Ný bók um leiðsagnarhlutverk kennara

06.05.2016 | Fréttir

Ný bók um leiðsagnarhlutverk kennara

Nýlega kom út bók um leiðsagnarhlutverk kennara. Bókin heitir Leiðsögn: Lykill að starfsmenntun og skólaþróun og er eftir Ragnhildi Bjarnadóttur dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Skólastjórnendur og margir kennarar annast starfstengda leiðsögn þar sem stefnt er að því að efla nýliða í starfi, styðja við símenntun kennara og stuðla að skólaþróun. Þess vegna á bókin erindi við skólastjórnendur og breiðan hóp kennara á öllum skólastigum.

Í bókinni er sjónum einkum beint að hlutverki þeirra kennara sem annast leiðsögn kennaranema í vettvangsnámi og byrjenda í kennarastarfi. Þessir leiðsagnarkennarar eru taldir sinna lykilhlutverki í kennaramenntun og er þá bæði átt við grunnmenntun kennara og aðlögun þeirra að starfi. Til þeirra eru gerðar miklar kröfur um þekkingu, reynslu og samskiptahæfni. Þeir þurfa að setja sig í spor kennaranema eða nýliða og leita leiða til að efla starfshæfni og fagmennsku þeirra í starfi. Þess vegna er mikilvægt að huga að því hvernig þeir kennarar sem taka að sér slíka leiðsögn eru undirbúnir fyrir hlutverkið.

Eflir faglega samræðu
Tilgangur bókarinnar er að efla faglega samræðu um starfstengda leiðsögn – markmið, áherslur og leiðir – bæði innan skóla og milli háskóla og starfsvettvangs. Hún nýtist sem námsefni fyrir reynda kennara sem sækja námskeið á meistarastigi um starfstengda leiðsögn og gert er ráð fyrir að hún nýtist einnig öðru skólafólki sem annast eða skipuleggur slíka leiðsögn og vill efla þekkingu sína á þessu sviði. Enda þótt mikilvægi starfstengdrar leiðsagnar sé ekki dregið í efa er margt óljóst um áherslur, útfærslur og framkvæmd.

Leiðsagnarhlutverkið
Í bókinni er í fyrsta lagi fjallað um leiðsagnarhlutverkið, ýmsar hliðar þess og samskipti sem kjarna starfstengdrar leiðsagnar. Rætt er um samræður sem verkfæri leiðsagnarkennara til að ná markmiðum um menntun. Fjallað er um viðurkenndar leiðir til að stuðla að námi á starfsvettvangi, þar sem hugtökin ígrundun og námssamfélög eru í brennidepli, og um þá möguleika sem felast í jafningjaleiðsögn í hópum nema og nýliða. Einnig er lýst aðferðum og áherslum í leiðsögn sem reynst hafa vel, sem og leiðum til að efla stuðning við nýja kennara í því óformlega námi sem fyrstu starfsárin eru.

Markmið kennaramenntunar
Í öðru lagi er fjallað um markmið kennaramenntunar. Með kennaramenntun er átt við grunnmenntun kennara, aðlögun að starfi og símenntun samhliða starfi. Meðal annars er rætt um hugtök eins og fagmennsku, fagvitund, starfshæfni og starfskenningu. Markmið með vettvangsnámi kennaranema hafa tekið breytingum á undanförnum árum, bæði hér á landi og annars staðar, og er nú lögð áhersla á aukið samstarf og samábyrgð háskóla og almennra skóla, heildstæðara vettvangsnám og gagnkvæman ávinning þessara stofnana af samstarfinu. Stefnt er að því að allir læri og beri ábyrgð, kennaranemar, háskólakennarar, leiðsagnarkennarar og skólasamfélögin. Eins og fram kemur í bókinni hafa þessar breytingar leitt til endurskoðunar á leiðsagnarhlutverki bæði kennara og skóla og aukinnar kröfu um samstarf og samábyrgð stofnana.

Kenningar um starfstengda leiðsögn
Í þriðja lagi er dregin upp mynd af helstu kenningum um starfstengda leiðsögn. Skilgreiningar á slíkri leiðsögn og markmiðum með henni eru mismunandi og í stöðugri þróun. Fjallað er um kenningar sem hafa þróast á undanförnum áratugum og er þá leiðsögn kennaranema í fyrirrúmi. Kenningunum er skipað í fjóra flokka með hliðsjón af ólíkum markmiðum með leiðsögninni. Fjallað er um helstu áherslur, hugtök, fræðilegan bakgrunn og gagnrýni á kenningarnar. Fram kemur að í sumum kenningum er menntun einstaklinga í fyrirrúmi; stefnt er að því að efla fagmennsku, starfshæfni, persónulegan styrk og félagslega hæfni kennaranemanna. Í öðrum tilvikum eru námsmarkmiðin víðtækari og nám skilgreint sem aðstæðubundið og menningarlegt ferli. Samstaða virðist ríkja um gildi samskipta og samvinnu og að starfstengd leiðsögn geti verið afl í skólaþróun og símenntun kennara.

Leiðsagnarhlutverk skóla
Í bókinni beinist athyglin ekki eingöngu að leiðsagnarhlutverki kennara heldur einnig að leiðsagnarhlutverki skóla. Þeir skólar sem taka á móti kennaranemum, þ.e. eru samstarfsskólar háskólanna, gegna mikilvægu hlutverki. Nú eiga kennaranemar að kynnast skólastarfinu í heild og skólamenningunni, en ekki einungis kennslu í bekkjum eða nemendahópum. Þess vegna er ætlast til að skólasamfélagið í heild veiti þeim stuðning með einhverjum hætti. Víða kemur fram í bókinni, og er þá vitnað í rannsóknir, að bæði leiðsagnarkennarar og samstarfsskólar geti haft verulegan ávinning af því að sinna leiðsagnarhlutverkinu. Þeir kennarar sem taka að sér nema verða að ígrunda eigið starf þegar þeir eru í leiðsagnarhlutverkinu, sem og eigin aðferðir og samskipti í leiðsögninni, og margir telja sig geta lært töluvert af kennaranemum. Leiðsögn kennaranema getur því verið liður í símenntun þeirra í starfi.

Námsefni á meistarastigi
Bókin er notuð sem námsefni á námskeiðum á meistarastigi um starfstengda leiðsögn. Í mörgum nágrannalöndum okkar hafa leiðsagnarkennarar þurft að sækja sérstök námskeið til að undirbúa sig fyrir hlutverkið. Hér á landi hefur ekki verið gerð krafa um að leiðsagnarkennarar sæki slík námskeið. Á undanförnum árum hefur meistaranemum þó gefist kostur á að sérhæfa sig á þessu sviði og reyndir kennarar í samstarfsskólum hafa getað sótt stök námskeið án þess að vera í meistaranámi. Þá er vísað til sérhæfingar í meistaranámi sem er samstarfsverkefni Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og kennaradeildar í Háskólanum á Akureyri. Nám þetta hefur verið í boði frá hausti 2013 og samanstendur af þremur 10 eininga námskeiðum. Eitt námskeiðið er kennt í báðum háskólunum og svo eitt námskeið í hvorum háskóla fyrir sig. Námið er ætlað kennurum í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og öðru fagfólki á sviði uppeldis og menntunar og er gerð krafa um tveggja ára kennslureynslu. Markmið sérhæfingarinnar er að efla hæfni kennara og skóla til að annast starfstengda leiðsögn þar sem stefnt er að starfshæfni og fagmennsku einstaklinga og hópa.

Viðfangsefni: Kennari, Kennsla