Tugþúsundir kennara vantar á næstu árum

07.12.2018 | Fréttir

Tugþúsundir kennara vantar á næstu árum

Skortur á kennurum er alvarlegt og vaxandi vandamál í Skandinavíu­löndunum þremur, Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Verst er útlitið í Svíþjóð en þar mun árið 2035 vanta tæplega áttatíu þúsund kennara.

Fyrir þingkosningarnar sem voru í Svíþjóð fyrir skömmu gerði rannsóknastofnunin Novus viðamikla könnun meðal sænskra kjósenda þar sem spurt var hver væru mikilvægustu málefnin í sænsku samfélagi. Að mati mörg þúsund Svía sem tóku þátt í könnuninni er heilbrigðisþjónustan mikilvægust, málefni innflytjenda númer tvö og í þriðja sæti skólamál. Þar á eftir komu húsnæðis- og samgöngumál. Sænskir stjórnmálaskýrendur telja þessa niðurstöðu bæði eðlilega og skiljanlega, þar sem heilbrigðismál séu Svíum ætíð ofarlega í huga. Í ljósi þess að flóttamannastraumurinn til Evrópu hafi verið eitt erfiðasta mál sem margar þjóðir, ekki síst Svíar, hafi staðið frammi fyrir á síðustu árum, og enn er að verulegu leyti óleyst, sé einnig skiljanlegt að innflytjendamálin séu næstefst á listanum. Þessi tvö málefni voru mjög fyrirferðarmikil í aðdraganda þingkosninganna. Að skólamál skuli vera eitt mikil­vægasta verkefnið fram undan í sænsku samfélagi kemur heldur ekki sérlega á óvart að mati sérfræðinganna, en áhyggjur Svía varðandi skólamálin snúa einkum að einu atriði: kennaraskorti.

Sívaxandi vandi
Skortur á kennurum er ekki nýtilkomið vandamál. Um langt árabil hefur gengið illa að manna kennarastöður í sænskum grunnskólum og á allra síðustu árum hefur gengið æ verr að fá menntaða kennara til starfa. Ástandið er verst í dreifbýlinu en samkvæmt könnun sem sænska sjónvarpið, SVT, gerði síðastliðinn vetur voru 37% kennara á landsbyggðinni án kennaramenntunar. Í stærri bæjum var talan 27%. Í sumum skólum á landsbyggðinni er meira en helmingur kennara án réttinda og „kennaraveltan“ mikil milli ára.

Talsmenn sænskra kennarasamtaka segja þetta algjörlega óviðunandi og fullyrða að ástandið eigi eftir að versna til muna á næstu árum og áratugum ef ekkert verði að gert. Tvær mikilvægar staðreyndir liggja að baki þessari fullyrðingu: Í fyrsta lagi eru rúmlega 10% sænskra kennara eldri en 60 ára og því fyrirséð að sá hópur fer á eftirlaun á næstu árum. Í öðru lagi sóttu um það bil 250 þúsund manns um hæli í Svíþjóð á árunum 2014 og 2015. Þótt talan undanfarin tvö ár sé nokkru lægri er fjöldinn þó umtalsverður. Stærsti hluti þessa hóps kom með börn með sér og mun sömuleiðis að líkindum eignast börn á næstu árum. Samkvæmt útreikningum sænska kennarasambandsins þýðir þetta að eftir sautján ár, árið 2035, muni vanta 79 þúsund kennara. Einhverjir sænskir stjórnmálamenn drógu þessa háu tölu í efa þegar kennarasambandið birti hana, en eftir að hafa skoðað útreikninga og spálíkön kennaranna viðurkenndu allir stærðargráðu vandans.

Sænsku kennarasamtökin telja að á undan­förnum árum hafi um það bil 38 þúsund grunnskólakennarar hætt kennslu og snúið sér að öðrum störfum. Inni í þessari tölu eru ekki þeir sem hafa hætt vegna aldurs. Þegar spurt er um ástæður ­kemur í ljós að tvennt er langoftast nefnt: vinnuálagið og launin. Flestir í kennarastétt virðast sammála um að vinnuálagið hjá sænskum kennurum sé miklu meira en eðlilegt geti talist og hafi aukist til muna á síðustu árum. Launin hafi hins vegar ekki hækkað og séu langtum lakari en hjá mörgum stéttum sem kennarar beri sig saman við. Kennarar tala líka um skilningsleysi stjórnvalda og almennt virðingarleysi gagnvart kennarastéttinni.

Kennarar hafa bent á að sænska skólakerfið hafi á undanförnum árum hríðfallið í alþjóðlegum samanburði (t.d PISA könnunum) og þeir kenna þar um auknu álagi, fjölmennari bekkjum og þar af leiðandi takmarkaðri tíma til að sinna hverjum og einum.

En er ekki bara hægt að mennta fleiri kennara? Þessari spurningu var margoft varpað fram í umræðum og framboðsfundum í aðdraganda kosninganna. Sú spurning er hins vegar óraunhæf, því miðað við fjölda þeirra sem munu útskrifast samkvæmt spám á næstu árum yrði fjórði hver háskólanemi að velja kennaranámið. Margar hugmyndir hafa verið nefndar til að fjölga þeim sem velja kennaranám, þar á meðal stóraukið fjarnám og að kennaranám verði í boði á mun fleiri stöðum í landinu en nú er raunin. Einnig hefur verið nefndur sá möguleiki að umbuna sérstaklega menntuðum kennurum sem setjist að í dreifbýlinu og hvetja þannig fleiri til að setjast að á landsbyggðinni. Eitt eru allir sammála um: eitthvað verður að gera, annars stefnir í algjört óefni.

Líka dökkt útlit í Noregi og Danmörku
Eins og nefnt var í upphafi þessa pistils er kennaraskorturinn ekki bundinn við Svíþjóð þótt þar sé myndin dekkst. Í Noregi mun á næstu árum vanta mörg þúsund kennara, fyrir utan þá sem hætta vegna aldurs eða annarra ástæðna. Ástæðan er fyrst og fremst breyting sem gerð var á lögum og reglugerðum um fjölda nemenda í bekkjum sem nú mæla fyrir um færri nemendur í hverjum bekk. Aukinn kostnaður fylgdi þessari breytingu en fjármagnið fylgdi hins vegar ekki með, þrátt fyrir ábendingar kennara og sveitarstjórnarmanna. Norska Hagstofan (SSB) telur að eftir sjö ár, árið 2025, muni vanta um það bil 30 þúsund kennara. Nú í haust var pláss fyrir 4217 nemendur í grunnskólakennaranámi í Noregi, sem var talsverð aukning frá fyrra ári en hrekkur þó hvergi til. Í Noregi eru um það bil 60 þúsund kennarar, þar af rúmlega 4 þúsund án réttinda og fer fjölgandi. Rétt er að geta þess að í þriðja hverjum skóla í Noregi eru færri en 100 nemendur sem skýrir, ásamt stærð bekkja, fjölda kennara samanborið við Danmörku. Norskir og sænskir skólar hafa reynt að auglýsa eftir kennurum í dönskum fjölmiðlum en þrátt fyrir að launin séu hærri en í Danmörku hefur það ekki freistað margra danskra kennara.

Mikið brottfall úr kennaranámi
Danskir kennarar þurfa svo sem ekki að leita út fyrir landsteinana eftir vinnu. Í Danmörku hefur um árabil verið skortur á réttindakennurum, en samtals eru um það bil 46 þúsund kennarar starfandi í landinu og um 10% þeirra án réttinda. Kennurum án kennaramenntunar hefur fjölgað ár frá ári og forystumenn danska kennarasambandsins segja að ef svo fer sem horfir verði kennarar án kennaramenntunar orðnir fleiri en þeir menntuðu eftir átta ár.

Til að halda í horfinu þyrfti tæplega 3 þúsund nýja menntaða kennara á hverju ári en undanfarin ár hafa þeir að jafnaði verið um það bil 1500. Hluti kennaraskortsins skýrist af miklu brottfalli úr kennaranámi, en hvorki meira né minna en 40% hætta í náminu. Þar að auki hætta um það bil 5% þeirra sem byrja í kennslu eftir eitt ár.

Í Danmörku eru um það bil 17 þúsund menntaðir kennarar sem ekki starfa við kennslu. Anders Bondo Christensen, formaður dönsku kennarasamtakanna, sagði í viðtali við danska kennarablaðið að kennarar nefndu oftast þrennt þegar spurt væri um ástæður þess að þeir hefðu hætt kennslu: allt of mikið vinnuálag, ekki nægur tími til að sinna einstökum nemendum og að þeir ráði sjálfir of litlu um hvernig þeir hagi kennslunni, skipulagið sé niðurnjörvað. Anders Bondo sagði að einu nafni mætti kalla þetta óviðunandi vinnuskilyrði og það hljóti að vera markmið og hagur allra að bæta úr þeim í þeirri von að fá fleiri menntaða kennara til að snúa til baka í skólana og koma í veg fyrir að kennarar hætti vegna óánægju. Anders Bondo nefndi einnig nýja rannsókn danska menntamálaráðuneytisins þar sem kemur fram að í tíundu hverri kennslustund hjá nemanda í grunnskóla sé kennarinn afleysingakennari eða tíminn falli hreinlega niður.

„Þetta er algjörlega óviðunandi,“ sagði Anders Bondo Christensen. Hann sagði jafnframt að stjórnmálamenn segðust allir sammála því að gera þyrfi ráðstafanir til úrbóta, en svo gerist ekkert. Hann klykkti út með að nefna að í könnun sem danska hagstofan gerði nýlega hjá sveitarfélögum í landinu kæmi fram að á síðastliðnum þremur árum hefði reynst æ erfiðara að manna kennarastöður í skólunum. Það ætti bæði við um menntaða kennara og fólk án kennaramenntunar. „Ef það er vilji þeirra sem ráða að við Danir höldum í við aðrar þjóðir á menntasviðinu verður að grípa til aðgerða, fögur orð á hátíðastundum hrökkva skammt,“ sagði formaður dönsku kennarasamtakanna.

Greinin var birt í Skólavörðunni, 2. tbl. 2018

Borgþór Arngrímsson

Blaðamaður Skólavörðunnar í Kaupmannahöfn