnum, yki möguleika nemenda með námserfiðleika, gerði kennsluna skilvirkari og stuðlaði að auknu sjálfstæði nemenda. Tölvunotkun nemenda fylgdu samt sem áður ýmsir gallar að mati viðmælenda. Einn af þeim var sá að netið byði upp á aukið aðgengi áður skrifaðs efnis og yki þar með líkurnar á ritstuldi nemenda.

Tölvuvæðingin hefði einnig, að mati viðmælenda, haft neikvæð áhrif á ritun og stafsetningu nemenda. Hún hefur leitt til styttingar orða og aukningar í notkun skammstafana, með það að leiðarljósi að koma texta frá sér með fljótlegri hætti.

Niðurstöður og umræða
Þegar litið er til þess hversu mikilvæg tæknin virðist vera, er ekki að undra að flestir viðmælendur rannsóknarinnar virtust nýta sér hana að einhverju marki. Öllum viðmælendum þótti einnig henta vel að nýta sér tækni í enskukennslu en skoðanamunur var þó á hversu mikil notkunin ætti að vera.

„Skóli er ekki bara staður þar sem kennsla fer fram. Skóli er líka menningarleg stofnun þar sem ákveðnir starfshættir og orðræður eru við lýði og bera svipmót þess samfélags sem skólinn er hluti af, hefða sem þar ríkja“ (Hafþór Guðjónsson, 2012, bls. 14). Langt er frá því að hægt sé að alhæfa um niðurstöður rannsóknarinnar fyrir alla enskukennara í framhaldsskólum. Rannsóknin veitir hins vegar örlitla innsýn í skoðanir og notkun viðmælenda á tækni í kennslu ásamt því að vera vísbending um þá fjölbreytni í vinnulagi enskukennara hvað varðar tækninotkun.

Heimildir

Aðalnámskrá framhaldsskóla. (2011). Almennur hluti. Reykjavík: Mennta og menningarmálaráðuneytið

Hafþór Guðjónsson. (2012). Kennaramenntun og skólastarf í ljósi ólíkra viðhorfa til náms. Netla - veftímarit um uppeldi og menntun. Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Sótt af: http://netla.hi.is/greinar/2012/ryn/016.pdf

Magndís Huld Sigmarsdóttir. (2014). Tölvustutt tungumálanám á framhaldsskólastigi : Tæknin sem stuðningstæki í enskukennslu. Meistararitgerð: Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Sótt af: http://skemman.is/stream/get/1946/20122/45621/3/Ma... _H._Sigmarsd%C3%B3ttir._M.Ed_ritger%C3%B0.doc._HP.pdf


Greinin birtist fyrst í Málfríði – tímariti Samtaka tungumálakennara, 1. tbl. 32. árgangi 2016.

Magndís Huld Sigmarsdóttir

enskukennari
Viðfangsefni: Tungumálakennsla, Tækni, Kennsluhættir, Málfríður