Vinnuaðstaðan oft bágborin og börnin of mörg í hverju rými

29.09.2017 | Fréttir

Vinnuaðstaðan oft bágborin og börnin of mörg í hverju rými

Leikskólakennarar hafa áhyggjur af plássleysi í leikskólum; of mörgum börnum sé komið fyrir í þröngu rými og auk þess séu of mörg börn á hvern leikskólakennara.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun sem Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri, gerði dagana 22. til 25. september síðastliðinn. Könnunin var nafnlaus og var sérstaklega spurt um óskafyrirkomulag og tímafjölda við undirbúning og þau atriði sem helst hvíldu á fólki er kemur að vinnuaðstöðu og vinnutíma. Kristín segir á vefsíðu sinni, www.laupur.is, að þátttakan hafa farið fram úr væntingum sínum en alls voru svarendur 329 talsins. Hér verður fjallað um nokkuð af því sem kom fram í opnum svörum.

„Það er ljóst að mörg börn í þröngu rými er fólki hugleikið. Þetta þrönga rými hefur og í för með sér áreiti í formi hávaða og þess að ekki er hægt að skipta hópum upp,“ segir Kristín í samantekt um könnunina.
Húsakynni leikskólanna eru leikskólakennurum hugleikin og kvarta þeir yfir þrengslum, lélegri hljóðvist og hávaða. Þá sé viðverutími barna of oft of langur. „Viðverutími barna er svo mikill að sum börn eru alveg búin á því í loki vikunnar,“ hafði einn þátttakendanna á orði.

Lélegt vinnuaðstaða og skortur á nýliðum
Kristín spurði út í fyrirkomulag undirbúningstíma og í svörum þátttakenda kom meðal annars fram að oft er skortur á næði til að vinna. Þátttakendur töluðu um mikinn eril, ónæði og að undirbúningstímar voru slitnir í sundur vegna annarra starfa á deildum. „Finnst alltaf erfitt að fara frá deild í undirbúning,“ hljóðaði eitt svarið og annar þátttakandi sagði: „Erfitt að skilja deildina eftir með einni manneskju minna ná að vera, vegna undirbúnings“.

Algengt var að fólk nefndi vinnuaðstöðu í svörum sínum; þar kom fram að víða eru húsgögn úr sér gengin, tölvur gamlar og hægar, nettenging hæg. „Hljóðvist og vinnuaðstaða slæm, sums staðar eru undirbúningsherbergi hluti af kaffistofu starfsfólks og annars staðar hafa þau verið tekin fyrir sérkennslu sem þá gengur fyrir um not. Almennt kvartar fólk yfir miklum truflunum og umgangi í vinnurými sem ætlað er til undirbúnings,“ segir Kristín í samantekt um könnunina.

Þá segir Kristín að margir þátttakenda í könnuninni nefni virðingarleysi sem hluta af álaginu sem starfsfólk leikskóla býr við. Áhyggjur af lítilli nýliðun í stétt leikskólakennara eru til staðar og einn svarenda orðar það svona: „Mjög alvarleg fáliðun í okkar stétt miðað við lögin. Þetta þarf að skoða og greina og laga, án tafar. Stjórnvöld þurfa að fá skýr skilaboð frá okkur, um hversu mikilvæg og hversu verðmæt okkar störf eru í því samfélagi sem við búum í. Við eigum ekki að samþykkja að hlaupa alltaf hraðar og róa endalausan lífróður.“

Þátttakendur í könnuninni, sem var gerð í Survey Monkey, voru sem fyrr segir 329 talsins. Svörin skiptust þannig; 27% starfa í Reykjavík, 39% á höfuðborgarsvæðinu og 34% á landsbyggðinni.

Hægt er að kynna sér könnun Kristínar og aðrar áhugaverðar greinar um leikskólamál á vefsíðunni Laupur.

Samantekt Kristínar um könnunina í pdf-formi.

Viðfangsefni: Leikskólinn, Undirbúningstími, Hljóðvist, Vinnuaðstaða